Pírati vikunnar: Hrannar Jónsson

Pírati vikunnar er Hrannar Jónsson, Pírati í Reykjavík og fulltrúi í trúnaðarráði flokksins.

 1. Hvers vegna ert þú Pírati?

Fyrir mig var skemmtilegt að upplifa sig ekki lengur sem einhverskonar pólitískan útlaga því ég gat enganveginn fundið samhljóm með því sem var í boði. Píratar eru með ferska sýn á hlutina og tilbúnir að skoða frumlegar lausnir. Auðvitað brenn ég fyrir nýju stjórnarskránni og mér getur ekki annað en fundist við hafa verið rænd henni. Mér hefur fundist Píratar vera með eitthvað sem gæti höggvið á pólitískan hnút. Fólk hér á landi og út um allan heim er að bíða eftir pólitískum lausnum því þær gömlu virka augljóslega ekki.

 1. Hvaða álegg færðu þér á pítsu?

Ég á við alvarlegan vanda að glíma í pítsuneyslu minni. Fyrir einu og hálfu ári síðan hætti ég að borða rautt kjöt og pizzur án pepperoni er bara ekki alveg það sama. Í þá gullnu daga var það pepperoni, laukur og svartar ólífur. Í dag er ég enn að feta mig áfram.

 1. Uppáhalds heimildamyndin?

Ég brenn fyrir geðheilbrigðismálum og þessa stundina eru í miklu uppáhaldi tvær heimildamyndir um geðheilbrigðismál sem komu út fyrr á þessu ári. Báðar fjalla um öðruvísi sýn á það óvenjulega vitundarástand sem sumir vilja kalla geðrof og aðrir einfaldlega geðveiki. Önnur heitir „Emerging Proud“ og byggir upp á viðtölum við fólk sem vildi ekki hafa verið án þessarar reynslu og sér hana sem upphafið að jákvæðu umbreytingarferli eða einhverskonar andlegri vakningu. Hin heitir „Crazywise“ og varpar fram spurningum um hvort við gætum kannski lært eitthvað af hvernig aldagömul samfélög takast á við þennan vanda.

 1. Hvaða grunngildi Pírata skiptir þig mestu máli?

Ætli það sé ekki þetta hérna: „Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.“ Ég sjálfur er í seinni tíð farinn að furða mig á hversu eigin skoðanir byggja oft á veikum grunni og lélegum upplýsingum. Það er ekkert vandamál að vera með skoðun. Allir hafa þær. Það gerir þær ekki betri eða verri að þær séu „mínar“. Vandinn er hversu mikið við erum tilbúin að hanga á þeim þó raunveruleikinn sé farinn að öskra einhverju allt öðru að okkur. En okkur venjulegum manneskjum er vorkunn. Max Planck, eitt af stærstu nöfnunum í sögu eðlisfræðinnar og sá sem er sagður upphafsmaður skammtafræðinnar sagði sem svo um kollega sína: „Nýr vísindasannleikur verður ekki viðtekinn með því að þeir sem eru á öðru máli láti sannfærast og sjái ljósið heldur vegna þess að þeir deyja að lokum og ný kynslóð vex úr grasi sem hefur hann fyrir satt.“

 1. Uppáhalds tölvuleikurinn?

Ég er mjög af gamla skólanum þegar kemur af tölvuleikjum. Það er langt síðan ég hef hætt mér í nýja leiki því að það er alltof stutt í leikjafíkilinn. Starcraft verð ég að nefna. Ég veit ekki hversu mikið af lífi mínu fór í að finna nýjar leiðir til þess að deyja í hinum síklassíska Nethack. Ég elska Dwarf Fortress.

