Pírati vikunnar: Álfheiður Eymarsdóttir

Álfheiður Eymarsdóttir, Kafteinn Pírata á Suðurlandi, er Pírati vikunnar. Hún er yfirleitt kölluð Alfa.

 

 1. Hvers vegna ert þú Pírati?

Píratar hafna ósanngjörnu og úreltu stjórnkerfi og hagkerfi.  Þess vegna er ég Pírati. Píratar berjast fyrir raunverulegu lýðræði og borgararéttindum, og taka hvorki þátt í foringjadýrkun né sjónhverfingum hefðbundinna stjórnmálaafla. Ég var og er hluti af „open source“ hreyfingunni á netinu sem eru svipaðar hugmyndir en á öðrum vettvangi. Það þarf að frelsa samfélagið og einstaklinga undan úreltu kerfi peninga og valds. Á sama hátt þarf að frelsa netið undan oki stórfyrirtækja og vernda það gegn öllum tilraunum til ritskoðunar og stýringar, endurskilgreina höfundarrétt o.fl.  Svo frétti ég að það væri frítt kex á öllum fundum hjá Pírötum.

 

 1. Hvaða álegg færðu þér á pítsu?

Allt grænmeti sem er til í búllunni. Sleppa svo helv… pizzasósunni. 

 

 1. Uppáhalds heimildamyndin?

Bowling for Columbine eftir Michael Moore. Ég er mikill aðdáandi en oft ósammála og rífst upphátt við hann þegar ég les bækurnar hans. Hann gefur sér oft vafasamar forsendur og rökfræðin er ekki alltaf eins og hún ætti að vera.

Svo þyrfti að horfa á eina heimildamynd um helförina í mánuði – af því að við megum aldrei gleyma henni! Ég fer ekki eftir þessari reglu sjálf en þetta er engu að síður mjög góð regla.

 

 1. Hvaða grunngildi Pírata skiptir þig mestu máli?

Upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Það er stanslaust vegið að því á netinu og í raunheimum.  Risamál.

 

 1. Uppáhalds tölvuleikurinn?

Tomb Raider og Duke Nukem. Grafíkin þótti lýginni líkust á sínum tíma.  Krökkunum mínum finnst það mjög fyndið. TRON og Donkey Kong í Arcade. Allt mjög gamaldags. Fyrsti multiplayer leikurinn sem ég spilaði yfir netið var Pimpwar (pimpwar.com) á löngum næturvöktum hjá Hewlett-Packard um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Ég var í bresku gengi. Við vorum 20 saman og ég var alltaf MataHari fyrir utan ógleymanlegan mánuð sem við tókum í Radox-freyðibaðsþema. Þá var ég Raspberry Swirl. Ég veit ekki hver drakk of mikið og fannst að freyðibað væri góð hugmynd fyrir skipulögð glæpasamtök.

Ég hætti svo að spila tölvuleiki árið 2003 þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn. Þá hætti einnig allur svefn, hvíld og eðlileg líkamsstarfsemi.

 

 1. Hvernig er eðlilegast að fjármagna starfsemi ríkisins?

Með sanngjarnri og einfaldri skattheimtu á einstaklinga og fyrirtæki. Skattheimtan verður að vera einföld og skýr til að tryggja gegnsæji og lágmarka undanskot. Það má alls ekki setja á of flókið kerfi mismunandi skatta, þjónustugjalda, notendagjalda og undanþága – þar með er allt gegnsæji farið og undanskot auðveldari. Fáir Íslendingar geta sagt með vissu hvað þeir greiða í skatta þar sem stór hluti þeirra er falinn. Tekjuskattur, útsvar, vaskur, heilbrigðisútgjöld, útvarpsgjald, eignaskattur, sorphirðugjöld, skólaskyldutengd útgjöld, tollar og innflutningsgjöld og gomma af gjöldum (sköttum) hér og þar. Ef þetta bregst þá er alltaf hægt að græða á ferðamönnum eða selja miðhálendið.

 

 1. Uppáhalds bókin?

Óbærilegur léttleiki tilverunnar eftir Milan Kundera.

 

 1. Hvaða app notar þú mest?

Veðrið og fréttir. Ekki mikil símakerling. Vegahandbókin á sumrin. Ég vil ekki vera í nafnlausu og sögulausu landslagi.

 

 1. Mikilvægasta málið á yfirstandandi löggjafarþingi?

Stjórnarskráin sem var ekki á dagskrá. Og millidómsstigið sem klúðraðist. Ég er í sjöunda himni með árangurinn (!)

 

 1. Hvaða sögu segja foreldrar þínir alltaf af þér?

Þegar ég drakk naglalakkið. Bróðir minn vildi hella acetoni á eftir.

 

 1. Irc nafn?

furniture. Styttist í furni sem breyttist stundum í furbi til að stríða mér.

 

 1. Mikilvægasta réttarbótin í íslensku samfélagi?

Ný stjórnarskrá væri eðlilegt fyrsta skref.

 

 1. Sega vs. Nintendo vs. PlayStation?

PS 4

 

 1. Hver er þín helsta fyrirmynd?

Mamma.  Og amma. Ótrúlegur kvenleggur sem ég á alltaf að.

 

 1. Lífsmottó?

Lífið er of stutt fyrir leiðinlegt.