Pírati vikunnar: Margrét Sigrún Þórólfsdóttir

Pírati vikunnar er Margrét Sigrún Þórólfsdóttir, gjaldkeri Pírata á Suðurnesjum.

 

 1. Hvers vegna ert þú Pírati?

Það fyrsta sem heillaði mig við Pírata er grunnstefnan –  gagnsæi, tjáningafrelsi, friðhelgi einkalífsins o.s.fv. Píratar eru grasrótarhreyfing sem tekur lýðræðislegar ákvarðanir og tekur á spillingu. Mér leiðast þessir gömlu hægri/vinstri-stimplar sem ég vil meina að séu orðnir úreltir í dag.  Ef fólk vill halda í slíka stimpla er ég á öllu rófinu. Ég er mjög skotin í sjávarútvegsstefnu Pírata og er hún talin frekar hægri sinnuð, en ég vil líka að þeir sem nota auðlindirnar okkar allra eigi að borga réttláta rentu af henni, sem sumir segja að sé vinstriskattastefna.

 

 1. Hvaða álegg færðu þér á pítsu?

Skinku og ananas. Og já, Guðni hefur aldrei boðið mér í pizzuveislu á Bessastöðum.

 

 1. Uppáhalds heimildamyndin?

Núna stendur hjarta mér næst heimildamyndinn Línudans sem fjallar um baráttu bænda í Skagafirði gegn lagningu háspennulínu frá Blönduvirkjun í Húnavatnshreppi yfir í Skagafjörð, þaðan um Öxnadalsheiði, niður Öxnadal og Hörgárdal til Akureyrar.  

 

 1. Hvaða grunngildi Pírata skiptir þig mestu máli?

4.2 Píratar telja gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.

 

 1. Uppáhalds tölvuleikurinn?

Ég hef spilað marga, marga tölvuleiki og það eru svo margir í uppáhaldi hjá mér. Þessa dagana er ég að spila Path of Exile, Diablo og svo MineCraft með ömmu-skopplunni minni. Var að fá góða leikjatölvu í þessum mánuði með AMT Risen5 örgjafa og GTX 1060 skjákorti svo þá er bara að skella sér á Steam og ná sér í leiki eins og til dæmis Black Desert. Hef spilað Neverwinter Nights, Tombe Rider, Duke Nukem, Resident Evil og fleiri. Oft hefur verið reynt að fá mig til að spila EVE Online en ég er ekkert spennt fyrir honum. Á annan í jólum og annan í páskum var lan-að á mínu heimili – öll fjölskyldan, allan daginn. Ég sakna þess dálítið í dag.

 

 1. Hvernig er eðlilegast að fjármagna starfsemi ríkisins?

Með beinni sanngjarni skattheimtu og svo arði af auðlindum okkar. Ég er alls ekki hrifin af jaðarsköttum eins og vegatollum. Svo má ekki margskatta sama hlutin og tel að virðisauki af matvælum og svo matarskattur sé tvísköttun. Taka má á skattaundanskotum og bæta eftirlitskerfið. Já, ég gæti rantað um eftirlitskerfið í marga klukkutíma en hlífi ykkur við því í þetta skiptið.  

 

 1. Uppáhalds bókin?

Ég les mikið af prjóna- og handavinnu blöðum/bókum sem tengjast þá vinnuni minni en ég hef líka áhuga á þeim. Síðan tek ég alltaf törn með 5 vælubókum  yfir sumarið og hef eflaust lesið sumar oftar en einu sinni því þær renna inn um annað og út um hitt.  En þær bækur sem ég held mest uppá tilheyra bókaröð og heita Þjóð Bjarnarins mikla, Dalur hestana, Mammútaþjóðin, Seiður sléttunar og Hellaþjóðin.

 

 1. Hvaða app notar þú mest?

Á tvo síma frá fornöld. Annar er snjallsími með ör-minni og hinn er spjallsími á fimmara. Þess vegna nota ég ekki app en það stendur til bóta og þá ætla ég líka að fá mér Snapchat. Annars er það bara Facebook.

 

 1. Mikilvægasta málið á yfirstandandi löggjafarþingi?

Þau eru nokkur og má þá fyrst nefna Almannatryggingar (leiðrétting), lög númer 9/2017. Ég horfði á Birgittu halda þrusu fínu ræðu um þetta klúður. Kjararáð klúðraði sínum málum, millidómsstig dómara var klúður. Ég hefði viljað sjá frumvarpið hans Gunnars Ingibergs fara í gegn en Þorgerður Katrín saltaði það ofan í nefnd. Það voru mér mikil vonbrigði.

 

 1. Hvaða sögu segja foreldrar þínir alltaf af þér?

Pabbi sagði oft að ég hefði átt að vera smiður.

 

 1. Irc nafn?

Jedúdda mía! Ég var á Irc-inu í einhvern tíma en nikkið man ég bara alls ekki.

 

 1. Mikilvægasta réttarbótin í íslensku samfélagi?

Ný stjórnarskrá, klárlega. Þá er mikilvægt að aldraðir fá þá virðingu sem þeir eiga skilda með réttlátum eftirlaunum og ellilífeyri svo að amma og afi geti lifað með reisn. Einnig þurfum við á réttarbót að halda fyrir ungt fólk til að það geti eignast sitt heimili hvort sem það kaupir eign eða leigir eign til lengri tíma. Verðtryggingu vil ég burt af íbúðarlánum. Síðan er það margt, margt fleira. Það þarf að stórbæta heilbrigðiskerfið. Dæmin eru endalaus.

 

 1. Sega vs. Nintendo vs. PlayStation?

Playstation – en það leiðinlegasta við hana er að maður getur ekki notað gömlu leikina í nýrri útgáfu.

 

 1. Hver er þín helsta fyrirmynd?

Vigdís Finnbogadóttir.

 

 1. Lífsmottó?

Lífsmottóið sem pabbi kenndi mér á yngri árum var að mæta á réttum tíma, vera heiðarleg og segja alltaf satt, alveg sama þó sannleikurinn væri svartur.  Síðan er ég alltaf að vinna með „Virðingu, ábyrgð og vinsemd“ og eru það ágætis gildi. Let‘s do It, no problem, lýsir mér kanski best.