Pírati vikunnar: Hákon Helgi Leifsson

Pírati vikunnar er Hákon Helgi Leifsson, Pírati í Kópavogi.

 1. Hvers vegna ert þú Pírati?

Með leyfi spurningahöfundar þá bætti ég við spurningu sem að mínu mati skiptir mig meira máli og svara síðan þeirri upphaflegu.

 

 1. Fyrri hluti. Af hverju ertu Pírati, en ekki eitthvað annað?

Svarið við þessari spurningu er nefnilega það sem ég tel dýrmætasta eiginleika Pírata. Sannleikurinn er sá að inngöngukröfurnar í Pírata eru engar. Píratar eru stjórnmálaafl hins almenna borgara.

Enginn Pírati er, að ég viti til, er tengdur nokkrum sérhagsmunum öðrum en hinum auðséðu sérhagsmunum almennings. Það er mikilvægur eiginleiki Pírata, að mínu mati, því öll þekkjum við og vitum um tengslin sem önnur stjórnmálaöfl hafa við sérhagsmuni, sér í lagi útvöldum atvinnugreinum landsins.

Til að vera Pírati þarf engin fjölskyldutengsl við „æðri“ aðila innan flokks því valddreifing flokksins býður ekki upp á formlega leiðtoga. Ég er hvorki mikilvægari né minna mikilvægur en aðrir Píratar. Því er þröskuldurinn til þess að hafa raunveruleg áhrif á samfélagið svo gott sem enginn hjá Pírötum.

Píratar biðja ekki um prófgráðu í lögfræði eða aðrar gráður úr fínum skólum. Þær eru auðvitað ekki til trafala en skipta í raun ekki svo miklu máli. Það eina sem Píratar biðja um eru þínar hugmyndir og þínar skoðanir. Séu þær góðar og nái þær hylli annara Pírata þá gæti hugmyndin þín orðið hluti af stefnumótun heils stjórnmálaafls. Það eru að ég tel ekki mörg stjórnmálaöfl sem geta boðið slíkt.

Ég er Pírati vegna þess að hin klassísku viðmið og skilgreiningin vinstri/hægri í umræðunni skipta ekki miklu máli. Ýmsu er haldið fram um Pírata. Fyrir kosningar að við værum vinstri flokkur, nú að við séum hægri flokkur. En það sem alltaf gleymist og er sjaldan rætt er hversu margt frjálslyndir vinstri- og hægrimenn eiga sameiginlegt.

Málið er að viðhorf beggja vængja eru sannarlega þau sömu þegar kemur að tjáningafrelsi, trúfrelsi, skoðanafrelsi, ferðafrelsi, félagafrelsi, friðhelgi einkalífs og annarra frelsiákvæða. Á þeim er enginn munur.

Að gera sér grein fyrir þessu er ein aðalástæða þess að ég er Pírati.

Gott og vel, ætla að svara upphaflegu spurningunni núna. Ég verð stuttorður.

 

 1. Seinni hluti. Hvers vegna ert þú Pírati?

Rótina má rekja til atburða sem áttu sér stað vorið 2013. Sveitastjórnarkosningarnar það ár voru merkilegar, eða eftir atvikum, ómerkilegar. Ákveðið stjórnmálaafl hafði þá, rétt fyrir kosningar, lagst í eitt ljótasta athæfi stjórnmálanna í þeim tilganguri að sanka að sér atkvæðum og valdi með því að höfða til þess versta í fari okkar að mínu mati.

Moskumálið svokallaða var ljóslifandi dæmi um lýðskrum. Umræðan hafði verið ljót áður en þetta útspil splundraði í raun samfélaginu öllu og þvingaði í fólk til þess að taka afstöðu í máli sem öllu jafna er talið sjálfgefið – trúfrelsi okkar.

Ég gerðist Pírati þar sem ég var reiður þessu stjórnmálaafli fyrir þetta. Hatur og hræðsla eru tilfinningar sem hvað sterkastar eru í fari okkar. Að nota þær til þess að ná í völd er ógeðslegt. Ég ákvað á þessum tímapunkti að gera allt sem í mínu valdi stóð til þess að verja frelsi minnihlutahóps hér á landi með virkum hætti.

Það er ákveðin kaldhæðni í þessu reyndar, en segja má að ég sé Pírati vegna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins. (Takk Simmi)

 

 1. Hvaða álegg færðu þér á pítsu?

Sökum stöðunnar í lands- og heimsmálunum þykir mér þessi spurning alvarlegt inngrip í friðhelgi einkalífs. Ég kýs því að svara ekki.

 

 1. Uppáhalds heimildamyndin?

Schindler’s List og Terminator 2: Judgement day

 

 1. Hvaða grunngildi Pírata skiptir þig mestu máli?

Ég myndi segja að upplýsinga- og tjáningarfrelsi sé mikilvægasta mál Pírata. Það er afskaplega skuggaleg þróun að eiga sér stað í hinum stóra heimi. Maður sér meðal annars valdamesta mann heims trekk í trekk fordæma, jafnvel hóta aðför tjáninga- og upplýsingafrelsi fjölmiðla. Aldrei áður hefur verið jafn mikilvægt fyrir okkur öll að standa vörð um frelsi okkar til tjáningar.

Að svo sögðu er ég mikill lýðræðissinni en ekkert endilega í hefðbundnum skilningi. Mér finnst raunar ákveðið vandamál hversu margir misskilja orðið lýðræði. Fólk á það til að upphefja og gildishlaða í eitthvað allt annað en það í raun veru táknar. Staðreyndin er sú að lýðræði er aðferðafræði. Þær ákvarðanir sem eru teknar eru í lýðræðislegum kosningum eru eingöngu jafn góðar og skorðurnar sem því eru settar.

