Stjórnkerfis- og lýðræðisráð leggur fram drög að upplýsingastefnu Reykjavíkur

Á síðasta fundi stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar voru lögð fram til kynningar drög að endurskoðaðri upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar, en þau voru unnin af sérstökum stýrihópi sem leiddur er af Halldóri, okkar, Auðar Svanssyni. Stefnan hefur verið unnin í opnu ferli þar sem kallað var eftir athugasemdum allra sem vildu tjá sig um hana en nú fer hún til umræðu í borgarstjórn og loks til lokastaðfestingar í borgarráði. Endurskoðuð stefna í upplýsingarmálum Reykjavíkur þar sem áhersla er lögð á gagnsæi er stór marksteinn hjá okkur Pírötum, en núgildandi stefna borgarinnar er frá árinu 2000 og síðan þá hefur margt gerst í upplýsingatækninni og upplýsingafræðum – og auðvitað Píratar komnir í borgarstjórn.

Til upprifjunar lögðu Píratar áherslu á eftirfarandi liði í stefnuskrá sinni í borgarstjórnarkosningunum síðastliðnum.

  • Stefnt skuli að því að gagnsæi í stjórnsýslunni verði algjört og nái til allra ferla við ákvarðanatökur. Fundargerðir og önnur opinber skjöl verði gerð aðgengileg á netinu. Tryggja beri að upplýsingar um öll útgjöld borgarinnar, dótturfyrirtækja hennar, byggðarsamlaga og ráðstöfun styrkja sem borgin veitir séu gefnar upp. Upplýsingar á rafrænu formi séu settar inn tímanlega og uppfærðar reglulega. Slík upplýsingagjöf lúti þó í öllum tilfellum viðeigandi persónuverndarsjónarmiðum og lögum.
  • Að skilgreint verði hlutverk ábyrgðarmanns upplýsingagagnsæis hjá Reykjavíkurborg sem ber ábyrgð á því að öll gögn sem vísað er í, t.d. í fundargerðum, séu gerð auðsýnileg og aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar við allra fyrsta tækifæri.

 

Í drögunum að nýju upplýsingastefnunni eru lögð niður sex meginmarkmið sem síðan er skipt í undirmarkmið til að tryggja framfylgd þeirra. Markmiðin eru:

Traust upplýsingamiðlun 

Felst í því að upplýsingum Reykjavíkurborgar megi treysta og að meðferð þeirra sé ávallt í samræmi við lög, siðareglur, mannréttindastefnu og aðrar viðeigandi skyldur og gildi.

Frumkvæði

Felst í því að borgin leiti stöðugt leiða til að taka saman upplýsingar, setja þær fram á skiljanlegan hátt og gera þær aðgengilegar í stað þess að bíða eftir því að fólk beri sig eftir þeim.

Skilvirkni

Felst í því að flæði upplýsinga sé gott og að sífellt sé haft í huga að meðhöndlun og miðlun upplýsinga er lykilþáttur í allri starfsemi borgarinnar.

Notendamiðað aðgengi

Felst í því framsetning og viðmót upplýsinga sé hugsað og hannað út frá mismunandi upplifun og þörfum þeirra sem nota þær til að tryggja gott aðgengi allra að þeim.

Virk samskipti 

Felast í því að miðlun upplýsinga gangi í báðar áttir, bæði frá borginni og til hennar, en upplýsingar eru grunnforsenda góðs samráðs.

Opin gögn

Felast í því að borgin leitast við að gefa út á tölvutæku formi gagnapakka, á borð við bókhaldsupplýsingar, sem aðrir geta nýtt sér til að vinna úr upplýsingum borgarinnar og setja þær fram á nýja vegu og skapa úr þeim verðmæti.

 

Það er mat Pírata í Reykjavík að uppfærð upplýsingastefna Reykjavíkur, þegar hún verður fullunnin, samþykkt og innleidd, sé ekkert annað en gjörbylting í upplýsingamálum höfuðborgarinnar. Vonandi verður borgin öðrum sveitarfélögum  fyrirmynd að þessu leyti.

 

Drög að nýrri upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar