Lokaræða aðalfundar Pírata 2019, haldin af sjálfboðaliðanum Kötlu Hólm.
Sæl aftur kæru píratar. Eins og komið hefur fram þá heiti ég Katla Hólm og hef verið að sjálfboðaliðast á þessum fundi í smiðjugerð og hafði mikla ánægju af. Mér hefur reyndar tekist að stjórnast aðeins út fyrir það sem ég var beðin um, gamlir siðir gleymast seint býst ég við. Þegar ég heyrði að verið væri að leita að sjálfboðaliða til að halda lokaræðu hikaði ég í tvö augnablik en hoppaði síðan til og bað um verkið. Mér hefur nefnilega verið kennt að vera ekkert að trana mér fram um of af ástæðum sem hver má hugsa fyrir sig, og líkt ég sagði þá gleymast sumir siðir stundum seint. En ég hoppaði þó til af því að ég finn fyrir þörf á að tala við ykkur. Og hér er því fyrsta ráð mitt til ykkar: ekki hika við að bjóða ykkur fram, ef þið hafið orku, tíma og vilja þá ekki hika, því það gæti breytt lífi ykkar.
Þó að mörg ykkar þekki mig vel, og hafi unnið með mér í Pírötum í langan tíma þá er einnig heilmikið af fólki sem hefur bæst í hópinn undanfarin ár. Við ykkur segi ég: Takk fyrir að velja Pírata, þið eruð hluti af breytingunni sem heimurinn þarf. En mig langar þess vegna að segja frá sögu minni sem sjálfboðaliði með Pírötum.
Ég skráði mig í flokkinn við stofnun, var í uppfyllingarsæti í Reykjavík í alþingiskosningum árið 2013, gerði mitt besta það ár við að styðja flokkinn en byrjaði svo á fullum krafti í stefnumótun fyrir Reykjavík árið 2014 og í sjálfboðastarfi í borgarkosningum það ár. Þá var ekki aftur snúið fyrir mig, ég var orðin gjörsamlega húkkt á þessum félagsskap, orkunni, gleðinni, voninni og ekki síst húmornum sem finnst í þessum félagsskap. Næstu ár voru ævintýraleg, svo ekki sé minna sagt. Hreyfingin hélt áfram að styrkjast og fólk bættist í hópinn og saman gerðum við frábæra hluti með lítið á milli handanna, annað en sameiginlega ástríðu fyrir starfinu okkar. Til að halda mig við efnið sem er sjálfboðavinna, þá tókum við þátt í fundi fólksins þegar hann var haldin í fyrsta sinn árið 2015. Framkvæmdaráð bað mig þá um að taka stjórnina á okkar þátttöku þar, sem ég sinnti af mikilli gleði. Það þótti samt undarlegt fyrir hinum stjórnmálaflokkinum, sem sendu framkvæmdastjórana sína, að litla ég væri þarna með penna og glósubók og allar þessar skoðanir! Mjög óþægilegar skoðanir fyrir suma meira að segja, eins og að tala um ójöfnuð, borgaralaun og þátttöku almennings! Þessi týpa sko. Hér er þvi ráð númer tvö: ekki vera prúð, ekki láta þagga ykkur, haldið áfram að vera óþægileg fyrir þá sem vilja halda óbreyttu slæmu ástandi.
En svona vorum við, og ég vil taka það fram að af öllum flokkunum voru píratar með flesta sjálfboðaliðana og einna mestu nærveru fulltrúa á hátíðinni, til að mynda voru þá Halldóra og Björn varaþingfólk á þeim tíma og hoppuðu til og gerðu allt sem ég bað þau um, bæði á þessari hátíð og fyrir aðra viðburði sem ég sá um fyrir Pírata. Mér þótti alltaf vænt um það, af því að rétt einsog ég, þá voru þau að sinna þessari vinnu launalaust. Ekki að ég vilji tala um peninga, því það er leiðinlegt topic, en auðvitað geta sjálfboðaliðar tekið eftir því að þeir vinna mikið og launalaust. Og því er svo dýrmætt að finna fyrir kærleika og þakklæti fyrir störfin, það er einungis mannlegt að þurfa að finna fyrir slíku í hvaða vinnu sem er. Einstaka partý og pizza sakar ekki heldur. Ráð þrjú er því: aldrei hætta að eyða tíma saman til að styrkja böndin.
Nú er ég búin að mala heilmikið um gömlu dýrðardagana, segi ég í fullu gríni, en mig langaði að tala við ykkur í dag um það hvernig mér líður eftir þessa helgi. Við getum öll sammælst um það að undanfarin ár hafa verið allskonar; stormasöm, viðburðamikil, full af gleði, stundum vonbrigðum, pirringi, ótta, og haf af öðrum mannlegum tilfinningum. Fyrir mig varð það of mikið, ég vann mig í þrot og flutti af landi, bæði af því að okkur langaði að prófa að búa erlendis en líka af því að ég þurfti að komast í burtu frá þessum streituvald í lífi mínu. Ég hef því fylgst með úr fjarlægð undanfarin tvö ár, og oft hugsað með mér hvað varð um gleðina í starfinu. Ég var einnig á síðasta aðalfundi og get hreinskilningslega sagt að stemmningin var undarleg. Meira þarf ég ekki að segja um það. En ráð fjögur og það síðasta er því hér: hugsið vel um ykkur! Það kemur alltaf einhver í einhvers stað, þið eruð ekki ómissandi týndi hlekkuirnn, og treystið hvoru öðru fyrir verkum. Þið verðið að passa upp á að halda lífsgleðinni, bókstaflega. Hugsið því vel um ykkur sjálf og hvort annað.
Þegar ég vissi að ég yrði á landinu þessa helgi bauð ég mig fram sem sjálfboðaliði fyrir fundinn, ég hef tekið eftir breyttri stemmningu undanfarnar vikur og mig langaði að taka þátt aftur. Ég var snarlega snöruð inn í smiðjugerðina, og mikið er ég glöð að ég var hérna.
Af því að það sem ég er búin að upplifa þessa helgi hefur kveikt aftur í bálinu sem pírata ást mín er. Ég er búin að upplifa samkennd, kærleika, persónulegan þroska, vináttu og virðingu, líktog ég upplifði í upphafi þessa alls. Ég er búin að hlæja, faðma og tala frá mér allt vit. Ég er búin að hlusta á samtöl annara þar sem fólk er hvoru tveggja æst í að tala og deila þekkingu sinni, en líka viljað hlusta og læra af öðrum, þó það megi nú alltaf vinna í jafnvæginu á milli þessa tveggja. Og ég er búin að læra meira um samskipti, virðingu, aðstæður og ekki síst um smiðjugerð! Og það er rauði þráðurinn af sjálfboðavinnu minni í pírötum undanfarin sex ár; reynsla til framtíðar, lærdómur og gleði. Því vil ég þakka öllum sjálfboðaliðum þessa fundar, liðinna funda og framtíðar funda. Þið eruð Píratar, því án ykkar væri hreyfingin engin.