Pírötum þykja svör ráð­herra í Sam­herja­málinu ekki upp á marga fiska

Píratar halda áfram að spyrja ríkisstjórnina erfiðra spurninga í Samherjamálinu.

Píratar gengu á utanríkisráðherra á Alþingi í dag og spurðu hvernig það mætti vera að hann hafi ekki vitað af tilraunum Samherja til að njósna um fréttamenn með aðstoð ráðuneytisins. Svör ráðherrans bera með sér að í ráðuneyti hans sé aðför Samherja gegn fréttamönnum ekki litin alvarlegum augum, þvert á móti þarf starfsfólk ekki að tilkynna neinum þó svo að þau fái upplýsingar um njósnir sem þessar. Þetta kom fram í dag þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði utanríkisráðherra út í þátt ráðuneytis hans í Samherjamálinu á Alþingi í dag.

Samskipti hinnar svokölluðu Skæruliðadeildar Samherja, sem Kjarninn og Stundin hafa fjallað um að undanförnu, sýna að skipstjóri Samherja hafði samband við ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins í upphafi þessa árs. Ætlunin var að fá upplýsingar um hvort að Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, hafi fylgt Jóhannesi Stefánssyni, uppljóstrara í Samherjamálinu, til Berlínar árið 2019.

Í samtali við Kjarnann staðfestir ráðuneytisstjórinn að skipstjórinn hafi leitað til hans. Þrátt fyrir að skipstjórinn hafi ekki fengið upplýsingar hjá ráðuneytisstjóranum segir í gögnum Skæruliðadeildarinnar að samtal þeirra hafi verið „mjög gott,“ eins og skipstjórinn orðar það. Ráðuneytisstjórinn hafi ætlað að „segja mönnum af“ spjalli þeirra enda teldi hann það „endurspegla svolítið hvað fólk er að hugsa.“

Var ráðherrann einn þessara „manna“?
Þórhildur Sunna spurði utanríkisráðherra því einfaldlega hvort að hann væri einn þeirra „manna“ sem ráðuneytisstjórinn hafi sagt frá þessu samtali? Utanríkisráðherra sagði svo ekki vera, hann hafi ekki heyrt af þessu máli fyrr en eftir umfjöllun Stundarinnar og Kjarnans.

Þórhildi þóttu þessi svör ekki merkileg og spurði ráðherrann hvort ekki hefði verið tilefni til þess að láta Helga vita af þessum eftirgrennslunum fyrirtækisins. Þætti ráðherranum eðlilegt að háttsettir embættismenn í ráðuneyti hans ættu slík samtöl, um njósnir íslenskra fyrirtækja um fréttamenn, án þess að það væri tilkynnt? 

Svör ráðherrans voru snubbótt en afhjúpandi: Engar reglur væru til „um hvernig menn koma skilaboðum áleiðis,“ eins og utanríkisráðherra orðaði það. 

Pírötum þykja þessi svör stórmerkileg. Fyrrnefnd samskipti milli fulltrúa Samherja og ráðuneytisins eiga sér stað löngu eftir að ljóst er að fyrirtækið ofsækir íslenska fréttamenn. Ráðuneytinu ætti því að vera ljóst hver tilgangur slíkrar eftirgrennslunar var og því ámælisvert að ekki skuli vera til staðar reglur um að tilkynna njósnir sem þessar. Utanríkisráðherra hefur tekið afdráttarlausa afstöðu með hvítrússneskum blaðamanni sem handtekinn var á dögunum en sama stuðningi er ekki að skipta í tilfelli þeirra íslensku blaðamanna sem hafa sætt ofsóknum vegna starfa sinna í Samherjamálinu. 

Enginn flokkur öflugri en Píratar
Píratar hafa frá upphafi verið öflugasti flokkurinn við að halda Samherjamálinu á lofti á þingi. Þingmenn Pírata hafa ítrekað spurt ráðherra um hina ýmsu anga málsins ásamt því að hafa leitt sérstaka umræðu um spillingu á Íslandi – einmitt vegna Samherjamálsins. Þar að auki hófu Píratar frumkvæðisathugun á hæfi sjávarútvegsráðherra vegna fyrri starfa hans og tengsla við Samherja, en ríkisstjórnarflokkarnir komu í veg fyrir hana. Þá er óhætt að mæla með afhjúpandi samtali þeirra Þórhildar Sunnu og Jóhannesar Stefánssonar, uppljóstrara, sem sýnt var í beinni á dögunum. Upptöku af samtalinu má sjá hér að neðan.

Nánari útlistun á því hvað Píratar hafa gert til að bregðast við Samherjamálinu má nálgast hér.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....