Stefna Pírata um sjávarútveginn

Píratar berjast fyrir betri og sanngjarnari sjávarútvegi.

Sjávarauðlindin er sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Enginn getur fengið fiskveiðiheimildir, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Þjóðin skal njóta auðlindarentu af sjávarútvegsauðlindinni. Tryggja þarf jafnræði í aðgengi að tímabundnum fiskveiðiheimildum, nauðsynlega nýliðun í greininni í gegnum uppboð veiðiheimilda og frjálsar handfæraveiðar. 

Við Píratar viljum sjálfbæran sjávarútveg, öflugar rannsóknir og eftirlit. Mikilvægt er að skýr lína sé dregin í stjórnkerfinu á milli rannsókna á náttúruauðlindum, ákvarðana um nýtingu og eftirlits. Fiskveiðistjórnun má ekki verða fórnarlamb úreltrar stjórnsýslu eða pólitískrar baráttu um verkefni einstakra ráðuneyta. Við viljum fjölbreytt útgerðarform og sjávarútvegsfyrirtæki í stað samþjöppunar og einsleitni. Sjávarútvegur er grundvöllur byggðar um land allt og því verðum við standa vörð um lífríki hafsins. Nýting auðlindarinnar skal grundvallast á vísindalegum rannsóknum.

Hér að neðan má lesa sjávarútvegsstefnu í heild sinni.

1. Eignarhald á auðlind sjávar

1.1. Kveða skal á um með skýrum hætti í stjórnarskrá að þjóðin sé réttmætur eigandi sjávarauðlindarinnar, að enginn geti hagnýtt sér hana án þess að þjóðin njóti sanngjarnrar auðlindarentu, að úthlutun veiðiheimilda sé tímabundin og jafnræðis gætt við þá úthlutun.
1.2. Auðlindaákvæði 34. gr. frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga skal efnislega tekið upp í stjórnarskrá Íslands.

2. Tímabundin nýtingarleyfi

2.1. Íslenska ríkið, fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, réttmæts eiganda auðlindarinnar, skal bjóða aflaheimildir upp til tímabundinnar leigu á opnum markaði. Leigugjald skal renna að fullu til eiganda auðlindarinnar og skulu öll úrslit uppboða vera opinberar upplýsingar.

3. Allur afli á markað

3.1. Allur afli skal fara upphaflega í gegnum innlendan fiskmarkað. Útgerðir með eigin vinnslu og/eða sölufyrirtæki hérlendis eða erlendis, útgerðum með vinnslu um borð o.fl. skal gert skylt að tryggja fyrstu viðkomu afla á innlendum markaði til að tryggja eðlilegt markaðsverð á öllu sjávarfangi.

4. Frjálsar handfæraveiðar.

4.1. Handfæraveiðar skulu gerðar frjálsar öllum þeim sem þær vilja stunda til atvinnu.
4.2. Frjálsum handfæraveiðum skal náð í áföngum og undir eftirliti Hafrannsóknastofnunar. Fyrsti áfanginn skal vera að tryggja öllum handfærabátum með fjórar rúllur 48 trygga daga á hverri strandveiðivertíð án stöðvunarheimildar.
4.3. Ein kennitala skal afmörkuð við einn handfærabát, taka verður tillit til tengdra aðila og grípa til fleiri aðgerða til að girða fyrir misnotkun á frjálsum handfæraveiðum, þannig að einn aðili eða tengdir aðilar geti ekki gert út fjölda handfærabáta.
4.4. Handfæraveiðar eru umhverfisvænar og fara vel með hafsbotninn. Veiðigeta takmarkast af tíðarfari og smæð báta.