 1. Hvernig er eðlilegast að fjármagna starfsemi ríkisins?

Með skattakerfi og gjaldi af afnotum sameiginlegra auðlinda. Meiri áherslu á neysluskatta en tekjuskatta. Ég held að flestir Íslendingar séu sammála um nauðsyn skatta. Fyrir flest okkar er heilbrigðiskerfið t.d. heilagt og við viljum ekki horfa upp á mismunun þar. En ég held líka að meira væri hægt að gera í því að geta ráðið þó ekki væri að einhverju litlu marki í hvað sínum skatttekjum er varið.

 1. Uppáhalds bókin?

Úff. Erfitt. Núorðið les ég eiginlega eingöngu fræðibækur. Það er helst ég vindi mér öðruhvoru í fantasíu- eða vísindaskáldskap. Hringadróttinssaga er ást sem aldrei deyr. Þessa dagana held ég ekki vatni yfir „Debt: the first 5000 years“ eftir mannfræðinginn og eina aðalsprautuna í „Occupy Wall Street“ hreyfingunni, David Graeber. Hún hefur algerlega umbylt mínum hugmyndum um peninga og skuldir. Mér finnst ekki hægt að tala um framtíð hagkerfa og peningamálastefnu án þess að hafa lesið þessa bók.

 1. Hvaða app notar þú mest?

Facebook hefur klárlega vinninginn. Reddit, rafbókarlesarinn (Kobo), og Google Keep koma stutt á eftir.

 1. Mikilvægasta þingmálið?

Ég vonast til þess að endurskoðun lögræðislaga verði tekin upp á komandi þingi.

 1. Hvaða sögu segja foreldrar þínir alltaf af þér?

Ætli það sé ekki helst hvað ég var með eindæmum mikill hrakfallabálkur. Ég hafði t.d. hæfileika til þess að koma hausnum á mér í samband við allskonar hluti á flugi sem skiluðu mér oftar en ekki á bráðamóttöku. Upphrópuninni „Hrannar, passaðu þig!“ fylgdi svo oftar en ekki brothljóð.

 1. Irc nafn?

Einhvernveginn náði ég aldrei að verða virkur irc-ari. Ég gerði einhverjar tilraunir en ekki nóg til þess að ég muni einu sinni nikkið mitt.

 1. Mikilvægasta réttarbótin í íslensku samfélagi?

Fyrir utan nýja stjórnarská vil ég nefna endurskoðun lögræðislaga. Það er einfaldlega þannig að fáir þú einhverntímann á þig geðveikistimpilinn ert þú orðinn eitthvað minna en manneskja fyrir lögunum.

 1. Sega vs. Nintendo vs. PlayStation?

Algjörlega innvígður PC-maður

 1. Hver er þín helsta fyrirmynd?

Fyrir nokkrum árum komst ég í tengsl við hreyfingu þeirra sem hafa verið að berjast fyrir réttindum fólks sem hefur glímt við geðrænar áskoranir. Það fólk hefur síðan verið mér endalaus uppspretta innblásturs. Ef ég ætti að nefna einhvern úr þeim hópi væri það Dr. Daniel Fisher.

 1. Lífsmottó?

Ég elska góðar tilvitnanir. Á endalausum víðáttum Internetsins er ég alltaf öðru hvoru að rekast á einhverjar sem höfða til mín. Þessar tvær finnst fanga einhvern kjarna sem kemur nálægt mínu lífsmottói:

 „Það er einfaldlega engin pilla sem getur komið í staðinn fyrir mannleg tengsl. Það eru engin lyf sem geta uppfyllt þörfina fyrir ástríðufull samskipti við aðra. Það er engin allrameinabót. Svarið við mannlegri þjáningu er bæði innra með okkur og á milli okkar.“         

Dr. Joanne Cacciatore

„Þeir sem hafa ekki vald yfir sögunni sem stýrir lífi þeirra, valdið til þess að endursegja hana, endurhugsa hana, sundurgreina hana, gera grín að henni og breyta henni eftir því sem tímarnir breytast eru sannarlega valdalausir því þeir geta ekki upphugsað nýjar hugsanir”

Salmon Rushdie