Síðastliðna 18 mánuði hefur þingflokkur Pírata margoft vakið máls á framferði sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja. Hér verður stiklað á stóru um það sem Píratar hafa gert á þingi í tengslum við Samherjamálið og margþætta gagnrýni flokksins í garð ríkisstjórnarinnar, sem hefur leyft framgöngu fyrirtækisins að viðgangast.
- Eftir að afhjúpanir hinna svokölluðu Samherjaskjala litu dagsins ljós haustið 2019 kölluðu Píratar strax eftir því að sjávarútvegsráðherra myndi sitja fyrir svörum í þinginu.
- Skömmu síðar settu Píratar á dagskrá þingsins sérstaka umræðu um spillingu á Íslandi, þar sem Samherjaskjölin voru í brennidepli.
- Píratar endurfluttu þingsályktun um rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, eftir úttekt á því hvernig fjárfestingarleiðin var nýtt af Samherja.
- Píratar kröfðu sjávarútvegsráðherra um svör vegna tengsla hans við Samherja.
Rannsókn Pírata á sjávarútvegsráðherra stöðvuð
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hafði frumkvæði að því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd rannsakaði hæfi sjávarútvegsráðherra í ljósi sterkra tengsla hans við Samherja í kjölfar Samherjaskjalanna, þar sem forkólfar Samherja töluðu um hann sem „sinn mann“ í ríkisstjórninni og upplýsingar lágu fyrir um bein samskipti ráðherrans við þá í kjölfar Samherjaskjalanna.
Blásið var til opins fundar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, undir stjórn Pírata, þar sem ráðherra sat fyrir svörum. Í desember 2019 og í mars 2020 sendi nefndin ítarlegar upplýsingabeiðnir um störf ráðherrans fyrir Samherja, fjárstuðning fyrirtækisins við framboð hans og aðgerðir hans sem ráðherra í þágu Samherja. Talsverðar upplýsingar lágu fyrir sem bentu enda til þess að Kristján Þór væri vanhæfur sem sjávarútvegsráðherra.
Að endingu ákváðu ríkisstjórnarflokkarnir að stöðva rannsóknina sem Píratar hófu með afli og lýsti því yfir að ekkert væri athugavert við stjórnarhætti síns ráðherra. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði í kjölfarið af sér sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í mótmælaskyni og til að geta upplýst um það sem væri í gangi innan nefndarinnar.
Ítrekaðar ræður, spurningar og gagnrýni
Þess utan hafa þingmenn Pírata ítrekað fjallað um og gagnrýnt framgöngu Samherja í ræðum sínum. Athugið að þetta er ekki tæmandi upptalning:
- Halldóra Mogensen krafði forsætisráðherra svara um símtal sjávarútvegsráðherra til forstjóra Samherja
- Þórhildur Sunna Ævarsdóttir gagnrýndi sinnuleysi íslenskra stjórnvalda í spillingarvörnum hérlendis, eftir að þau höfðu sagt rót Samherjamálsins vera spillingu í Namibíu.
- Þórhildur Sunna Ævarsdóttir spurði formann Framsóknarflokksuns um hæfi sjávarútvegsráðherra vegna tengsla hans við Samherja.
- Björn Leví Gunnarsson ítrekar stuðning Pírata við rannsókn á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.
- Þórhildur Sunna Ævarsdóttir spurði sjávarútvegsráðherra um verkleysi hans eftir birtingu Samherjaskjalanna.
- Þórhildur Sunna Ævarsdóttir spurði sjávarútvegsráðherra um skilgreiningu á tengdum aðilum í sjávarútvegi vegna vegna andstöðu Samherja við að fara að lögum.
- Þórhildur Sunna Ævarsdóttir spurði forsætisráðherra um hvað henni þætti um að Samherji ætti 49,9% hlut í Síldarvinnslunni án þess að teljast tengdur aðili.
- Helgi Hrafn Gunnarsson greindi áróðursherferð Samherja í þaula í tveimur greinum, sem má lesa hér og hér.
- Síðast en ekki síst má minna á nýlega áramótagrein og eldhúsdagsræðu Þórhildar Sunnu þar sem hún talar um Samherjasímtalið, spillinguna og hagsmunahópana.
Píratar hafa alltaf og munu alltaf berjast gegn spillingu. Píratar hafa alltaf og munu alltaf gagnrýna spillingu þegar hún verður á vegi þeirra og þeir hafa svo sannarlega ekki þagað um Samherjamálið eins og þessi fjölmörgu dæmi sanna.