5. Sjálfbærni

5.1. Tryggja skal sjálfbærar veiðar með vísindalegri ráðgjöf. Koma þarf í veg fyrir pólitísk afskipti af rannsóknum, veiðiráðgjöf og eftirliti. Tryggja skal að rannsóknir, veiðiráðgjöf, framkvæmd og eftirlit með sjávarútvegi séu ekki á sömu hendi innan eins ráðuneytis.
5.2. Stefna skal að rafvæðingu smábátaflotans við Íslandsstrendur.
5.3. Tryggja skal gagnsæi í öllum störfum Hafrannsóknastofnunar og gera starfshætti hennar og rannsóknir opinberar almenningi.
5.4. Hafrannsóknastofnun skal gert skylt að gera hagsmunaaðilum í greininni formlega grein fyrir breytingum á forsendum afla- og ráðgjafareglna og rökstyðja þær.
5.5. Hafrannsóknum þarf að tryggja nægt fjármagn og efla þarf rannsóknir á veiðiaðferðum, veiðarfærum, ástandi hafsbotns, grunnslóð og stórefla rannsóknir á áhrifum fiskeldis í opnum sjókvíum á vistkerfi fjarða.
5.6. Tryggja þarf sjálfstæði Hafrannsóknastofnunar sem rannsóknar- og vísindastofnunar og leggja niður ráðgjafanefndina sem skipuð er að meirihluta af sérhagsmunaaðilum.

6. Eftirlit

6.1. Tryggja skal sjálfstæði og faglega starfsemi eftirlitsaðila eins og Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar. Efla skal eftirlitshlutverk Samkeppniseftirlitsins í sjávarútvegi og virkja heimildir þess til frumkvæðisathugana í atvinnugreininni.
6.2. Stórefla þarf Landhelgisgæsluna að mannafla og búnaði til eftirlits og þjónustu við sjávarútveginn.
6.3. Gera skal ítarlega úttekt á kvótakerfinu, þar sem skoðuð verði þróun aflabragða frá því fyrir tíma kvótakerfisins, þ.m.t. íslenska sóknarmarkið. Borin verði saman reynsla okkar Íslendinga af kvótakerfinu og reynsla Færeyinga af sóknarmarkskerfinu, kostir og gallar hvors kerfis fyrir sig.
6.4. Gera skal heildstæða úttekt á spillingu í íslenskum sjávarútvegi, hérlendis og erlendis.

7. Gagnsæi

7.1. Öll tölfræði, upplýsingar og gögn er varða sjávarútveg skulu vera opinber, allt frá veiðum upp úr sjó til endanlegrar sölu á afurð.
7.2. Upplýsingar og gögn um löndun, vigtun afla og ísprósentu skulu gerð opinber og samanburðarhæf, aðgengileg á opnu skráarsniði.
7.3. Öll viðskipti með aflaheimildir og sjávarafurðir á markaði skulu vera opinber gögn og aðgengileg.

8. Réttindi sjómanna

8.1. Leggja skal niður verðlagsstofu skiptaverðs og fella úr gildi lagabókstaf henni tengdri. Farsælla er að raunvirði afurða upp úr sjó myndist á frjálsum fiskmörkuðum hérlendis, en að ríkistofnanir gefi afslátt af afurðum með ógagnsæjum aðferðum. Núverandi fyrirkomulag bitnar ekki síst á sjómönnum.
8.2. Gert skal refsivert að láta sjómenn taka þátt í kaupum og/eða leigu á aflaheimildum.
8.3. Banna skal endurvigtun tengdra aðila.

Við samþykkt þessarar stefnu falla úr gildi eftirfarandi stefnur:
4/2015 Sjávarútvegsstefna
5/2015 Úttekt á kvótakerfinu

Greinargerð

Inngangur

Nauðsynlegt er að ná sátt um sjávarútveg meðal þjóðarinnar allrar. Píratar telja forsendu sáttarinnar að eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni sé tryggt í gegnum almennt auðlindaákvæði (34.gr.) nýju stjórnarskrárinnar. Það er því nauðsynleg forsenda sáttar um sjávarútveg að hún sé fest í sessi. Auðlindaákvæðið tryggir öll fjögur grundvallarsjónarmið sem sjávarútvegsstefna Pírata hverfist um:

● Tryggt eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni
● Að sanngjörn auðlindarenta renni til þjóðárinnar
● Að veiðiheimildir séu tímabundnar
● Að jafnræðis sé gætt við úthlutun heimilda

Þetta er nauðsynleg forsenda en ekki nægjanleg til að tryggja bæði sátt um nýtingu sjávarauðlindarinnar og þær úrbætur sem þarf á fiskveiðistjórnun. Deilur sem hafa staðið um sjávarútveginn í áratugi eru ekki að ástæðulausu. Markmið laga um stjórnun fiskveiða er að að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskistofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Það er ljóst að þessum markmiðum hefur ekki verið náð: Enn er verið að minnka veiðar á flestum fiskistofnum, atvinnu- og byggðaröskun hefur verið mikil, samþjöppun mikil og framganga fyrirtækja sem hafa hagnast á núverandi fyrirkomulagi með þeim hætti að nú er nóg komið.
Píratar telja að grundvallarbreytinga sé þörf til að uppfylla þessi háleitu markmið og ná sátt um sjávarútveg.

