Fjárfestum í fólki – fjárfestum í framtíð
Aðalfundur Pírata í Suðurkjördæmi var haldinn í Reykjanesbæ laugardaginn 13.júní 2020. Ný stjórn var kjörin á fundinum og hana skipa þau Albert Svan, Eyþór Máni Steinarsson, Guðmundur Arnar Guðmundsson, Hrafnkell Brimar Hallmundsson og Vania Cristina Lopes.
Góð mæting var á fundinn, bæði í húsakynnum Pírata í Suðurkjördæmi við Hafnargötu í Reykjanesbæ en einnig í gegnum fjarfundabúnað.
Mikið var rætt um bágt atvinnuástand í Suðurkjördæmi og komu fram miklar áhyggjur af velferð íbúanna. Atvinnuleysi á Suðurnesjum í apríl nær tæpum 30% skv. tölum Vinnumálastofnunar. Til viðbótar Covid-19 faraldrinum tók svæðið á sig mikinn skell í kjölfar falls WOW Air. Atvinnuleysi í Vík í Mýrdal og í Skaftárhreppi mun líklega fara upp í 50%. Atvinnuleysi á Höfn í Hornafirði nálgast nú 30% en samhliða hruni í ferðaþjónustu hefur samfélagið þar tekist á við loðnubrest og lélegt ástand í humri. Vestmannaeyjar sjá fram á mikið tekjufall vegna íþróttamóta og þjóðhátíðar sem verða í mýflugumynd miðað við venjulegt árferði. Bláskógabyggð og fleiri sveitarfélög á Suðurlandi sjá fram á mikið tekjufall og atvinnuleysi.
Samþykkt var með lófataki að skora á stjórnvöld að taka þétt utan um einstaklinga og fjölskyldur í landinu samhliða stuðningsaðgerðum í þágu fyrirtækja. Meðal aðgerða sem felast í áskoruninni er hækkun atvinnuleysisbóta, að tryggja rétt námsmanna, einyrkja og þeirra sem hafa verið neyddir í málamyndaverktöku til atvinnuleysisbóta, tryggja ráðningarsamband í gegnum launalaus leyfi á atvinnuleysisbótum í stað fjármögnunar á uppsögnum, tryggja sveitarfélögum stuðning til að sinna fjárhagslegri og félagslegri aðstoð við íbúa sína o.fl.
Stjórnvöld eru ennfremur hvött til meira samráðs í stað glærusýninga og að fjárfesta í fólki og framtíðinni. Stjórnvöld ættu að nýta þetta einstaka tækifæri til að byggja nýtt velsældarhagkerfi en snúa ekki aftur til fortíðar. Horfa til aukins frelsis við handfæraveiðar, horfa til grænna lausna, nýsköpunar og rannsókna, fjárfestinga í náttúruvernd, samgöngum, heilbrigði, menntun og vísindum og styrkja m.a. aukna garðyrkju og fiskeldi á landi.
Samþykktina í heild sinni má lesa hér að neðan. Við óskum nýkjörinni stjórn í Suðurkjördæmi til hamingju og góðs gengis með starfið framundan.
Samþykkt aðalfundar Pírata í Suðurkjördæmi
Píratar í Suðurkjördæmi skora á stjórnvöld að taka þétt utan um einstaklinga og fjölskyldur í landinu samhliða velferðaraðgerðum í þágu fyrirtækja. Sjálfsagt og nauðsynlegt er að aðstoða fyrirtæki sem hafa orðið fyrir miklu tekjutapi í kjölfar Covid-19 faraldursins en einstaklingarnir mega aldrei gleymast.
Við skorum á ríkisstjórnina að ráðast strax í eftirfarandi aðgerðir:
- Stöðva þegar í stað nauðungarsölur á fjölskylduhúsnæði.
- Hækka atvinnuleysisbætur upp í lágmarksframfærsluviðmið.
- Lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta.
- Aðstoða leigjendur með tímabundnum frystingum á hækkun leiguverðs.
- Styðja leigusala til að fresta leigugreiðslum ef þarf.
- Gefa einstaklingum og fjölskyldum kost á brúarlánum vegna tekjufalls.
- Styrkja sveitarfélög til að gera þeim kleift að sinna fjárhags- og félagsaðstoð íbúa ásamt viðhaldi og fjárfestingum í heimabyggð.
- Tryggja ráðningarsambönd hjá starfsmönnum fyrirtækja sem leggjast í tímabundinn dvala með launalausu leyfi á atvinnuleysisbótum frekar en fjármagna uppsagnir starfsfólks.
- Tryggja menntunarúrræði og endurmenntunarúrræði fyrir alla sem þurfa á því að halda.
- Fjárfesta enn frekar í grunnvísindum, nýsköpun, rannsóknum og þróun.
- Veita sérstöku fjármagni til sveitarstjórna til að efla nýsköpun, rannsóknir og þróun í heimabyggð.
- Tryggja rétt námsmanna, einyrkja og starfsfólks sem hefur verið í málamyndaverktöku til atvinnuleysisbóta.
