Home Fréttir Ræða Dóru Bjartar á kvenréttindadaginn

Ræða Dóru Bjartar á kvenréttindadaginn

0
Ræða Dóru Bjartar á kvenréttindadaginn

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, lagði blómsveig við leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Hólavallagarði í morgun. 19. júní er kvenréttindadagurinn og hefði fyrir því að heiðra minningu Bríetar með því að forseti borgarstjórnar haldi stutta tölu og leggi blóm á leiði hennar en Dóra var kjörin forseti borgarstjórnar síðar þennan dag á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar.

Þetta er mikill gleðidagur fyrir Dóru sjálfa þar sem hún fagnar einnig 30 ára afmæli í dag auk þess að komast í sögubækurnar sem yngsti einstaklingurinn til að gegna embætti forseta borgarstjórnar.

Í ræðu sinni fjallaði Dóra meðal annars um #metoo-byltinguna og mikilvæg áhrif hennar á réttindabaráttu kvenna.

Ræða Dóru í heild sinni:

Til hamingju með daginn og velkomin öll sem eitt í Hólavallagarð.

Í dag heiðrum við minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og annarra baráttukvenna fyrir kvenfrelsi, á sjálfan kvenréttindadaginn 19. júní.

Þennan dag árið 1915, fengu konur á Íslandi í fyrsta sinn kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Bríet átti ríkan þátt í að koma á mikilvægum réttarbótum fyrir konur, styrkja þær til þátttöku á eigin forsendum og efla þannig lýðræðissamfélagið fyrir okkur öll. Hún var stofnandi Kvenréttindafélags Íslands með því markmiði að vinna að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi og embættisgengi, og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn.

Simone de Beauvoir, franskur feminískur tilvistarstefnuheimspekingur sem ég sæki mikinn innblástur til, sagði að til þess að raungera þig sem manneskju þyrftir þú að velja þitt líf með virkum hætti. Taka ákvarðanir út frá eigin brjósti og vilja.

Það þarf þor og kjark til að velja sjálfa sig. Það er oft á tíðum óþægilegt. Jafnvel vont. En það er hið rétta. Við megum ekki taka aukið valfrelsi sem sjálfsögðum hlut því það var ekki fengið ókeypis. Það var fengið með blóði, svita og tárum formæðra okkar, Bríetar og margra baráttukvenna og –manna fyrr og síðar. Sú er staðreyndin. Sýnum þakklæti með því að nýta okkur þetta valfrelsi.

En enn er valfrelsið ekki allra. Það er ótrúlegt að enn í dag skuli þriðjungur kvenna verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi einhverntíma á lífsleiðinni eins og #metoo gerði samfélaginu sýnilegt. Margar konur lifa í ótta og líf þeirra er takmarkað við þennan ótta.

Meira níð upplifa konur í hinu opinbera en karlar sem hræðir konur frá pólitískri þátttöku á hverjum einasta degi. Þær endast skemur en karlar í stjórnmálum. Þetta er vandamál.

Það er ekki nóg að hafa frelsi ef þú getur ekki nýtt þér það. Þá takmarkast frelsið við hvaða möguleika þú hefur til þess að velja líf þitt.

Ég stend hér í dag, stolt, auðmjúk og þakklát. Ég stend hér vegna þess að konur börðust fyrir minn dag. Færðu fórnir. Sérstaklega mikill heiður er að ég muni í dag taka forsetasæti sem yngsti forsetinn hingað til í borgarstjórn með metháu hlutfalli kvenna. Því er ástæða til að fagna. Í dag skulum við gleðjast, skála, dansa, stappa, trampa, hrópa og skella okkur á lær. En á morgun heldur baráttan áfram.