
Sigurbjörg Erla oddviti Pírata í Kópavogi hefur staðið í ströngu við að fá bæjaryfirvöld til að bregðast við ábendingum um auglýsingaskilti Framsóknarflokksins sem í tvígang voru sett upp í leyfisleysi. Áður hafi Kópavogsbær brugðist snarlega við sambærilegu máli og gert íbúa að taka niður auglýsingar á eigin lóð, en þá var um að ræða auglýsingar til stuðnings framboðs minnihlutaflokks í bæjarstjórn Kópavogs. Sigurbjörg spyr á facebook síðu sinni hvort flokkarnir sem sitja í meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs þurfi ekki að lúta sömu lögmálum og aðrir. Sigurbjörg mun fylgja málinu eftir til enda og við fylgjumst spennt með framvindunni.
Frettabladid.is fjallaði fyrst um málið 25. apríl sl. og fylgir fréttin hér:
Fær engin svör vegna „gígantískra“ skilta Framsóknar
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, segist engin svör hafa fengið frá bæjaryfirvöldum um það hvað þau hyggjast gera vegna skilta Framsóknarflokksins við Skógarlind í Kópavogi sem þar voru sett í óleyfi að sögn Sigurbjargar.
„Það er allavega vika síðan þessi skilti fóru upp,“ segir Sigurbjörg í samtali við Fréttablaðið. Hún segist hafa sent erindi á bæjarstjóra fyrir hádegi á þriðjudaginn í síðustu viku vegna málsins.
„Hann sendir þá umhverfissviði erindi sem spyrst fyrir og í hádeginu eru komin svör um það að ekkert leyfi hafi fengist fyrir þessu,“ segir Sigurbjörg.
Hún segist þá hafa spurt hvað eigi að gera í málinu og ítrekað fyrirspurnina á fimmtudag síðastliðinn og svo í morgun en engin svör hafi borist. Fréttablaðið hefur reynt að ná tali af Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs sem og Orra Hlöðverssyni, oddvita Framsóknar í Kópavogi, án árangurs.
Sigurbjörg bendir á að slíkt sé háð leyfi. Í aðdraganda þingkosninga síðasta haust segir Sigurbjörg að stuðningskona eins framboðs hafi sett upp stuðningsskilti heima hjá sér.
„Hún hengdi stuðningsskilti á grindverkið sitt, sem hún hélt að væri í lagi, enda heima hjá henni. Einhver kvartaði og henni var gert að taka þetta niður undir eins. Þessi skilti sem eru í Lindinni eru náttúrulega gígantísk, það voru einhverjar súkkulaðiauglýsingar á hinni hliðinni í síðustu viku en nú er Framsókn á báðum hliðum.“
Fréttablaðið hefur reynt að ná tali af Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs sem og Orra Hlöðverssyni, oddvita Framsóknar í Kópavogi, án árangurs
—
Eftirfylgni Sigurbjargar við málið hefur borið einhvern árangur því skiltin voru að endingu tekin niður. Í staðin spruttu þó upp ný skilti á öðrum stað í bænum eins og kom fram á frettabladid.is 29. apríl:
Skilti Framsóknar farin niður en önnur komin upp: Framsókn bíður svara
Skilti Framsóknar í Kópavogi sem sett voru upp án leyfis við Lindir eru komin niður. Önnur skilti eru komin upp í Ögurhvarfi, sem ekki heldur hefur fengist leyfi fyrir að sögn Sigurbjargar Erlu Egilsdóttur, bæjarfulltrúa Pírata. Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknar, segir framboðið bíða svara þjónustuaðila.
Fréttablaðið ræddi skiltin í Lindunum við Sigurbjörgu síðasta mánudag. Þá var vika síðan skiltin fóru upp að hennar sögn og hafði hún fengið þau svör frá bæjarstjórn að ekkert leyfi hefði fengist fyrir uppsetningunni.
Slíkar skiltauppsetningar eru háðar leyfi frá bæjaryfirvöldum. „Kópavogsbær hafði á endanum samband við lóðarhafa sem sagðist ekkert hafa með þessi skilti að gera, það sé bara einhver þriðji aðili sem á þau og setti þau þarna. Það fór því að lokum svo að einhver starfsmaður frá bænum fór og fjarlægði auglýsinguna úr rammanum,“ segir Sigurbjörg.
„Síðan er komið í ljós að það er annað eins skilti komið upp fyrir framan Bónus í Ögurhvarfi, á landi Kópavogsbæjar,“ segir Sigurbjörg. Hún hefur fengið þau svör frá bænum að ekki hafi heldur fengist leyfi fyrir umræddum skiltum.
Bíða svara þjónustuaðila
Í samtali við Fréttablaðið segir Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknar, að framboðið hafi keypt auglýsingaplássið frá þjónustuaðila í góðri trú. „Þessi skilti hafa verið þarna uppi um allangt skeið fyrir framan augun á bæjarbúum og ýmsir auglýst þarna undanfarin misseri án þess að við það séu gerðar nokkrar athugasemdir,“ segir Orri.
„Ég veit ekki hvort maður eigi að kalla það skemmtilega tilviljun að það beri svo við að um leið og það er komin auglýsing frá okkur hjóli okkar samkeppnisaðilar í málið og geri athugasemd við það,“ segir Orri. Hann segir að framboðið muni að sjálfsögðu hlýta reglum.
„Við keyptum þetta auglýsingapláss frá þjónustuaðila skiltanna eins og flest framboð hafa verið að gera. „Við höfum leitað skýringa þessara aðila sem selja þessa þjónustu og beðið þá um að fullvissa okkur um að það sé leyfi fyrir skiltunum. Hann er að kanna málið núna, við erum að bíða niðurstöðunnar og munum svo haga okkar málum eftir því hvernig hún kemur út.“
Orri segir Framsókn leggja áherslu á gleði í sinni kosningabaráttu. „Grunntónninn er þar og okkar fyrsta boðorð er einfaldlega: Allir glaðir, allir kátir. Hugsum um okkur sjálf og fólkið sem í bænum býr,“ segir Orri.