Sara og Andri taka sæti á Alþingi

Í dag tóku tveir varaþingmenn Pírata sæti á Alþingi, þau Sara Elísa Þórðardóttir, fyrir Jón Þór Ólafsson og Andri Þór Sturluson, fyrir Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.

Báðir þingmenn stigu í pontu og héldu jómfrúrræður sínar. Sara fjallað um nokkur þeirra stóru mála sem sem brenna á samtímanum og eru óuppgerð eða í uppnámi, s.s framtíðarskipulag fjármálakerfisins, stjórnarskrármálið, Panmahneykslið og stöðu heilbrigðiskerfisins, og sagði ma.

Frú forseti. Þjóðin býr við mörg óuppgerð mál. Þar má nefna sem dæmi óuppgert fjármálahrun árið 2008. Nú áratug seinna stendur til að selja bankana aftur. Væri ekki lag að hæstv. fjármálaráðherra setji aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabanka í forgang áður en það er gert? Ætlum við að endurtaka söguna án þess einu sinni að gera hana upp? Ætlum við að setja þá nauðsynlegu varnagla inn í fjármálakerfið sem þarf til að sagan endurtaki sig ekki?

Óuppgerð svik við niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um grundvöll nýrrar stjórnarskrár árið 2012 sitja enn djúpt í mörgum og óhjákvæmilega fá þau mig til að spyrja mig: Hvernig gat það gerst í þróuðu lýðræðisríki að þjóðarvilji, framsettur í þjóðaratkvæðagreiðslu, væri blákalt virtur að vettugi á þennan hátt án nokkurra eftirmála? Hvað sem mönnum kann að finnast efnislega um nýju stjórnarskrána þá hlýtur mönnum að finnast það óeðlilegt að farið sé á þennan hátt á svig við afgerandi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Síðastliðið vor reið annað áfall yfir þjóðina. Panama-skjölin upplýstu um svik helstu ráðamanna þjóðarinnar við almenning í landinu. Við kjósendur sjálfa er höfðu veitt þeim það umboð er þeir störfuðu eftir. Stærstu mótmæli Íslandssögunnar komu í kjölfar stærsta gagnaleka sögunnar.

Endurreisn heilbrigðiskerfisins er annað dæmi. Einkavæðingardraugurinn heldur áfram að svífa yfir vötnum með vafasömum afkastahvötum, tilfinnanlegum skorti á gæðaeftirliti og himinháum arðgreiðslum. Græðgi og gróðavon annars vegar og heilsa þjóðarinnar hins vegar fara ekki saman.

Ég er gríðarlega þakklát þeim sem veittu mér það umboð sem leyfir mér að standa hér nú og ávarpa þing og þjóð. Ég þakka ykkur traustið og mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að inna þetta hlutverk af hendi með sóma sem samfélagsþegn og sem undirmaður kjósenda, undirmaður íslensks almennings.

Andri Þór Sturluson fjallaði í sinni ræðu um stöðu fanga, í sérstökum umræðum, þar sem Birgitta Jónsdóttir var málshefjandi og benti á  að frelsissvipting einstaklinga skilar sjaldan tilætluðum  árangri og vakti athygli á mikilvægi þess að fangar hafi aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu, sérstaklega geðheilbrigðisþjónustu:

Virðulegi forseti. Að frelsissvipta einstakling er grafalvarlegt. Sá alvarleiki endurspeglast ekki í þeim fjármunum sem veitt er til fangelsismála. Í gegnum tíðina hafa aðilar beggja megin borðsins fengið þau skilaboð að sú athöfn að fjarlægja manneskju úr samfélaginu, loka hana inni, takmarka tíma hennar verulega með ástvinum og hreinlega lífinu sjálfu sé eitthvað sem er gert, hefur alltaf verið gert og enginn missir svefn yfir. Það er sko ekkert smámál. Hví beitum við miðaldatæki eins og fangelsisvist sem aldrei hefur sýnt fram á viðunandi árangur? Hvernig bætir einhver vaktarskammarkrókur samfélagið okkar? Hver er réttlæting okkar fyrir því að svipta fólk tíma af ævi sinni, tíma sem hægt væri að segja að sé það eina sem nokkurt okkar raunverulega á og það án þess að til sé skýrt plan um hvað sé gert til að sú aðgerð skili betri einstaklingi út í samfélagið aftur?

Það bráðvantar geðheilbrigðisþjónustu í fangelsin. Við setjum lög, sjáum um að þeim sé framfylgt. Við læsum manneskjur inni og síðan sinnum við þeim ekki á fullnægjandi hátt og berum við að við séum blönk. Er það ósanngjörn krafa að einstaklingar njóti alvöru geðheilbrigðisþjónustu, fái að hitta sérfræðinga, sálfræðinga, félagsfræðinga, á þeim tíma þegar við sviptum mann öllu? Nei, hún er ekki ósanngjörn. Það sem meira er, hún er það sem þarf til að ná fram markmiðum með frelsissviptingunni sjálfri. Til hvers að hafa kerfi sem þjónar ekki markmiðum sínum?

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....