Stjórn PíR boðar til auka-aðalfundar

Kæru vinir.

Stjórn Pírata í Reykjavík fundaði á mánudag um niðurstöður úrskurðarnefndar. Olga, Oktavía og Katla hafa nú allar sagt sig úr stjórninni eins og kveðið var á í úrskurðinum. Við sem eftir erum ræddum hvaða stefnu væri best að taka í framhaldinu þar sem nú eru miklir óvissutímar og þörf á stöðugleika orðin að nauðsyn. Við ákváðum því einróma að halda áfram með þá vinnu sem þegar er hafin og ekki tefla í tvísýnu viðburðum eins og sólstöðuhátíð og piparkökuskreyting.

Þegar kemur að prófkjörum vegna komandi sveitarstjórnarkosninga erum við þó öll sammála um að enginn vafi megi liggja á umboði stjórnar til að leggja í svo mikilvægt verkefni og höfum við því ákveðið að boða til auka-aðalfundar laugardaginn 13. janúar 2018 til að kjósa nýja stjórn. Formlegt fundarboð verður sent síðar.

Undanfarnar vikur og mánuðir hafa reynt á þol og þrautseigju allra og okkur langar að leggja mikla áherslu á að bæta andrúmsloftið og samskiptin í félaginu okkar og flokknum þann tíma sem við eigum eftir sem stjórn. Um leið og við undirbúum stjórnarkosningar og leggjum grunn að vandaðri prófkjörs umgjörð sem nýja stjórnin getur nýtt sér ef hún vill, hver sem hún verður, viljum við fá sem flesta til að taka þátt í starfinu, málefnavinnu og öðrum hittingum.

Við hvetjum því sem flesta til að koma á fundi, taka þátt í viðburðum og bjóða sig fram til stjórnar því við getum þetta bara saman. Þeim sem vilja taka þátt bendum við á að hafa samband við okkur í reykjavik@piratar.is eða mæta á fundi hjá okkur sem eru yfirleitt klukkan 18 á mánudögum og eru öllum opnir eins og vanalega.

 

Með vinsemd og virðingu,
Stjórn Pírata í Reykjavík.