Samþykkt: Píratar kynna „smurbók heimilisins“ til sögunnar

Mál Pírata um ástandsskýrslur fasteigna var samþykkt á Alþingi í dag.

Svokallaðar ástandsskýrslur munu fylgja öllum seldum fasteignum í framtíðinni, eftir að Alþingi samþykkti þingsályktun Pírata þess efnis í dag. Skýrslurnar munu innihalda greinargóðar upplýsingar um ástand fasteignarinnar og verða unnar af óháðu matsfólki með víðtæka þekkingu á mannvirkjagerð. Til þess að stuðla enn frekar að áreiðanleika, trausti og sátt í fasteignaviðskiptum verður framkvæmd matsins og innihalds ástandsskýrslnanna samræmt. 

Skýrslurnar eru þannig til þess fallnar að upplýsa alla sem koma að fasteignaviðskiptum, þ.e. kaupendur, seljendur og milliliði, um raunverulegt ásigkomulag húsnæðis. Með því má draga verulega úr líkum á því, eftir að viðskipti með íbúðarhúsnæði hafa farið fram, að upp komi leyndir gallar með tilheyrandi kostnaði fyrir kaupendur, seljendur og samfélagið. 

Þingsályktunin, sem samþykkt var í dag, felur jafnframt í sér skýrar reglur um ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum. Sú ábyrgð fellur á þau sem útbúa skýrslurnar en þeim bera að hafa „starfsábyrgðartryggingu sem tryggi skaðleysi kaupenda og seljenda fasteigna þegar mistök þeirra leiða til bótaskyldu,“ eins og segir í þingsályktuninni. 

Björn Leví kynnir „smurbók heimilisins“

Viðhaldsdagsbók fasteigna
Þar er jafnframt kveðið á um viðhaldsdagbók fasteigna, sem hefur sambærilegan tilgang og olíudagbækur fyrir bíla. Í viðhaldsdagbók má skrá upplýsingar á borð við hvenær ráðist var í meiriháttar framkvæmdir á húsnæðinu. Ekki verður skylda að halda slíka viðhaldsdagbók en flutningsmenn málsins telja að greinargóðar upplýsingar um íbúðarhúsnæði í viðhaldsdagbók séu til þess fallnar að auka traust á viðskiptum með fasteignir. Það að geta flett upp þessum upplýsingum, jafnvel langt aftur í tímann, yki einnig til muna skilvirkni í viðhaldi á fasteignum.

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ber nú að undirbúa lagabreytingar í samræmi við þingsályktunina, sem er í fimm liðum og má nálgast hér.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....