Pírati vikunnar: Alexandra Briem

Pírati vikunnar er Alexandra Briem, formaður stjórnar Pírata í Reykjavík.

  1.      Hvers vegna ert þú Pírati?

Ég er Pírati vegna þess að mér hefur lengi ofboðið ósanngirnin og spillingin sem ég sé á Íslandi. En líka vegna þess að mér finnst viðhorfið sem ég sá hjá fyrstu íslensku Pírötunum svo mikilvægt; við viljum miklar breytingar en við gerum kröfu að þær byggist á upplýsingu, samræðu og sanngirni, en ekki bara reiði og hefnigirni eins og ég sá hjá mörgum umbótaframboðum sem komu fram eftir hrun. Ég er Pírati vegna þess að ég trúi því að við getum breytt hlutunum, og ég er Pírati vegna þess að ég vil gera það á sanngjarnan og heiðarlegan hátt. Ég trúi á mannréttindi, vísindi og það að við getum búið til gott og sanngjarnt kerfi. En fyrst og fremst er ég Pírati af því að ég vil ég að fólk ákveði sjálft í hvernig samfélagi það býr en sé ekki að velja milli skástu aðilana sem eru að keppast um að segja þeim það.

 

  1.      Hvaða álegg færðu þér á pítsu?

Ógurlega leiðinlegt svar er ég hrædd um. Mér þykir yfirleitt best að fá mér þunnbotna pítsur með tvöföldu pepperóní og svörtum pipar, en ég er yfirleitt til í flest og prófa oft annað. Stundum er ég líka í skapi fyrir pönnupítsur. Eina sem er, er að ég er íhaldssöm með sósur á pítsur. Ég vil hafa þessa týpísku tómatblöndu, kannski smá kryddaða, en læt ekki bjóða mér að skipta henni út fyrir pestó eða bernaise eða barbecue sósu. Það er bara eins og að taka sálina úr pítsu að taka af henni pítsasósuna.

 

  1.      Uppáhalds heimildamyndin?

Hér ætla ég að svindla aðeins en mér finnast flestar nútíma heimildamyndir aðeins of langdregnar og oft aðeins of erfitt að sjá muninn á þeim og „point of view‘“-myndum, þar sem er verið að gagngert hampa einum punkti. Samt eru þrjú  myndbönd sem sitja alltaf í mér, þó vissulega séu þau stundum að hampa ákveðnum pólitískum punktum. Í fyrsta lagi er það póstur um einfalda meirihlutakosningu sem CGP Grey er með á Youtube (linkur neðst), annar póstur um misskiptingu auðæfa í nútímanum og hvernig það er komið á svo ýkt stig sumstaðar í heiminum að meira að segja fólki sem telur sig frjálslynt og hægrisinnað er brugðið og síðast en ekki síst er það  eitt besta myndband sem ég hef séð, myndband þar sem fræðimaðurinn Hans Rosling fjallar um hvers vegna hugmyndir okkar um fólksfjölgun eru oft byggðar á misvísandi hugmyndum. Mæli með að fólk horfi á það, þó það sé langt. Svo vil ég reyndar gefa Cosmos þáttunum nýju með Neil DeGrasse Tyson stór meðmæli en þar voru tekin fyrir mikilvæg mál sem skipta máli í nútímanum.

First Past the Post: https://youtu.be/s7tWHJfhiyo

Misskipting: https://youtu.be/4DbkPBKtCss

Fólksfjölgun: https://youtu.be/FACK2knC08E

 

  1.      Hvaða grunngildi Pírata skiptir þig mestu máli?

Úff, erfitt að velja. Ég held að það hljóti að vera borgararéttindi. Án þeirra er vonlaust að berjast fyrir hinum. Þau eru grundvöllur allrar sanngjarnrar og uppbyggilegrar samfélagsmyndunar.

 

  1.      Uppáhalds tölvuleikurinn?

Nú er ég búin að spila tölvuleiki svo lengi að það er mjög erfitt að velja. En það sem situr í mér sem það sem ég hef spilað mest í gegnum tíðina er Master of Orion 2. En ég þarf líka að nefna UFO (einnig þekktur sem XCom) og Quest for Glory seríuna. Það má eiginlega segja að ég hafi lært ensku á að þykjast hlaupa um eyðimörk að reyna að versla kort og lampa og bjarga borg frá illum galdrakarli. Svo eru nýlegri dæmi eins og Mass Effect, Fallout 2 og Knights of the old republic. Ég get setið hér í allan dag og nefnt tölvuleiki ef ég fæ leyfi til þess.

