Stjórnarmeðlimir stíga til hliðar

Á stjórnarfundi Pírata í Reykjavík, mánudaginn 18. september, stigu til hliðar tveir stjórnarmeðlimir og einn varamaður vegna þátttöku þeirra í prófkjöri til alþingiskosninga árið 2017. Það voru Olga Margrét Cilia formaður, Oktavía Hrund Jónsdóttir og Katla Hólm Vilbergs- og Þórhildardóttir varamaður sem viku sæti ótímabundið. Þetta er gert að þeirra eigin frumkvæði til þess að taka af allan vafa varðandi hlutleysi stjórnar í komandi prófkjöri. Í þeirra stað taka sæti sem aðalmenn Guðjón Sigurbjartsson og Olga Jenný Gunnarsdóttir. Einnig verður framkvæmd prófkjörsins í höndum óháðra aðila sem hafa verið skipaðir í kjördæmaráð, en það eru þau Alexandra Briem f.h. RVK-suður og Steinar Guðlaugsson f.h. RVK-norður.


Stjórn PíR samþykkti á sama fundi að opna prófkjör sitt handa öðrum kjördæmum, ef þau þess óska, og  taka þátt í sameiginlegu prófkjöri með dreifilista eins og Suðvesturkjördæmi gerði í fyrra. Það gaf mjög góða raun og vildum við hafa þann möguleika opinn aftur. Einnig höfum við lokið við aðgerðaráætlun fyrir komandi prófkjör og kosningar og erum komin vel af stað með allan undirbúning.

 

Við höfum orðið vör við gríðarlega mikinn áhuga fólks á þátttöku í undirbúningi og viljum við því nota tækifærið til að vekja athygli á kynningarfundi sem haldinn verður á miðvikudaginn klukkan 18 í Tortuga. Þar verður tilvalið tækifæri fyrir nýliða og sjálfboðaliða að kynnast starfinu og hvar þeir geta best lagt sitt af mörkum í komandi baráttu.


Stjórnin óskar öllum frambjóðendum í prófkjöri Pírata til hamingju með ákvörðunina og óskar þeim góðs gengis. Yarrr…..☠️

 

Fyrir hönd stjórnar PíR,

starfandi formaður,

Birgir Steinarsson.