Eignarhald

Allar breytingar á núverandi aflamarkskerfi eru gagnslausar án tryggðs eignarhalds þjóðarinnar. 34. grein nýju stjórnarskrárinnar tryggir eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni en það er svohljóðandi:
„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar. Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Tímabundin nýtingarleyfi & auðlindarentan til þjóðarinnar

Útgerðin sjálf, í gegnum virkan uppboðsmarkað, ræður hversu mikið útgerðin borgar fyrir réttinn til að veiða. Uppboð á tímabundnum aflaheimildum tryggir að auðlindarentan renni til eiganda auðlindarinnar.
Það má ekki afhenda auðlind til varanlegrar eignar, selja hana eða veðsetja skv. 34. grein nýju stjórnarskrárinnar. En til að girða enn frekar fyrir ægivald hins fjársterka og samþjöppun í greininni verður ákvæði um kvótaþak haldið (12% í einstaka tegundum, 20% almennt) og jafnvel hert. Píratar telja kvótaþak í einstaka tegundum og almennt megi fara niður í 9%. Þetta sé gert til að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun, fákeppni og ægivald fárra í krafti stærðar.

Við höfum einnig í hyggju að halda í ákvæði sem takmarkar aðkomu erlendra aðila að auðlindinni þó skoða megi í framhaldinu hvort það sé nauðsynlegt þegar eignarhald er tryggt og veiðiheimildir tímabundnar.
Það eru margar góðar fyrirmyndir að uppboðum á veiðileyfum og við viljum að útfærslan sé vönduð, tryggi jafnræði og valddreifingu í greininni og heilbrigðan fyrirsjáanleika fyrir alla aðila.
Það er starfræktur kvótaleigumarkaður nú þegar á einkamarkaði sem gengur ágætlega og því engin ástæða til að hafa áhyggjur þó við fetum okkur áfram á þeirri leið. Verðmyndun á kvótaleigumarkaði í gegnum tíðina gefur ástæðu til að ætla að útreikningur veiðigjalda sé rangur.
Við uppboð á tímabundnum veiðiheimildum komum við einnig í veg fyrir að aðilar sem stunda ekki útgerð, en fá úthlutað heimildum í dag, fái hreinar tekjur af því að gera ekki neitt nema taka við úthlutun og leigja hana svo frá sér – en aðilar sem hafa áhuga á að stunda útgerð en fá engu úthlutað þurfi að greiða tvöföld auðlindagjöld, fyrst greiða þeir leigu á heimildum og auðlindagjöld til stjórnvalda.

Núverandi fyrirkomulag útreiknings veiðigjalda býður upp á lítið gagnsæi, bókhaldskúnstir og þar standa stórfyrirtæki betur að vígi en aðrir með sérfræðinga innanborðs, dótturfyrirtæki og tengda aðila til að nota og fara í kring um lagabókstafinn. Þegar ríkið ákveður veiðigjöld hafa útvegsmenn og samtök þeirra gífurlega hagsmuni af því að þrýsta á stjórnvöld, hamast á almenningi með áróðri og skekkja bókhald sitt með ýmsum aðferðum til að stilla stöðunni þannig upp að útvegurinn líti út fyrir að vera illa greiðsluhæfur og rökstyðja þannig kröfur um lækkuð gjöld. Ef útvegurinn greiðir markaðsverð sem myndast á frjálsum uppboðsmarkaði á veiðiheimildum hvetur það útvegsmenn til að færa bókhald sitt í eðlilegt lag, sýna raunverulega rekstrarstöðu og mun leiða til eðlilegrar eiginfjármyndunar í greininni. Algert grundvallaratriði er að upphæð veiðigjalds myndist á uppboðsmarkaði. Þegar þannig er að málum staðið getur útvegurinn ekki haldið því fram að verið sé að oftaka gjöld af greininni því útgerðirnar bjóða einfaldlega ekki hærra en það sem atvinnugreinin stendur undir. Ekki er síður mikilvægt að þegar veiðigjöld eru rýr í erfiðu árferði mun ekki vera hægt að áfellast útvegsmenn af þessari sömu ástæðu: Greinin greiðir einfaldlega ekki meira en hún getur. Með þessum hætti verður sátt í þjóðfélaginu um veiðigjöld, hvort sem þau eru há eða lág frá ári til árs.