- Tryggja framfærslu og nauðsynlega þjónustu við aldraða, öryrkja og fjölskyldur langveikra barna.
- Ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar og viðhald á innviðum, sérstaklega heilbrigðiskerfi og samgöngum.
- Semja nú þegar við hjúkrunarfræðinga, löggæslufólk og fleiri stéttir sem hafa verið samningslausar um margra mánaða- og árabil, og gera það af myndarskap og virðingu við störf þessara mikilvægu stétta.
- Gefa handfæraveiðum meira svigrúm í sumar. Auka aflamagn til strandveiða og lengja vertíðina.
Við skorum á sveitarfélög að ráðast strax í eftirfarandi aðgerðir:.
- Hækka fjárhagsaðstoð sveitarfélaga upp í lágmarksframfærsluviðmið.
- Stórefla félagslega þjónustu, sálfræðiþjónustu og geðhjálp
- Tryggja nægilegt framboð á félagslegu húsnæði. Biðlistar eftir þaki yfir höfuðið eru óásættanlegir.
- Leggja áherslu á þjónustu við aldraða, öryrkja og fjölskyldur langveikra barna.
- Fjárfesta í nýsköpun, rannsóknum og þróun í nærsamfélaginu.
- Tryggja velferð allra íbúa og styrkja barnavernd sérstaklega.
Betur má ef duga skal – Skýr framtíðarsýn
Stjórnvöld hafa þegar ráðist í stuðningsaðgerðir sem ber að fagna. En enn vantar upp á.
Um leið og við fögnum sérstöku 250 milljóna króna framlagi til Suðurnesja í frumvarpi um fjáraukalög 2020 viljum við benda á að það dugir skammt til að styrkja samfélagið á Suðurnesjum. Allt Suðurkjördæmi hefur orðið illa fyrir barðinu á faraldrinum.
Atvinnuleysi á Suðurnesjum er að nálgast 30%. Til viðbótar Covid-19 faraldrinum tók svæðið á sig mikinn skell í kjölfar falls WOW Air. Atvinnuleysi í Vík í Mýrdal og í Skaftárhreppi mun líklega fara upp í 50%. Atvinnuleysi á Höfn í Hornafirði nálgast nú 30% en samhliða hruni í ferðaþjónustu hefur samfélagið þar tekist á við loðnubrest og lélegt ástand í humri. Vestmannaeyjar sjá fram á mikið tekjufall vegna íþróttamóta og þjóðhátíðar sem verða í mýflugumynd miðað við venjulegt árferði. Bláskógabyggð og fleiri sveitarfélög á Suðurlandi sjá fram á mikið tekjufall og atvinnuleysi.
Stuðningi við fyrirtæki, frestun opinberra gjalda, fyrirgreiðslu á hagkvæmum lánum og styrkjum til minni fyrirtækja ber að fagna. Þó er brýnt að allur fjárstuðningur til handa fyrirtækjum verði gagnsær og rekjanlegur, upplýsingar um stuðning verði opinberar og öllum ljósar, sett verði réttlát skilyrði og að jafnræðis sé gætt. Mikilvægt er að tryggja að fyrirtæki sem nýta sér stuðningsleiðir stjórnvalda séu m.a. ekki að nýta sér skattaskjól eða greiða út arð.
Nauðsynlegt er að réttindi neytenda séu virt og að kostnaði við velferðaraðstoð fyrirtækja sé ekki velt á neytendur, einstaklinga og fjölskyldur í landinu. Það skýtur skökku við að skattfé sé varið til að fjármagna uppsagnir starfsmanna fyrirtækja og í hrópandi andstöðu við meginmarkmið hlutabótaleiðarinnar sem er að viðhalda ráðningarsambandi. Því teljum við launalaus leyfi (norska leiðin) betur við hæfi. Stjórnvöld fjármagna þá atvinnuleysisbætur á meðan á launalausu leyfi stendur til að gefa fyrirtækjum kost á að leggjast í dvala og endurskipuleggja starfsemi sína.
Við hvetjum stjórnvöld til meira samráðs við alla stjórnmálaflokka á Alþingi. Það er affarasælla að björgunaraðgerðir séu unnar í samvinnu alls þingsins frekar en með ákvarðanatökum fárra í reykmettuðum bakherbergjum sem svo eru kynntar með sviðsettum glærukynningum.
Nýtum þetta einstaka tækifæri til að byggja nýtt velsældarhagkerfi en snúum ekki aftur til fortíðar . Hönnum mannúðleg stuðningskerfi sem tryggja fjárhagslegt, félagslegt og heilsufarslegt öryggi allra. Stjórnvöld eiga að styðja sérstaklega við grænar lausnir, nýta fjármuni og fjárfesta í náttúruvernd og lagfæringar á skemmdum vinsælla ferðamannastaða sem hafa orðið við holskeflu ferðamanna undanfarin ár. Aukin áhersla á nýsköpun, rannsóknir og þróun undirbýr samfélagið allt fyrir fjórðu iðnbyltinguna sem skellur á okkur hraðar og af meiri þunga en áætlað var.
Fjárfestum í fólki. Fjárfestum í framtíðinni.