Ræða Birgittu Jónsdóttur: Framtíðarsýn

Ræða Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra  á Alþingi 13. september 2017.

—-

Forseti, kæru landsmenn

 

Ímyndið ykkur Ísland eftir svona þrjátíu ár. Hvernig samfélagi dreymir ykkar um að búa í? Ég veit að það er oft erfitt að sjá fram í tímann. Þó eru til heilu starfsstéttirnar sem vinna sem tölu völvur. Meira segja veðurfræðingar eru eins konar völvur. Bankarnir eru með allskonar spámannadeildir um hvernig verðlag þróast og hvernig er hægt að græða sem mest.

 

Ef meginstefnumál Pírata næðu fram að ganga sem eru til upprifjunnar;

 

  1. Uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá.
  2. Tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum.
  3. Endurreisa gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu.
  4. Efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku.
  5. Endurvekja traust og tækla spillingu…

 

nú þá gæti eftirfarandi framtíðarsýn kannski orðið að veruleika, spólum fram um 30 ár;

 

Krafan um að nýr samfélagssáttmáli yrði lögfestur, sem í þá daga var kallaður stjórnarskrá, var orðin svo rík eftir stóru þjóðfundina sem haldnir voru um land allt í kringum 100 ára afmæli lýðveldisins, að ráðamenn sáu ekki fram á neina aðra leið en að virða vilja þjóðarinnar.

 

Fyrstu þjóðfundirnir eru orðnir að einhverskonar þjóðsögu, svo mikil voru áhrif þeirra og afleiðing. Þjóðfundir eru hluti af okkar daglega lífi núna. Þeir eru stundum stórir og alltaf slembivaldir. Öll stór mál sem varða þjóðina er hægt að taka inn í þennan samræðuvettvang. Flestir kjósa enn að mæta í eigin persónu og það er fátt skemmtilegra en að fá tækifæri til að hitta fólk í raunheimum til að ræða um samfélagið.

 

Í árdaga þjóðfundana voru komnir vísar að sýndarveruleikatækni sem þróaðist mjög ört í þessu tómarúmi eftir stóra hrun árið 2020. Það fallegasta sem gerðist var að með aðstoð sýndarveruleika tókst að finna leið til að hjálpa fólki að setja sig í spor annarra á svo djúpstæðan hátt að þessar endalausu erjur um smáatriðin urðu að gömlu bergmáli sem hægt og bítandi hvarf í þoku minninga.

 

Þróaður var frábær tölvuleikur til að auðvelda fólki að fylgjast með þeim málum sem það brann fyrir og til virkja atkvæði sín samhliða þingi sem hægt og bítandi varð slembivalið. Núna er þingið galopinn og virkur vettvangur þar sem lög og stefnur eru unnar í náinni samvinnu við þá sem þurfa að lifa eftir lögunum. Lögin hafa auk þess verið uppfærð og einfölduð og auðvelt er að láta leiðrétta lög sem hafa galla eða eru orðin úrelt.

 

Valdefling almennings jókst til muna, einfaldlega vegna þess að réttur þeirra til upplýsinga og áhrifa var lögfestur í okkar æðstu lögum og lýðræðisþátttaka varð nánast eins ávanabindandi og candy crush.

 

Þar sem áður var herstöð er núna kallað kýsilhæð norðursins. Inn á milli fallegu gróðurhúsaklasana á Reykjanesi má sjá minecraft útfærslu af gagnaverum sem hýsa viðkvæm og mikilvæg gögn frá öllum heimshornum, líka þessi bönnuðu.

 

Borgaralaun voru innleidd í skrefum, fyrst var gerð sambærileg tilraun og í Finnlandi og Hollandi, sem þó var mun víðtækari hér vegna þess hve fámenn við erum. Allir skjólstæðingar vinnumálastofnunar og tryggingastofnunar fengu skilyrðislausa grunnframfærslu. Hætt var að skilgreina fólk sem atvinnuleysingja og öryrkja. Kvíða og streitusjúkdómum fækkaði til muna. Allskonar skemmtileg verkefni og sjálfboðaliðavinna urðu til mjög fljótlega eftir að tilrauninni var ýtt úr vör.

 

Það kom öllum á óvart þegar tilraunir með borgaralaun voru gerðar hversu mikill sparnaður fólst í því að einfalda og sameina tugi mismunandi úrræða fyrir framfærslur í eitt. Því er það aðeins brot af sanngjörnum arði af auðlindum sem fór í að fjármagna þessar breytingar. Innleiðingin á gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu tókst þremur árum á undan áætlun.

 

Sjálfvirknivæðing í mannfrekum verkum í stjórnsýslu hafa skapað hagræðingu sem hefur nýst til gríðarlegra umbóta í menntakerfinu sem hefur fært það inn í nútíman og nú eru símenntun orðin hluti af eðlilegri þróun í starfi á gjörbreyttum vinnumarkaði.

