Ræða Evu Pandoru: Um traust og spillingu

Ræða Evu Pandoru Baldursdóttur, í framhaldi af stefnuræðu forsætisráðherra.

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn.
Mig langar að tala við ykkur um traust, og mig langar til að tala við ykkur um spillingu. Í vor gerði Gallup könnun meðal landsmanna þar sem traust til ýmissa opinberra stofnana var kannað. Í ljós kom að aðeins 22% þjóðarinnar ber traust til Alþingis. 22% ! Þetta er hræðileg niðurstaða, en kemur þó ekki svo mikið á óvart. Traust almennings til Alþingis náði sögulegri lægð eftir fjármálahrunið 2008 og hefur lítið aukist síðan þá. Af hverju ætli þetta sé? Er það vegna þess að stjórnmálamenn eru allir í eðli sínu vondir og óheiðarlegir eða er það mögulega vegna þess að á meðan gagnsæi í stjórnsýslunni er ekki meira en raun ber vitni þrífst leyndarhyggja, frændhygli, sérhagsmunagæsla og spilling í skjóli leyndar?
Spilling er að sjálfsögðu ekki áþreifanlegt fyrirbæri og menn eru ekki sammála um rétta skilgreiningu á hugtakinu “spilling”. Það fyrirfinnst eflaust í hugsun spilltra embættis- og stjórnmálamanna að þeir séu alls ekki spilltir þar sem þeir hafi aldrei þegið beinar peningagreiðslur eða mútur. En spilling er svo mikið víðtækara heldur en mútugreiðslur. Með breyttri heimsmynd og meiri valddreifingu , eins og t.d. í þingræðisríkjum, verða til nýjir spillingarhvatar og freistnivandar í viðskiptum og stjórnmálum. Þessi tegund spillingar lætur oft lítið fyrir sér fara og eru lög ekki endilega brotin en túlkun reglna er hagrætt til þess að ná fram ákveðnu markmiði.
Á meðan ekki ríkir gagnsæi er allsendis ómögulegt fyrir almenning að vera upplýstur um ákvarðanatökur og starfsemi stjórnvalda og hafa enga haldbæra tryggingu fyrir því að vel sé staðið að ákvörðunum. Allri ábyrgð ætti að fylgja krafa um gagnsæi, til þess að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni.
Í þessu samhengi eru hinir valdameiri ekki endilega alltaf stjórnvöld og hinir valdaminni almenningur heldur á þetta einnig við ríkisstjórnina annars vegar og Alþingi hins vegar. Alþingi hefur nefnilega tilgang, við erum ekki einungis málstofa, heldur hefur Alþingi eftirlitshlutverk með framkvæmdavaldinu. Til þess að ríkisstjórn sé starfhæf þarf hún að hafa traust meirihluta Alþingis og bera ábyrgð á ákvörðunum sínum gagnvart Alþingi og þannig fær hún lýðræðislegan grundvöll til að starfa á. Þetta hljómar allt gott og blessað en þegar við horfum til þeirrar staðreyndar að hér á Íslandi eru yfirleitt alltaf meirihlutastjórnir og mikil áhersla er lögð á flokkshollustu þingmanna þá er Alþingi í dag ekki hæft til að sinna eftirlitshlutverki sínu vegna valdníðslu meirihluta sem hefur minnihluta atkvæða á bak við sig.
Flokkshollustan er svo annað vandamál en dæmi eru um að einstaka þingmenn úr þingmeirihlutanum styðji ekki ákveðin mál en kyngi samt sem áður ælunni og veiti þeim brautargengi til þess að brjóta ekki á þessari flokkshollustu sem talin er vera svo heilög. Þess vegna er enn mikilvægara að allar ákvarðanatökur stjórnvalda séu gagnsæjar. Því einungis með gagnsærri ákvarðanatöku er hægt að meta hvort að ákvarðanir voru vel upplýstar og við þær hafi verið beitt gagnrýnni hugsun. Það er ekki hægt að hafa eftirlit með aðilum sem ástunda ekki gagnsæ vinnubrögð. Maður sér ekki í gegnum svartmálað gler.
Það kunna einhverjir mögulega að velta fyrir sér af hverju ég sé að eyða dýrmætum tíma í að tala um Alþingi en staðreyndin er sú að engin alvöru stefna, sem á að vera burðarbiti í samfélaginu, mun halda ef Alþingi er stillt upp eins og kökuskrauti á köku sem enginn veit hvað inniheldur. Vandamálin munu halda áfram að hrannast upp og fólk mun á endanum gefast upp og hætta að berjast fyrir sínum lýðræðislegu réttindum og í kjölfarið tekur fólk völdin sem ríður um hnarreist á fáki haturs og ótta í nafni réttlætis fyrir suma en ekki alla. Í stað þess að leyfa slíku að gerast verðum við að berjast fyrir því að valdefla almenning.
Fyrsta skrefið í valdeflingu almennings er að endurskoða stjórnarskrá landsins og koma á nýjum samfélagssáttmála. Í frumvarpi Stjórnlagaráðs segir í 15. gr., með leyfi forseta, “Stjórnsýsla skal vera gegnsæ. Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af.”
Að spyrna við fótum á móti nýjum samfélagssáttmála er ekkert annað en íhaldssemi sem snýst um að ríghalda í ímyndaðan stöðuleika og hefðir vegna þess að það getur verið skelfilega ógnandi að henda sér út í djúpu laugina án þess að vita hvað er undirdjúpunum. Það íhaldssama fólk treður marðvaða og kafar aldrei í djúpin þrátt fyrir fljótandi eldmauraþúfur allt um kring.
Ég legg til að við notum þetta þing til þess að auka traust og áhuga almennings á Alþingi með því að breyta regluverkinu sem við vinnum eftir. Ég legg til að við eflum lýðræðið með öllum þeim leiðum sem við getum. Spilling grefur undan lýðræði og vernd mannréttinda, veikir hagkerfið, hefur skaðleg áhrif á viðskiptalíf, veikir stjórnsýslu og eyðir trausti á opinberum stofnunum. Því skulum við taka höndum saman og vinna gegn spillingu hvar sem hún birtist. Þá kannski getum við unnið okkur inn traust þeirra 78% Íslendinga sem treysta ekki Alþingi í dag.