Ríkisendurskoðun í mótsögn við sjálfa sig
Ríkisendurskoðun birti á dögunum ársreikning Pírata, um það bil mánuði seinna en allra annara flokka. Ástæðan var krafa ríkisendurskoðunar um að Píratar ættu að fara eftir einhverjum leiðbeiningum þeirra en ekki lögum landsins.
Píratar hafa frá stofnun flokksins bókað tekjur í samræmi við lög nr. 3/2006 um ársreikninga og okkar ársreikningar hafa alltaf verið birtir löglega… á endanum. Í þetta skiptið hófum við samtalið við hið opinbera í júní með fyrirspurn til reiknisskilaráðs.
Ársreikningur Pírata
Birting ársreiknings Pírata af hálfu Ríkisendurskoðun er áhugaverð og mótsagnarkennd. Annars vegar segir Ríkisendurskoðun:
“Ríkisendurskoðun birtir hann hér með í samræmi við 9. gr. laga nr. 162/2006, um starfsemi stjórnmálasamtaka”.
Þar með telur Ríkisendurskoðun þennan ársreikning okkar standast lagalegar kröfur þeirra, en Ríkisendurskoðun heldur áfram með þessari athugasemd:
“tekjufærsla framlags frá ríkinu er ekki með sama hætti og kveðið er skýrt á um í 13. gr. leiðbeininga ríkisendurskoðanda um reikningshald stjórnmálasamtaka”.
Í 3. gr. laga um fjármál stjórnmálasamtaka er fjallað um rétt flokka til greiðslu frá ríkinu:
“Stjórnmálasamtök sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi í næstliðnum alþingiskosningum eiga rétt á 12 millj. kr. grunnrekstrarframlagi úr ríkissjóði á ári hverju. Ný stjórnmálasamtök sem fá mann kjörinn á Alþingi eiga rétt á greiðslu styrks fyrir kosningaárið hlutfallslega miðað við kjördag.”
Þarna er skýrt að þetta sé réttur sem stjórnmálasamtök öðlast. Slíkan rétt skal auðvitað bóka fyrir viðeigandi tímabil. Þó ríkissjóður greiði ekki upphæðina fyrr en eftir áramót er krafan til staðar frá því fyrir áramót. Það á að sjást skýrt í ársreikningum.
Af gömlum vana?
Hér er því Ríkisendurskoðun komin í mótsögn við sjálfa sig. Ríkisendurskoðun fer með eftirlitið og á að passa upp á að stjórnmálaflokkar fari eftir lögum, en útaf gömlum vana ríkisins og allra aðra stjórnmálaflokka um hvernig tekjur þeirra eru bókaðar, þá kokkar Ríkisendurskoðandi upp einhverjar „leiðbeiningar“ handa þessum pirrandi löghlýðnu Pírötum til þess að raungera fyrir sjálfum sér þessa vitleysu í þeirri von að þessir Píratar gerir þetta bara eins og allir hinir, þvert á það sem stendur í lögunum.
Ríkisendurskoðun flækir starfið sitt
Það er okkur Pírötum ljóst að þessar leiðbeiningar Ríkisendurskoðunar væru að gera starfið þeirra ansi erfitt ef sú staða kæmi einhverntíman upp að hér væru tvennar kosningar á einu ári, vorkosning þar sem illa gengur að mynda ríkisstjórn og það er gefist upp, en þó er boðað til nýrra kosninga áður en árið klárast.
Annað eins hefur nú gerst í lýðræðisríkjum. Ný stjórnmálasamtök sem næði þingmönnum inn í vorkosningunum en myndi missa þá alla í haustkosningun yrði ekkert sérstaklega auðveldur ársreikningur. Ríkisendurskoðun myndi þó líklega finnast leiðbeiningarnar enn erfiðari að útskýra gagnvart almenningi og fjölmiðlum það árið. Árið sem þessi flokkur fékk 0kr í tekjur þegar hann var á þingi og margar milljónir árið eftir, það ár sem flokkurinn var ekki lengur til.