Ræða Dóru Bjartar á 1. maí

Píratar fögnuðu 1. maí og buðu í verkalýðskaffi sem haldið var í Iðnó. Þar héldu ræður þær Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, Valgerður Árnadóttir, fulltrúi í framkvæmdaráði Pírata, Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, og Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Hér gefur að lesa ræðu Dóru Bjartar.

Góðu félagar og vinir. Til hamingju með daginn.

Ég er svo glöð í hjartanu yfir upprisu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi. Loksins. Loksins heyrast raddir hinna valdaminni sem keppast um að komast undan yfirgangi hinna valdameiri. Loksins er þessi rödd styrk og enginn skal voga sér að hlusta ekki.

Ég upplifði það í Noregi þar sem ég bjó lengi að verkafólk væri stolt. Að það segði: ,,Ég er með of lág laun en það endurspeglar ekki mitt virði. Ég á betra skilið og tími minn er meira virði. Berjumst.“ En hér ríkti þögn. Ég upplifði að láglaunafólk skammaðist sín. En fyrir hvað? Loksins er búið að skila skömminni. Samfélag sem getur ekki greitt laun sem hægt er að lifa af fyrir nauðsynlega vinnu á frekar að skammast sín.

Mér finnst örlítið undarlegt að talað sé um að verkalýðsbaráttan sé einkamál vinstri-manna, jafnvel þó það sé kannski skiljanlegt í sögulegu samhengi . Þetta er fyrir mér ekki spurning um hægri eða vinstri heldur um hvers konar samfélag við viljum vera. Ef það er einkamál nokkurra stjórnmálaflokka að skapa hér gott líf, þá er það ansi sorglegt.

Að geta lifað af launum sínum er lýðræðismál. Ef þú nærð ekki endum saman og þarft að vinna myrkranna á milli er þér fyrirmunað að taka þátt í lýðræðinu með virkum hætti. Fátækt grefur undan lýðræðinu. Við eigum öll rétt á því að hafa tækifæri til að taka þátt í lýðræðinu. Til að hafa tækifæri til að láta rödd okkar heyrast.

En við eigum líka rétt á því að vinnan sé ekki bara ekki heilsuletjandi heldur hreinlega heilsueflandi. Við erum ekki vélar sem hægt er að nota þangað til að eitthvað gefur sig og skipta svo út. Að lifa við bestu mögulegu heilsu eru mannréttindi. Við þurfum umhyggjusama vinnuveitendur og umhyggjusama vinnu. Vinnandi fólk er ekki auðlind sem hægt er að fullnýta og henda svo í ruslið. Vinnandi fólk á betra skilið en vinnuumhverfi sem gerir það veikt. Það á skilið umhverfi sem eflir það, styrkir það, og gefur því tækifæri til að nýta hæfileika sína og líða vel.

Konur eru að brenna út í hrönnum. Kulnun í starfi er vaxandi vandi meðal ungs fólks og á kvennavinnustöðum. Þetta er vandamál hjá öllum en tíðnin er að aukast hjá ungu fólki og sérstaklega ungum konum.

Þær vinna úti á daginn og taka svo heimilisvaktina á kvöldin og um helgar. Í samfélagi þar sem einstaklingshyggjan tröllríður öllu þurfa þær líka að skara fram úr í öllu, vera sætastar og bestar. Svo geta þær ekki meira og verða veikar. Konurnar okkar verða veikar því að við sem samfélag krefjumst þess af þeim að þær séu yfirmanneskjulegar. Slíkt samfélag er kvenfjandsamlegt samfélag. Sama hvað allar jafnréttismælingar segja. Það er ekki nóg að tikka í einhver box sem setja okkur efst á lista yfir lönd þar ríkir mest jafnrétti ef konurnar okkar eru að veikjast í hrönnum.

En karlarnir veikjast líka. Við þurfum að skapa samfélag þar sem karlmenn þora að segja stopp, að sýna að þeir geti ekki meir. Það er ekki veikleikamerki. Það er styrkleikamerki.

Styttum vinnuvikuna! Styttum vinnuvikuna! Rannsóknir sýna að við það minnka sjúkdómar og það bætir lífsgæði og starfsánægju. Þessir löngu vinnudagar okkar auka heldur ekki framleiðni. Framleiðnin er því miður lakari hjá okkur en í nágrannalöndunum. Styttum vinnuvikuna. Píratar á þingi hafa þegar lagt fram frumvarp þess efnis — þrisvar sinnum. Tilraunaverkefni á vegum Reykjavíkurborgar við styttingu vinnuviku hafa gefist vel og við höldum áfram. Vinnum til að lifa en lifum ekki til að vinna. Við þurfum að krefjast þess. Við þurfum að þora að setja okkar lífsgæði og okkar fjölskyldur í fyrsta sæti. Það gerir það enginn fyrir okkur.

Á Íslandi gefst fólki svo lítill tími til að sinna sjálfu sér og áhugamálum sínum, að landið var sett í 34. sæti af 38 mögulegum hjá Efnahags- og framfarastofnunininni, OECD. Það er ekki í lagi. Ísland best í heimi? Aldeilis ekki. Hættum að hreykja okkur af því hvað við vinnum mikið. Við þurfum að breyta þessari menningu. Lífið er meira en bara vinna. Lífið er fjölskyldan. Lífið eru áhugamálin. Lífið er hugmyndaauðgin okkar. Gefum þessu líka rými. Við eigum það skilið. Þú átt það skilið.

Lifi verkalýðsbaráttan.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....