Stafræn vegferð Reykjavíkurborgar, sem Píratar stýra, fær alþjóðlega viðurkenningu og veglegan fjárhagsstuðning frá Bloomberg Philanthropies.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, Pírati og formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar, segir þetta vera magnaða viðurkenningu á þeirri þróun sem hefur orðið á vettvangi borgarinnar undanfarin ár og sýnir að við erum á hárréttri leið. „Þetta mun hjálpa okkur að hraða ferlinu og eru virkilega frábærar fréttir!“

Reykjavíkurborg er á meðal sex borga í þriggja ára nýsköpunarverkefni sem ber nafnið „Build Back Better“ og mun fá fjárframlag upp á 2,2 milljónir bandaríkjadala til að styðja við og hraða stafrænni umbreytingu á þjónustu borgarinnar. Á gengi dagsins í dag eru það um 273 milljónir króna. Reykjavík var valin úr stórum hópi borga sem sóttu um þátttöku í verkefninu „Build Back Better“ sem ætlað er að hraða stafrænni umbreytingu svo bæta megi líf og lífsgæði jarðarbúa í kjölfar heimsfaraldurs. Auk fjárstuðnings felur þáttakan í sér aðgang að heimsþekktum sérfræðingum á svið stafrænnar þróunar og alþjóðlegt samstarf. Aðrar borgar sem voru valdar til þátttöku í verkefninu eru Amsterdam í Hollandi, San Francisco og Chicago í Bandaríkjunum, Mexikóborg í Mexikó og Bogotá í Kólombíu.
Áralöng vegferð
Reykjavíkurborg hóf stafræna vegferð sína seinni hluta 2015 þegar farið var að kanna stafræna getu borgarinnar með framkvæmd tilraunaverkefna í afmarkaðri einingu á skrifstofu þjónustu- og rekstrar. Með stofnun Þjónustu- og nýsköpunarsviðs um mitt ár 2019 hófst formleg uppbygging stafrænnar færni innan borgarinnar. Stafræn fag- og upplýsingatækniteymi tóku að starfa þvert á starfsemi borgarinnar auk þess sem tilraunaverkefni voru sköluð upp í nothæfar lausnir.
Bloomberg Philanthropies leggur áherslu á að skapa varanlegar breytingar á fimm lykilsviðum: Listir, menntun, umhverfi, nýsköpun stjórnvalda og lýðheilsu en Bloomberg Philanthropies veitti 1,6 milljörðum dala til þessa árið 2020. Styrkirnir í ár eru þeir fyrstu sem einbeita sér eingöngu að stafrænni umbreytingu. Bloomberg Philanthropies hefur fjármagnað svokölluð „i-teymi“ frá árinu 2011 til að aðstoða borgarstjóra við að knýja fram nýjar lausnir til að leysa þéttbýlisáskoranir 21. aldarinnar. Með fjárframlagi upp á tæplega 2,2 milljónir bandaríkjadala til næstu þriggja ára verður „i-teymi“ nú sett á laggirnar hjá Reykjavíkurborg, nýsköpunarteymi sem hjálpa mun borginni að nýta frekar gögn og stafræna tækni til að bæta opinbera þjónustu og finna skapandi leiðir til að skapa verðmæti fyrir samfélagið.