 

  1.      Hvernig er eðlilegast að fjármagna starfsemi ríkisins?

Með skattlagningu. Því miður. Ríkið er á endanum ekkert annað en félag allra íbúa landsins sem gerir það sem við höfum komið okkur saman um að þurfi að gera. Mér finnst of margir líta á það sem eitthvað utanaðkomandi sem kemur og tekur. Og ríkið getur verið það en við eigum öll hlutdeild í því og eigum öll rétt á að taka þátt í að ákveða hvað það gerir og hvernig það er fjármagnað. Mér þykja ýmsar góðar hugmyndir í deiglunni, t.d. held ég að gistináttagjald sé sniðugt, sérstaklega ef hlutfall af því fer til sveitafélaganna þar sem gist er. Síðan finnst mér sniðugt að nota kolefnisskatt til að láta umhverfiskostnað af notkun óhreinnar orku koma fram fjárhagslega og af-skekkja þannig jöfnuna. En jú, það þarf að leggja skatt á bæði fólk og fyrirtæki, ef á að greiða fyrir það sem okkur finnst flestum sanngjarnt að ríkið geri, og mér finnst ekkert ósanngjarnt eða óeðlilegt að greiða það. Þá er ég ekki að tala um neinar öfgar samt, en ég sé ekki fyrir mér að það sé hægt að reka samfélagið eingöngu á frjálsum framlögum heldur. Oft erum við öll sammála um að einhver hlutur sé mikilvægur, og við viljum hafa hann, en sá sem ætlar að gera það upp á sitt einsdæmi án þess að samfélagið geri það allt, verður undir í samkeppni við þá sem bíða aðeins lengur. Þetta eru mý-mörg dæmi um. T.d. erum við flest sammála um að almenn byssueign sé ekki skynsamleg og geti búið til alls konar hættur, en ef þú býrð þar sem eru miklir glæpir og allir eiga byssur, þá er ekki skynsamlegt fyrir þig að vera sú eina sem er ekki með byssu. Og lög, sett í ferli sem við eigum öll aðkomu að, eru besta leiðin til að samhæfa okkur. Ákveða öll saman að gera eitthvað sem væri erfitt fyrir einhverja eina manneskju að byrja á. Þetta gildir líka um fyrirtæki og markaði.

Ríkið er okkar vettvangur til samhæfingar, um hluti sem við erum sammála um að þurfi að gera, en er erfitt að ákveða í einstöku lagi.

 

  1.      Uppáhalds bókin?

Ok, ég á erfitt með þetta. Ég hef bæði lesið helling og á allt of mikið eftir. Mesta skömmin er að Dune liggur enn ólesin á náttborðinu mínu. Ég hef sennilega lesið Hitch Hiker’s Guide to the Galaxy eftir Douglas Adams oftar en nokkra aðra bók, og ég elska Discworld seríu Terry Pratchett (mæli sérstaklega með Small Gods, Night Watch og The Science of Discworld Vol. II) og ég er mikill aðdáandi Song of Ice and Fire seríunar (einnig þekkt sem Game of Thrones). Ég ætla samt að mæla með Culture bókum Iain M. Banks. Það eru þær sem sitja mest í mér, svona eftirá. Það er vísindaskáldskapur, svolítið í anda Star Trek, en samt allt öðruvísi. Ég myndi mæla með Excession, Player of Games eða Remember Phlebas, og reyndar er Surface Detail nokkuð mögnuð líka.

 

  1.      Hvaða app notar þú mest?

Ég nota mest Facebook (og Messenger) og Myfitnesspal þar sem ég held bókhald yfir máltíðir dagsins.

 

  1.      Mikilvægasta þingmálið?

Önnur erfið spurning. Erum við þá að tala um þingmál í vinnslu núna, eða bara frá upphafi? Eitt sem mér finnst mikilvægt er „Uppsögn samkomulags við þjóðkirkjuna um kirkjujarðir o.fl. frá 1997”, en það samkomulag er sennilega sá ósanngjarnasti og óskiljanlegasti gjörningur sem ég hef nokkurn tíma heyrt af.  En það eru líka nærtækari mál, eins og sú harka sem LÍN hefur farið fram með gagnvart námsmönnum, og sú almenna tilhneiging síðustu og núverandi stjórnar til að draga úr stuðningi við fólk í námi. Ef ég túlka spurninguna vítt eru svo auðvitað mál eins og upptaka nýrrar stjórnarskrár, útdeiling kvótans og einkavæðing bankanna sem standa upp úr svona sögulega. Ég kannski nefni líka endurskoðun lögræðislaga, sem er mjög mikilvægt mál, en lögræðismál eru í töluvert skrítnari og verri mynd á íslandi en margan grunar.

