Pírati vikunnar: Sara Oskarsson

Sara Oskarsson varaþingmaður er Pírati vikunnar.

Þessi dálkur verður fastur liður hér á síðunni þar sem þátttakendur svara fimmtán spurningum, á misléttum nótum, og gefa öðrum þannig smá innsýn í hugarheim sinn.

 1. Hvers vegna ert þú Pírati?
  Ég er Pírati vegna þess að ég hef trú á því að aflið haldist óspillt áfram. Það er sterk meðvitund innan flokksins um hætturnar sem vald getur haft í för með sér og grasrótin heldur okkur þingmönnunum og varaþingmönnunum vel við efnið. Það er ekki liðið að menn fúnkeri á egóinu, áherslurnar eru alltaf á heildina og á hagsmuni almennings í landinu.
 2. Hvaða álegg færðu þér á pítsu?
  Bara fullt af ananas! Ekkert annað en ananas. Vegna þess að ég er andófsmanneskja.
 3. Uppáhalds heimildamyndin?
  Wrath of Gods eftir Jón Gústafsson
 4. Hvaða grunngildi Pírata skiptir þig mestu máli?
  6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
 5. Uppáhalds tölvuleikurinn?
  Facebook.
 6. Hvernig er eðlilegast að fjármagna starfsemi ríkisins?
  Með sanngjarni skattainnheimtu, þar sem að stórfyrirtæki,stóriðja og sjávarútvegurinn sem dæmi eru ekki undanskilin með fáránlegum ívilnunum. Og með því að tryggja réttláta dreifingu arðs af þjóðarauðlindunum. Já, og með því að koma í veg fyrir það að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar flytji háar, skattskyldarupphæðir til Panama í þeim tilgangi að komast hjá því að greiða til samfélagsins til jafns við þá sem að veittu þeim umboð og borga launin þeirra. Sá peningur sem fengist væri ef til vill hægt að nota til að kaupa krabbameins- og taugasjúkdómalyf sem að ríkið telur sig ekki geta greitt fyrir í dag.
 7. Uppáhalds bókin?
  Draumar Einsteins eftir Alan Lightman.
 8. Hvaða app notar þú mest?
  Ha, eru til önnur öpp en Facebook?
 9. Mikilvægasta málið á yfirstandandi löggjafarþingi?
  Það verður alltaf nýja stjórnarskráin, á öllum löggjafarþingum þangað til hún er tekin í gildi.
 10. Hvaða sögu segja foreldrar þínir alltaf af þér?
  Þegar að ég var 4 ára náði ég í hveitipoka úr eldhússkápnum og dreifði öllu hveitinu yfir eldhúsgólfið. Og renndi mér svo eftir gólfinu í hveitinu aftur og aftur þangað til að mamma varð þess áskynja að krakkinn væri að gera einhverja gloríu. Aftur.
 11. Irc nafn?
  Er það app?
 12. Mikilvægasta réttarbótin í íslensku samfélagi?
  Ný stjórnarskrá – Beint lýðræði og jöfnun atkvæða.
 13. Sega vs. Nintendo vs. PlayStation?
  1995 hringdi og vildi fá spurningarnar sínar aftur.
 14. Hver er þín helsta fyrirmynd?
  Birgitta Jónsdóttir. Og nú fæ ég hina reglubundnu holskeflu um ‘foringjadýrkun’ og ‘foringjahollustu’ og eitthvað raus um Sigmund Davíð, og, og… En ég er Pírati og ég segi satt þó að það þýði einhver pirrandi viðbrögð. Birgitta Jónsdóttir, klárlega.
 15. Lífsmottó?
  Ég ælta að sveifla mér á ljósakrónunni.