Allur afli á markað

Til að koma í veg fyrir markaðsmisnotkun og óheilbrigða verðmyndun á fiski og fiskafurðum skal öllum afla landað á fiskmarkað til vigtunar á vottuðum stöðum. Skal eftirlit vera með þeim hætti að erfitt reynist að skjóta sér undan kerfinu. Endurvigtunarleyfi útgerða og tengdra aðila skulu fjarlægð. Viðskiptatengsl vigtunaraðila við útgerð eiga að vera í algjöru lágmarki.

Í núverandi kerfi hafa útgerðir með eigin vinnslu leyfi til að endurvigta fisk eftir að hafnarvog og markaður hafa vigtað. Þetta leiðir af sér undanskot frá kerfinu. Þegar fiski er landað beint til vinnslu er stuðst við verðlagsstofuverð sem yfirleitt er langt undir raunvirði fisksins. Þetta skilar sér síðan í lægri launum sjómanna og þar af leiðandi minni tekjuskattsheimtu. Einnig gefur þetta stærri aðilum óeðlilegt forskot á erlendum mörkuðum þegar þeir geta undirboðið aðra aðila um upphæðina sem sparast við að kaupa fiskinn á lágu verði. Jafnframt þegar lóðrétta samþættingin er á þann veg að aðilar selji systurfyritækjum afurðir undir markaðsverði sem leiðir af sér að tekjurnar skila sér ekki til landsins.

Þetta bætir hag sjómanna og gerir sjálfstæðum fiskframleiðendum kleift að útvega hráefni. Þetta tryggir markaðsverð og gagnsæi í viðskiptum með sjávarútvegsafurðir og aðgengi allra fyrirtækja sem vilja vinna og þróa fiskafurðir. Þetta leiðir til meiri nýsköpunar í matvælaframleiðslu og eflir lítil og meðalstór fyrirtæki um land allt.

Frjálsar handfæraveiðar

Við ætlum að gera handfæraveiðar frjálsar öllum þeim sem þær vilja stunda til atvinnu. Við viljum að landgrunnið og viðkvæmur hafsbotn þess verði verndað. Stærri skip með meiri veiðigetu stundi veiðar utan við landgrunn sem nær eingöngu verði nýtt til handfæraveiða.
Þetta verði gert í áföngum og undir eftirliti Hafrannsóknastofnunar. Fyrsti áfanginn er að tryggja öllum handfærabátum með fjórar rúllur, 48 trygga daga á hverri strandveiðivertíð án stöðvunarheimildar.

Ein kennitala verði afmörkuð við einn handfærabát, tekið verði tillit til tengdra aðila og gripið til fleiri aðgerða til að girða fyrir misnotkun á frjálsum handfæraveiðum, þannig að einn aðili eða tengdir aðilar geti ekki gert út fjölda handfærabáta.

Handfæraveiðar eru umhverfisvænar og fara vel með hafsbotninn. Veiðigeta takmarkast af tíðarfari og smæð báta. Frjálsar handfæraveiðar auðvelda nýliðun í greininni, treysta atvinnu í sjávarbyggðum um land allt, efla frjálsa fiskmarkaði leiðir til meiri nýsköpunar í matvælaframleiðslu, eflir lítil og meðalstór fyrirtæki um land allt ásamt því að veita smábátasjómönnum aukið öryggi á hafi úti. Útreikningar Landssambands smábátaeiganda sýna að hvert starf við handfæraveiðar á hafi úti leiði af sér þrjú viðbótarstörf í héraði. Strandveiðikerfið sem sett var á árið 2009 hefur hvorki uppfyllt markmið um nýliðun né aukið öryggi smábátasjómanna.