 

Fólkið í dag er hætt að verðmeta sig út frá vinnustundum. Það eru reyndar komin furðuleg heilsukölt út um allt og sköpunargleðin er nánast að ganga frá landanum. En víða er kyrrðin að drepa fólk úr leiðindum. Auðvitað verða alltaf til vinnufíklar en stóri munurinn núna og þá er að fólk er að keyra sig út á vinnu sem það elskar að gera og það er eiginlega ekki hægt að útskýra fyrir barnabörnunum hvað streita er.

 

En ég man þá tíð þegar sjúkt og gamalt fólk var geymt á göngum í mygluðum sjúkrastofnunum og fólk hreinlega féll fyrir eigin hendi á öryggisdeildum fyrir geðsjúka, nú ef það dó þá ekki bara heima hjá sér vegna þess hve hratt fólki var vísað heim eftir flóknar og erfiðar aðgerðir. Ég man að það átti að einkavæða allt á sama tíma og við áttum að borga rosalega mikinn skatt. Ég man líka hvernig það var fyrir allt þetta fólk sem í miðju góðæri árið 2017 átti ekki einu sinni þak yfir höfuð sér og hírðist í tjöldum. Eldri borgurum var meira segja refsað fyrir að vinna og látið borga fyrir vinnuna sína.

 

Ég man líka þegar vímuefnasjúklingar voru settir í fangelsi í stað þess að hjálpa þeim að ná heilsu. Alveg ótrúlegt satt best að segja.

 

Ég man líka hvernig stjórnmálamenn komust upp með að etja fólki saman og á meðan það reifst og skammaðist á samskiptamiðlum út af einhverju sem fyllti það heilagri vandlætingu einn daginn og var gleymt næsta, þá hvarf auðurinn frá okkar sameiginlegu auðlindum inn í skattaskjól víða um heim.

 

En sem betur fer varð alþjóðleg sátt um verulega uppstokkun á fjármagnsflutningum í skúffur og skattaskjól víða um heim. Eftir stóra heimshrunið sem varð upp úr 2020, þurfti mörg þjóðríki að endurskilgreina forgangsröðun og sjálfbærniviðmið. Það var sem hægðist á öllum heiminum og öll sú mikla vinna sem átti sér stað í ýmsum hugveitum í hruninu 2008 sem átti þá að sporna við því sem gerðist 2020, var loks gerð að veruleika víða um heim, það átti líka við um Ísland. Árið 2023 var ákveðið að óheimilt væri að samþætta bankastarfsemi við fjárglæfrastarfsemi. Kennutöluflakk og brask sem einkenndi það sem margir kalla gamla Ísland heyrir sögunni til enda var internetið nýtt til að efla samvinnu á milli rannsóknarblaðamanna og sérfræðinga í hvítflibbaglæpum. Ísland tók sér loks afgerandi sérstöðu til að verja upplýsinga og tjáningafrelsi að ógleymdri friðhelgi einkalífsins sem um tíma nánast glataðist.

 

Ég man þegar ég kom fyrst inn á þing árið 2009, þá litu þingmenn á sig sem valdalaus verkfæri framkvæmdavaldsins, virtust ekki fatta að þeir höfðu umboðið sitt frá öllum þessum krossum á kjörseðlunum en það breyttist fljótt eftir að einn valdamesti þingmaður landsins hljópst undan trausti kjósenda sinna og lýsti hreinlega yfir vantrausti á Alþingi. Sá gjörningur vakti aðra þingmenn úr doða sínum og varð til þess að alger bylting átti sér stað í þingheimum, þingmenn meiri og minnihluta ákváðu að eina leiðin til að bregðast við sívaxandi vantrausti á störf sín væri samvinna og að opna þingið svo að hægt væri að nýta sér visku fjöldans í flóknum málum. Þá var loks skipuð framtíðarnefnd sem skipuð var fulltrúum allra flokka óháð stærð. Þessar breytingar áttu sér stað stuttu eftir stóra hrun og urðu til þess að allir nefndarfundir voru opnir og aðgengilegir öllum og hið raunverulega starf sem var unnið á þinginu varð öllum sýnilegt. Öll lagasetning var flutt út úr lögmannsskrifstofum í opið ferli á þinginu og framkvæmdavaldið sá svo um að framkvæmda lög og reglur sem þjóðin samþykkti.

 

Tímabilið þar sem þingmenn voru notaðir sem gluggaskraut fyrir ráðherra sína leið undir lok.

 

Bestu fréttirnar voru síðan þær að mannkynið ákvað að hætta að ímynda sér að það væri hægt að flytja til Mars og ákvað að bjarga því sem bjarga mætti á jörðinni áður en það yrði of seint. Ísland var fyrst landa til að verða að einum samfelldum þjóðgarði og þó svo að landið og náttúran sé í sífelldri mótun og margar hörmungar hafi dunið yfir heiminn allan út af ýktu veðurfari vegna hlýnun jarðar og mengun af mannavöldum, þá er mannkynið komið á réttan kjöl og kvíðinn og óttinn sem ég ólst upp við er ekki lengur hluti af þjóðarsálinni. Það er léttara yfir þjóðinni minni, enda var farið í þjóðarátak um að útrýma fátækt og kerfisbundnu óréttlæti fyrir löngu síðan.