Ísland mun í fyrsta sinn í sögunni setja sér sjálfbæra iðnaðar- og atvinnustefnu, eftir að þingsályktunartillaga Pírata og tveggja þingmanna Framsóknar þess efnis var samþykkt á Alþingi í dag.
Hér á landi hafa á tíðum verið settar stefnur sem taka á einstaka málaflokkum sem snerta á iðnaðarmálum, yfirleitt í sambland við aðra málaflokka. Aldrei áður hefur hins vegar verið unnin heildstæð stefnumótun um þróun atvinnumála til framtíðar. Nú hefur hins vegar verið samþykkt að ráðast í þá vinnu; sem mun hvíla á gildum Pírata um nýsköpun, umhverfisvernd og dreifðan stuðning við margar atvinnugreinar frekar en sértækan stuðning við fáar.
Ísland hættir að styðjast við haglabyssur og hvalreka
Markmið stefnumótunarinnar verður ekki aðeins að bregðast við fyrirséðum áskorunum framtíðar, eins og aukinni sjálfvirknivæðingu. Markmið hennar verður jafnframt að styrkja og fjölga stoðum íslensks atvinnulífs og styðja þannig við fjölbreyttan og sjálfbæran iðnað.
Íslenskur iðnaður byggist í mörgum tilfellum á tiltölulega fáum stoðum. Það skapar hins vegar hættu á kerfishruni við einstök áföll og dregur slíkt fyrirkomulag úr sjálfbærni viðkomandi greinar.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata og fyrsti flutningsmaður tillögunnar, segir Íslendinga hafa stuðst við það sem hann kallar „haglabyssuaðferðina.“ Stjórnvöld hafi hlaðið hagkerfið „ómarkvissum tækifæriskornum og láta það skjóta hingað og þangað. Vissulega mun það stöku sinnum hæfa og jafnvel skilja eftir sig varanlegt spor, en það vita samt allir að hægt er að ná meiri árangri með því að miða,“ segir Smári.
Fleiri stoðir, meiri sjálfbærni
Það þarf að hverfa frá óbilandi trú stjórnvalda á áframhaldandi vænleika hvalrekahagkerfisins sem bar til Íslands stórútgerðir, áliðnað, bankabransa, makríl og nú nýlega ferðamannastraum. Slíkri handahófskenndri nálgun má þó ekki rugla saman við hagstjórn að mati Pírata.
Einn helsti tilgangur sjálfbærrar iðnaðarstefnu er því að dreifa framleiðni með þeim hætti að til verði sveigjanleg framleiðslunet margra smárra aðila frekar en fárra stórra fyrirtækja. Slík tilhögun iðnaðar stuðlar að byggðafestu og minni hagsveiflum og dregur úr staðbundnum áföllum vegna samdráttar í einstökum geirum eða gjaldþrotum einstakra fyrirtækja.
Hér á landi hefur fengist nokkur reynsla af þess konar stuðningi við einstök byggðarlög sem byggist á stuðningi við tiltekna starfsemi. Hins vegar er vænlegra að styrkja atvinnulíf byggðarlaga almennt frekar en afmarkaðar atvinnugreinar. Það skapar áhættu til lengri tíma á að meginstoðir atvinnulífs í byggðarlaginu hrynji vegna einstakra atburða, en dreifður stuðningur við allar atvinnugreinar getur dregið úr áhættunni á áföllum síðar meir.
Kalli Pírata svarað
Píratar töldu því nauðsynlegt að stjórnvöld mótuðu sér sjálfbæra iðnaðar- og atvinnustefnu, sem liti sérstaklega til þess hvernig bæta megi framleiðni, fjölbreytni og sjálfbærni íslensks iðnaðar. Mótun slíkrar stefnu væri mikilvægt fyrsta skref í að móta framtíðarsýn Íslands eftir heimsfaraldur COVID-19, ekki síst í ljósi loftlagsbreytinga.
Sem fyrr segir samþykkti Alþingi þetta ákall Pírata. Ísland mun því setja sér sjálfbæra iðnaðarstefnu, í fyrsta sinn í sögunni.
Nánar má fræðast um þingsályktunartillögu Pírata hér. Smári McCarthy ritaði jafnframt grein um málið sem má nálgast hérna.