Sjálfbærni, gagnsæi og eftirlit

Störf og ákvarðanir Hafrannsóknastofnunar, ásamt gögnum þeim til rökstuðnings, skulu gerð opinber. Einnig skulu hagsmunaaðilar ekki hafa sæti í ráðgjafaráði stofnunarinnar og skal hagsmunapot víkja fyrir vísindum. (Um þessar mundir sitja tveir aðilar tengdir hagsmunasamtökum í ráðgjafaráðinu, jafnframt eru tveir ráðherraskipaðir í sjö manna ráði. Þetta skal víkja fyrir sjö manna óháðu ráði, þar sem enginn hefur fjárhagslegan ávinning af ákvörðunum ráðsins – beint eða óbeint, svo sem í gegnum nána ættingja.
Til að stemma af hvað kemur inn og hvað fer út af markaði skal tölfræði vera gerð opinber og öllum aðgengileg. Markmiðið með þessu ákvæði er að með auðveldum hætti verði hægt að fylgjast betur með hve mikið raunverulega kemur úr hafinu.
T
il að heilbrigð samkeppni geti átt sér stað þarf eftirlit innanlands sem utan til að tryggja að hver sá sem kýs geti keppt á heilbrigðum markaðsforsendum. Nú um stundir er landhelgisgæslan starfrækt á þann veg að tæki hennar eru notuð í útleiguverkefni í Miðjarðarhafi. Jafnframt er einungis ein þyrla starfrækt og ein áhöfn á hana. Íslendingar eiga tvær starfandi þyrlur og þá þriðju sem hefur ekki blindflugsbúnað ásamt því að vera ekki búin til næturflugs og björgunaraðgerða. Þessar þyrlur eru leigðar út og starfsemi gæslunar er það illa fjármögnuð að hún neyðist til að leigja út tækin sem keypt eru – til þess að fjármagna störf.

Einnig er lagt til í grein 6.3 að gera ítarlega úttekt á kvótakerfinu, þar sem skoðuð verði þróun aflabragða frá því fyrir tíma kvótakerfisins, þ.m.t. íslenska sóknarmarkið. Borin verði saman reynsla okkar Íslendinga af kvótakerfinu og reynsla Færeyinga af sóknarmarkskerfinu, kostir og gallar hvors kerfis fyrir sig. Með þessu verði varpað ljósi á helstu galla kvótakerfisins, ekki síst:

● Tilhneiging til brottkasts. Þar sem kvóti er takmarkaður, er ekki hagkvæmt að koma með smáfisk, dauðblóðgaðan netafisk, eða annan fisk sem er síður verðmætur í land. Auk þess veiðist ýmis meðafli sem viðkomandi skip er ekki með kvóta fyrir enda varðar það sektum að landa fisk án kvóta. Þá fara sögur af framhjálöndunum, endurvigtunarsvindli, einni tegund landað sem annarri, o.s.frv.
● Óvissuþættir í mati Hafrannsóknarstofnunar sem liggur til grundvallar ákvörðun um kvóta hvers árs. Reglulega hefur komið upp ágreiningur meðal sérfræðinga um matið og slíkt mat er í eðli sínu ónákvæm vísindi.

Þá er það staðreynd að sú „uppbygging“ þorskstofnsins sem kvótakerfinu var ætlað að stuðla að virðist ekki hafa heppnast nægilega vel, þar sem þorskafli hefur verið mun minni eftir að kvótakerfið var tekið upp, heldur en það var fyrir daga kerfisins. Er því nauðsynlegt að gera heildstæða úttekt á kerfinu svo varpa megi ljósi á kosti þess og galla og læra af reynslunni í mótun stefnu í málefnum sjávarútvegs til framtíðar.

Réttindi sjómanna

Þekkt er í kvótakaupum að láta sjómenn taka þátt í kaupunum. Með þessu gætu útgerðir hækkað tilboð sitt í aflaheimildir á kostnað sjómanna. Þetta er ekki markmiðið með stefnunni og skal gert refsivert. Hér er einnig ítrekað að það verði bannað að endurvigta á kostnað sjómanna af sama fyrirtæki eða tengdum rekstraraðilum (samþættri útgerð og vinnslu). Gögn frá Fiskistofu sýna að ísprósentan hækkar við endurvigtun sama eða tengda aðila og marktækur mismunur er á hlutfallinu eftir þvi hvort eftirlitsaðili er viðstaddur.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....