Starfsfólki Pírata fjölgar

Píratar hafa ráðið í þrjár nýjar stöður hjá flokknum. Berglind Jónsdóttir hefur verið ráðin kynningar- og miðlunarstjóri Pírata, Róbert Ingi Douglas sem upplýsingastjóri og Hans Benjamínsson sem skrifstofustjóri. Þau vinna öll á skrifstofu Pírata, ásamt Erlu Hlynsdóttur framkvæmdastjóra flokksins, og mynda sem heild öflugt teymi sem mun styrkja starf Pírata um allt land. 

Á mynd, frá vinstri: Hans Benjamínsson, Berglind Jónsdóttir og Róbert Ingi Douglas.

BERGLIND JÓNSDÓTTIR

Berglind Jónsdóttir hefur komið víða við og öðlast dýrmæta reynslu í gegnum nám og störf, bæði heima á Íslandi og erlendis. Hún var aðeins tvítug þegar hún var valin til að vinna sem stílisti við fyrstu þáttaröð X-Factor á Íslandi, en eftir það fór hún í nám við hinn virta skóla Willem de Kooning Academy í Hollandi, þar sem hún lærði auglýsingasálfræði. Þaðan fór hún til Barcelona, þar sem hún lagði stund á nám í Art Direction við IED og vann m.a. verðlaun fyrir frumlegustu herferðina, sem hún vann fyrir Loop Video Art Festival, stærstu og virtustu vídeólistahátíð í Evrópu. Lokaverkefni sitt við skólann vann Berglind fyrir Sonar Pro Platform, í tengslum við hina þekktu Sonar tónlistarhátíð í Barcelona. Síðar stofnaði Berglind sína eigin markaðs- og hönnunarstofu í Hollandi, en fékk fljótt atvinnutilboð frá einum af sprotafyrirtækjum Condé Nast, sem er eitt af stærstu fjölmiðlafyrirtækjum heims og gefur m.a. út Vogue, GQ, Vanity Fair og The New Yorker. Hér á landi hefur Berglind m.a. unnið sem sérfræðingur í samfélagsmiðlum hjá Vodafone, þar sem hún vann einnig sem hönnuður, auk þess sem hún hefur unnið fyrir auglýsingastofur og stýrt verkefnum fyrir aðila eins og Unicef og Landssamtökin Þroskahjálp.

RÓBERT INGI DOUGLAS

Róbert Ingi Douglas hefur víðtæka reynslu á sviði kvikmynda. Hann hefur starfað sem leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi frá árinu 1999 til dagsins í dag og er þekktastur fyrir kvikmyndirnar Íslenski draumurinn, Maður eins og ég og Strákarnir Okkar. Árin 2007-2016 vann hann í Kína sem ráðgjafi í skemmtana og kvikmyndabransanum auk þess að vinna sem leikstjóri og hugmyndasmiður í auglýsingum og sjónvarpsgerð fyrir Dalian Wanda, Huawei, CCTV, YouKu og önnur fyrirtæki. Róbert leikstýrði einnig kínversku kvikmyndinni This is Sanlitun sem var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og fór í almenna bíódreifingu í Kína. Róbert hefur einnig kennt leikstjórn við Kvikmyndaskóla Íslands og framleiðslu við The Beijing Film Academy. Róbert var kosningastjóri höfuðborgarsvæðisins fyrir Pírata í sveitarstjórnarkosningunum síðast liðið vor.

HANS BENJAMÍNSSON

Hans Benjamínsson starfaði áður sem aðstoðarmaður framkvæmdastjóra Pírata. Hann stundaði nám í markaðsfræði við IBA og HAG í Danmörku og Sviss með viðkomu í Hollandi og Kína. Hans er með MBA-gráðu frá Coventry University. Meðfram námi var hann nemendasendiherra, í þjálfarateymi skólans í markaðsfræði og í keppnisliði skólans í fjármálum. Á síðustu misserum hefur hann aflað sér sérþekkingar á nýjum persónuverndarlögum (GDPR). Lengst af hefur hann starfað hjá íslenskum orkufyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum þeim, til að mynda Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun Power og Orkusýn. Nýverið var hann skipaður varamaður í starfshóp atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins um orkustefnu á grundvelli þekkingar sinnar á orkumarkaði. Samhliða þessu hefur Hans verið ötull við að sinna félagstörfum og sat til að mynda í trúnaðarráði Pírata á árunum 2016-2017. Hans er skoðunarmaður reikninga hjá  Kínversk-íslenska menningarfélaginu og var um árabil virkur í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....