Ég er lýðræðisinni (og Pírati) vegna þess að ég vil að við notum aðferðafræðina (lýðræði) til þess að draga úr valdi stjórnmálanna (til að mynda Pírata) og koma því í hendur þeirra sem stjórnmálamenn eiga að starfa fyrir, að koma valdinu til almennings.

 

 1. Uppáhalds tölvuleikurinn?

Frjálshyggjuspjallið á Facebook (hópur).

 

 1. Hvernig er eðlilegast að fjármagna starfsemi ríkisins?

Með sanngjarnri skattheimtu, sanngjörnum arði af náttúruauðlindum og almennri einföldun í allri stjórnsýslu.

Ég er mikill talsmaður þess að auka rafræna stjórnsýslu, ég tel að mikið geti sparast á komandi áratugum ef við leysum það vel. Fyrir utan nú allan þann tíma sem borgarar eyða í óþarfa skriffinsku. Hafið þið nokkurn tímann séð glaðan einstakling hjá sýslumanni?

Ég vil einföldun á skattkerfinu með skilvirkni í huga. Ég vil að þjóðin fái markaðsvirði af þeim auðlindum sem hún lánar út, sama hvort um ræðir útgerð, rafmagn, vatn eða aðrar auðlindir í okkar eign. Varðandi útgerðina myndi ég persónulega gera það í smáum skrefum þannig að áfallið yrði ekki of mikið fyrir iðnaðinn í heild. 

Allan sparnað og þá tekjuaukningu sem ofangreint gæti skilað okkur ætti síðan að nota til að styrkja velferðar- og menntakerfi. Ríkið á að mínu mati að sjá til þess að þeir verst settu njóti allra þeirra réttinda sem ætlast er til af jafn ríku landi sem Ísland er.

 

 1. Uppáhalds bókin?

Besti höfundur – Terry Pratchett.

Ég hef lesið allar bækur Pratchett.  Discworld bækurnar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Það er einfaldlega ekki hægt að velja eina sérstaka úr. Eins langar mig að nefna að ég hef aldrei hitt manneskju sem lesið hefur Pratchett sem mér hefur líkað illa við. (Höfundurinn Douglas Adams er númer tvö hjá mér, sorrí)

Besta sería – Hyperion Cantos eftir Dan Simmons

Þessar tróna á toppnum hjá mér. Skáka öllum öðrum stórverkum að mínu mati, hvort sem Tolkien, Herbert, Banks eða aðrir snillingar eru nefndir.

Besta Píratabók – The Authoritarians eftir Robert Altemeyer.

Ef þið viljið vita hvernig þankagangur íhaldsmanna virkar, t.d. Vigdísar Hauks, þá er þetta algjör skyldulesning. Varúð, heimurinn verður ekki eins eftir lestur.

Náttborðið – The Open Society and Its Enemies eftir Karl Popper.

 

 1. Hvaða app notar þú mest?

Facebook.

 

 1. Mikilvægasta málið á yfirstandandi löggjafarþingi?

Að veita meirihlutanum virkt og sterkt aðhald.

 

 1. Hvaða sögu segja foreldrar þínir alltaf af þér?

Eins og margir geta ímyndað sér þá er af nægu að taka þegar kemur að áhugaverðum sögum af mér sem barni. Mamma segir iðulega frá því þegar ég var fimm eða sex ára gamall patti í Hraunbænum, en kallinn átti það til í að klifra upp í það sem hægt var að príla (eða ekki hægt). Má segja að ég hafi verið klifurkóngur krakkanna.

Í eitt skiptið stóðu nágrannarnir í hverfinu og horfðu í örvæntingu á litla snáðann, hangandi fimlega í toppi ljósastaurs í hverfinu. Í þeirra huga var alveg ljóst að þessi drengur var í bráðri lífshættu enda fallið mikið. Bankað var í örvæntingu á dyrnar heima og mömmu og henni sagt að ég væri í hættu staddur.

Þegar mamma kom á svæðið, sá hún hvernig í pottinn var búið. Hún kallaði til mín og spurði hvort ekki væri allt í lagi. Svarið mitt var jákvætt: „Allt bara frábært,“ sagði ég.

Fór hún þá aftur heim, án þess að skipta sér frekar af þessu máli við mikla undrun nærstaddra. Hún vissi nefnilega, það sem aðrir vissu ekki, að það þýddi ekkert að öskra mig niður. Líkurnar á því að ég hefði hlýtt slíkum fyrirmælum voru vægast sagt takmarkaðar.

Eins vissi hún hversu fær klifrari og öruggur ég var þannig að hennar mati var þetta ekkert til að hafa áhyggjur af.

 

 1. Irc nafn?

Merkilegt nokk, þá var ég ekki á irkinu þannig að ég náði mér  aldrei í slíkt.

 

 1. Mikilvægasta réttarbótin í íslensku samfélagi?

Að tryggja í stjórnarskrá málskots- og frumkvæðisrétt.

 

 1. Sega vs. Nintendo vs. PlayStation?

Við skulum orða það þannig að ég hef klárað alla Super Mario Bros-leiki á öllum stóru Nintendo-tölvunum frá upphafi.

 

 1. Hver er þín helsta fyrirmynd?

Ragnheiður konan mín, mamma og strákarnir mínir tveir.

 

 1. Lífsmottó?

Flest fólk er gott fólk og sárafáir einstaklingar eru raunverulega illar manneskjur.

Með þeim útgangspunkti má kafa betur í allar skoðanir og skilja. Ef við skiljum, getum við rætt. Ef við getum rætt, getum við breytt skoðunum.