Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, mun i dag ræða við Jóhannes Stefánsson, uppljóstrara í Samherjamálinu, í beinni útsendingu frá höfuðstöðvum Pírata í Síðumúla. Þar munu þau ræða Samherja, framgöngu fyrirtækisins og aðför þess gegn fjölmiðlum, félagasamtökum og stjórnmálamönnum.
Jóhannes Stefánsson hefur mikla innsýn í starfsemi Samherja en hann er fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins í Namibíu. Þökk sé afhjúpun hans fengu Íslendingar, og í raun heimurinn allur, innsýn í hvernig fyrirtækið beitti sér í krafti hagnaðarins af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Starfsemi Samherja er nú til rannsóknar í hið minnsta fjórum löndum og er nú þegar til meðferðar fyrir dómstólum Namibíu.
Píratar hafa frá upphafi verið öflugasti flokkurinn við að halda Samherjamálinu á lofti á þingi. Þingmenn Pírata hafa ítrekað spurt ráðherra um hina ýmsu anga málsins ásamt því að hafa leitt sérstaka umræðu um spillingu á Íslandi – einmitt vegna Samherjamálsins. Þar að auki hófu Píratar frumkvæðisathugun á hæfi sjávarútvegsráðherra vegna fyrri starfa hans og tengsla við Samherja, en ríkisstjórnarflokkarnir komu í veg fyrir hana.
Nánari útlistun á því hvað Píratar hafa gert til að bregðast við Samherjamálinu má nálgast hér.
Smellið hér til þess að taka þátt í spurt og svarað!
Spurðu uppljóstrarann
Útsendingin hefst klukkan 17 í dag, fimmtudaginn 27. febrúar. Hana má nálgast á piratar.tv eða á Facebook-síðu Pírata. Áhorfendur geta sent þeim Þórhildi og Jóhannesi spurningar í gegnum útsendinguna á piratar.tv.
Nánari upplýsingar um viðburðinn má nálgast hér