 

  1.  Hvaða sögu segja foreldrar þínir alltaf af þér?

Þær eru nokkrar. Pabbi meðal annars hélt alltaf skjal yfir sögur af mér og bræðrum mínum þegar við vorum börn, miskjánalegar að vísu. Ein er af því þegar við sátum við matarborðið á aðfangadag og borðuðum möndlugraut, og bróðir minn spyr pabba hver sé munurinn á jólaöli og pilsner, en afi drakk pilsner og við fengum stundum með honum. Pabbi segir að fyrst og fremst sé munurinn sá að jólaöl sé dökkt, en pilsner sé ljós. Þá gríp ég fram í og bendi á kertið og segi ‘Nei, þetta er ljós!’ Svo er önnur þegar litli bróðir minn hann Guðjón var rúmlega eins árs og situr og másar ótt og títt, og ég útskýri að sennilega sé hann að flýta sér að bíða. Ég var kannski pínu spaugilegt barn, skrítið svolítið, en svona eftirá þá eru ekki endilega neitt brjálæðislega fyndnar sögur af mér.

Amma segir svolítið söguna af því þegar ég kem í heimsókn til hennar, rétt rúmlega tveggja ára, og held á allt of stórum klossum sem ég hafði fundið. Þegar hún spyr mig af hverju ég sé með þessa klossa, þá útskýri ég fyrir henni að gólfin hennar séu svo óhrein. Sem þau voru ekkert sérstaklega, en ég man að mér fannst óþægilegt að vera berfætt á því

 

11.  Irc nafn?

Ég hef alltaf átt erfitt með að velja mér dulnefni á netinu, en á Ircinu datt ég á tímabili inn í að nota nafnið DrNick, en mér fannst það fyndinn character í Simpsons og fannst líka fyndið að koma inn á síður og segja „Hi everybody!”

 

12. Mikilvægasta réttarbótin í íslensku samfélagi?

Þar er af mörgu að taka, allt frá vökulögunum til hjónabanda samkynhneigðra. Það var líka mjög mikilvægt að taka upp nútímanlegri afstöðu gagnvart kynvitund, meðferð og úrræðum sem fólki með óhefðbundna kynvitund stendur til boða. Ef ég á að nefna atriði sem mér þykja sitja eftir vil ég nefna réttindi trans barna til að skipta um nafn og skráningu, en eins og er sitja þau uppi með fæðingarkyn og nafn þar til þau eru 18 ára, en ég vil líka nefna sjálfræðismál fatlaðra, jöfnun atkvæðavægis á landsvísu og fullt jafnræði trúarskoðanna, þá sérstaklega með aðskilnaði ríkis og kirkju og uppsögn kirkjujarðasamkomulagsins.

 

13.  Sega vs. Nintendo vs. PlayStation?

Klárlega Nintendo. Jújú, það getur verið að Playstation og Xbox og eitthvað séu betri í dag. En þú sigrar ekki Super Mario Bros. og Megaman með einhverjum svoleiðis smáatriðum.

 

14.  Hver er þín helsta fyrirmynd?

Ok, nördasvar dagsins (meira að segja í samhengi við fyrri svör), en það er sennilega Jean-Luc Picard, skipstjóri Enterprise. Það kann að hljóma kjánalega, en þeir þættir leggja mikla áherslu á mannréttindi, húmanisma, yfirvegun og vísindalega afstöðu gagnvart vandamálum og lífinu. Picard er hugsuður, hann er heimspekingur og hann er diplómat. Notar ekki ofbeldi fyrr en í lengstu lög, en er þó tilbúinn til þess til varnar minni máttar eða gegn óvini sem hefur hafnað öllum friðarumleitunum. Þó vissulega búi þau í heimi sem er á köflum ekki bundin sömu vísindalögmálum og raunheimurinn, þá er afstaðan alltaf sú að vandamál megi greina og skilja, að það sem er ókunnugt sé ekki hættulegt eða óvinveitt og að það sé dyggð að þekkja mismunandi menningar. Það er viss þekkingarhyggja og andrúmsloft jákvæðni og bjartsýni sem ég elska við þessa þætti, og ég væri ekki sú manneskja sem ég er í dag án þeirra og Picard.

Að því sögðu, þá verð ég samt að nefna bæði pabba minn og mömmu. Pabbi er heiðarlegasti og greindasti maður sem ég þekki, og mamma er sterkasta og með hvað mesta siðferðisvitund. Ég hefði ekki getað átt betri fjölskyldu, og góð ytri fyrirmynd eins og Picard er ekki mikils virði ef þú hefur ekki góðan grundvöll heiman frá til að byggja á.

 

15. Lífsmottó?

Betur sjá augu en eyru.

Nei, ok. Ég vitna í Benjamin Franklin: „Those who would sacrifice freedom for temporary security deserve neither.”

En ég lifi lífi mínu þannig að allir eigi skilið séns og virðingu. Þeir geti glatað niður þeirri virðingu, og klárað sína sénsa, en allir eiga að byrja á þeim punkti að ég geri ráð fyrir að þau meini vel og séu ágætis fólk.