Skemmtileg kosningabarátta í Norðausturkjördæmi

Einar Brynjólfsson

Einar Brynjólfsson

Segja má að kosningabarátta okkar Pírata í Norðausturkjördæmi hafi byrjað strax í sumar, fljótlega eftir að prófkjöri okkar lauk. Við sökktum okkur í málefnavinnu og ýmsan undirbúning sem var lítt sýnilegur. Um mánaðamótin ágúst/september hófst sýnilegi hluti vinnunar af krafti með tilheyrandi ferðalögum. Við höfum farið fimm eða sex ferðir um Austurland, sex eða sjö ferðir til Reykjavíkur til að sinna fundahöldum og stefnumótunarvinnu, í myndatökur og viðtöl o.s.frv. Á þessum ferðum okkar höfum við hitt fjölda fólks sem hefur verið mjög jákvætt í garð Pírata og sannfært okkur um að málstaður okkar er góður. Nú er komið að því að kosningabaráttan færist upp á næsta stig. Segja má að dagskráin fram að kosningum sé óðum að fyllast. Framboðsfundir, kappræður, viðtöl, vinnustaðaheimsóknir og ráðstefnur hafa verið skipulagðar víðs vegar um kjördæmið. Þetta er búið að vera langt og strangt en sérlega skemmtilegt. Við bíðum spennt eftir því að kjördagurinn, 29. október renni upp.