Pírati vikunnar: Dóra Björt Guðjónsdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir er Pírati vikunnar. Hún var að láta af embætti formanns Ungra Pírata en var kjörin í úrskurðarnefnd á síðasta aðalfundi Pírata.

 

 1. Hvers vegna ert þú Pírati?

Landið okkar er ungt lýðræðisríki og því er lýðræðiskerfið götótt á margan hátt. Betra lýðræði myndi þýða betra og réttlátara samfélag og meiri sátt. Píratar eru eina stjórnmálahreyfingin sem setur mikilvægi þess að bæta lýðræðið á oddinn og ég tel betra lýðræði á Íslandi vera forsendu þess að hægt sé að laga aðra samfélagslega galla. Þess vegna er ég Pírati.

 

 1. Hvaða álegg færðu þér á pítsu?

Það verður að vera ananas. Pítsa án ananas er eins og partí án fólks.

 

 1. Uppáhalds heimildamyndin?

Eiginlega get ég ekki valið neina eina en ég nýt þess að horfa á heimildarmyndir og -þætti og fræðast. Ég vel að nefna nýlega mynd, Before The Flood, heimildarmynd Leonardo DiCaprio um loftslagsbreytingarnar vegna þess að hún gerir skilning á þeim aðgengilegri fyrir fleiri í krafti frægðar sinnar og hversu vel myndin sjálf er gerð og það er nauðsynlegt að búa til fjöldahreyfingu um umhverfisbaráttuna til þess að koma í veg fyrir eyðingu jarðarinnar. Hún endurnýjaði orku mína í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

 

 1. Hvaða grunngildi Pírata skiptir þig mestu máli?

Ég á dálítið erfitt með að taka nokkur þeirra út af fyrir sviga vegna þess að þau hanga öll saman og eru hvert öðru háð. Ég lít á lýðræði sem tré og lýðræði er okkar verkfræri til að skapa réttlátt samfélag fyrir alla, það er eins og ég sé það stólpi Píratahreyfingarinnar og regnhlíf annarra gilda. Greinar trésins eru gildi eins og gagnsæi, tjáningarfrelsi, fjölmiðlafrelsi, vinna gegn spillingu, upplýsingafrelsi sem einnig tengist internetfrelsi og nethlutleysi, fulltrúaábyrgð og valddreifing.

 

 1. Uppáhalds tölvuleikurinn?

Super Mario Bros 3 fyrir gömlu góðu Nintendo NES.

 

 1. Hvernig er eðlilegast að fjármagna starfsemi ríkisins?

Með arðgreiðslum af sameiginlegum auðlindum landsins okkar, og með eðlilegri og réttlátri skattheimtu. Það þarf að komast í veg fyrir fjárhagsleka vegna svartrar starfsemi en til að koma í veg fyrir hana þarf að styrkja stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í landinu og hafa bankakerfi sem þjónustar fólkið og fyrirtæki á jafnréttisgrundvelli.

 

 1. Uppáhaldsbókin?

Norski blaðamaðurinn Bjørn Weslie skrifaði bókina Fars krig um norskan föður sinn sem var nasisti og bauð sig sjálfviljugur fram sem hermaður fyrir þjóðverja eftir að Þýskaland hernám Noreg í seinni heimsstyrjöldinni. Seinna varð Bjørn svo kennari minn í blaðamennskufagi í Osló og hefur gefið mér leyfi til að þýða bókina yfir á íslensku sem ég á alltaf eftir að gera, en það er önnur saga. Sú bók kynti gríðarlega undir áhuga mínum á sagnfræði, seinni heimsstyrjöldinni og í raun einnig kalda stríðinu sem leiddi til þess að ég flutti til Berlínar á ákveðnum tímapunkti. Ég er núna að lesa mjög áhugaverða bók sem heitir The Authoritarians eftir Bob Altemeyer. Annars veitti Just Kids eftir Patti Smith mér mikinn innblástur til að þora að vera ég sjálf í öllu sem ég geri og grípa tækifærin sem gefast.

 

 1. Hvaða app notar þú mest?

Facebook-appið.

 

 1. Mikilvægasta þingmálið?

Það sem er mér síhugleikið er ný stjórnarskrá sem myndi leggja grunninn að öðrum mikilvægum breytingum. Drögin sem liggja fyrir eru góð og að byggja nýja stjórnarskrá á þeim og lögleiða hana sem fyrst myndi bæta nokkur grundvallaratriði í samfélaginu okkar, meðal annars tryggja meira gagnsæi, fulltrúaárbyrgð, valddreifingu og réttlæta dreifingu auðlindaarðs. Þessi atriði myndu svo styðja við meira réttlæti í samfélaginu yfir höfuð.

 

 1. Hvaða sögu segja foreldrar þínir alltaf af þér?

Ég talaði ofsalega mikið sem barn og öskraði ef ég fékk ekki mínu framgengt, svo mikið að ég missti röddina og talaði með rámri viskírödd í marga mánuði. Þegar farið var með mig til læknis sagði hann að eina lausnin væri að ég talaði minna og hvíldi röddina, sem var auðvitað ómögulegt verkefni.

 

 1. Irc nafn?

Það man ég ekki, en ég tengi Irc helst við spurninguna ASK (aldur-staður-kyn) og þegar við vinkonurnar sátum tíu ára gamlar og þóttumst vera fimmtán ára, eða ‘fullorðnar’. Aldrei hefur mér liðið jafn töff hvorki fyrr né síðar.

 

 1. Mikilvægasta réttarbótin í íslensku samfélagi?

Stjórnarskrárbreytingin 1915 þegar lögleitt var að konur og efnaminni menn máttu kjósa, og lögleiðing kosningarréttar kvenna á við karla árið 1920.

 

 1. Sega vs. Nintendo vs. PlayStation?

Nintendo NES að eilífu.

 

 1. Hver er þín helsta fyrirmynd?

Nóbelsverðlaunahafinn Malala Yousafzai sem lifði af að vera skotin í höfuðið af Taliban fyrir að berjast fyrir aukinni menntun kvenna og mannréttindum. Þrátt fyrir að hafa næstum misst líf sitt í baráttunni, þurft að flýja land og búa undir stöðugu eftirliti vegna yfirvofandi ógnar heldur hún ótrauð áfram og lætur ekkert stoppa sig. Það er ótrúlegt. Þetta er mögnuð manneskja.

 

 1. Lífsmottó?

Eksistensíalismi. Hann snýst um að til að vera persóna, full og heil manneskja sem flýtur ekki bara með straumnum, þarftu að þora að velja líf þitt. Taka virkar og sjálfstæðar, persónulegar ákvarðanir, jafnvel þótt þær séu óþægilegar.