
Hvert eiga 12.000 málefnalegir Píratar að fara?
Á miðnætti í gær var Pírataspjallinu lokað, rúmlega 12.000 manna Facebook grúppu flokksins sem hefur þótt bæði umdeild og öfundsverð, öfundsverð að því leiti að þetta er stærsti umræðuhópur á netinu sem tilheyrir stjórnmálaflokki á Íslandi, umdeild á þann hátt að neikvæðari umræðu er vart hægt að finna utan Pírataspjallsins. Á Pírataspjallið að vera málfrelsi eða málgagn? Er spurning sem hefur þjakað margan umsjónarmanninn (moderator) á spjallinu; að modda Pírataspjallið er ákveðin eldskírn í sjálfboðaliðsstarfi flokksins, moddið er ekki fyrir alla. Að modda Pírataspjallið er fyrir grasrót Pírata það sem Afganistan var fyrir Sovíetríkin, það sem Víetnam var fyrir Bandaríkin, og það sem „Smugan“ er fyrir íslenska og norska sjómenn, semsagt, erfitt helvíti sem tekur engan enda og þú getur alltaf átt von á símtali klukkan þrjú um nótt frá Tuma Troll um kommentið hans sem þú eyddir í fyrradag (ekki það að íslenskir sjómenn fá þannig símtal, hvað þá ameríski herinn). Moddar hafa komið og farið, starfsfólk hefur bugast, framkvæmdaráð og nefndir hafa hrökklast frá, í lokin var Femínistafélag Pírata eina félagið sem þorði að takast á við þetta skrímsli og tók félagið að sér umsjón með spjallinu í lok ársins 2020, fljótlega eftir það var stofnaður vinnuhópur um framtíð spjallsins og framtíð spjallsins er björt. Málefnalegir Píratar þurfa ekki að örvænta því að nú hefur fæðst Pírataspjallið 2.0
Afhverju er Facebook að potast í málfrelsi Pírata?
En þetta hefur ekki allt verið neikvætt, í byrjun ríkti tjáningafrelsi og málfrelsi af bestu sort og minnti helst á spjallhóp Sartre, Leníns og Adam Smiths uppúr aldamótum 20. aldarinnar þegar þeir félagar hittust vikulega á kaffihúsinu Bobs’ Burgers í úthverfi Parísarborgar og rökræddu borgaralaun, fæðingarorlof og fatasmekk Bjarna Ben (nei þetta hefur aldrei gerst). Það sem gerðist var að algoritminn hjá Facebook tók yfir og þrátt fyrir margar tilraunir til þess að nýta spjallið í þágu Pírata að þá ýtti algoritminn neikvæðustu póstunum og kommentum efst, og úr varð eins konar existential kaffihús í úthverfi Malmö þar sem Kafka talar við sjálfan sig um réttindi karlmanna á 21. öldinni. Afhverju er Facebook að potast í málfrelsi Pírata? Er spurning sem engum hefur nokkurntíman dottið í hug að spyrja en ég skal svara henni, þetta er grúppa á Facebook duh! En í dag verður gerð tilraun til endurræsingar…
Endurræsing Pírataspjallsins
Endurræsum Ísland sagði einhver Pírata “PR” gúru einhverntíman, en þó við séum enn að tækla þá endurræsingu þá hefur hafist endurræsing Pírataspjallsins. Hún hefst í dag klukkan 15.00 þegar það verður opnað fyrir póstum frá meðlimum spjallsins, í kjölfarið tekur umsjónarteymi spjallsins þátt í spurt og svarað í beinu streymi á Pírataspjallinu. Síðasti póstur gamla Pírataspjallsins birtist í gær rétt fyrir lokun kl:23.59 og var það Píratinn Albert Svan sem átti síðasta orðið:
Bless gamla Pírataspjall. Vonandi færir Pírataspjallið 2.0 okkur jafn mikla eða meiri hamingju
Albert Svan
Post approvals eru meðal helstu breytinga.
Umsjónarteymi Pírataspjallsins 2.0 hefur verið skipað af framkvæmdaráði Pírata, teymið mynda þau Svafar Helgason, Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir, Þórlaug Ágústsdóttir, Jack Hrafnkell Daníelsson, Stefán Örvar Sigmundsson, Steingrímur Helgason, Ólafur Víðir, Kristbjörn Gunnarsson og Wiktoria Joanna Ginter. Teymið ber ábyrgð á reglum og umsjón spjallsins og hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
Píratar hafa unnið að breytingum á umræðuvettvangnum Pírataspjallið á Facebook. Vilji er fyrir því að efla jákvæða þróun spjallsins og styrkja málefnalegar umræður um mál sem Pírötum þykir mikilvæg.
Stórum hluta Pírata hefur þótt Pírataspjallið hafa verið einkennandi fyrir vonda umræðumenningu á netinu sl. ár og forðast umræður þar. Vinnuhópur var skipaður og er niðurstaðan sú að Pírataspjallið, sem nú telur yfir 12 þúsund meðlimi, verður uppfært í Pírataspjallið 2.0.
Von á stórum breytingum sem hafa það markmið að ná fram vandaðri þjóðfélagsumræðu á hinu alræmda Pírataspjalli. Frá og með föstudeginum 26. mars taka í gildi nýjar reglur og áköf ritstjórn. Öll innlegg munu þurfa samþykki ritstjórnar áður en þeim er hleypt í gegn. Einnig verður svörum við innlegg ritstýrt og er búið að raða upp ritstjórnarteymi með skipulagðar vaktir á spjallinu með nýjar reglur Pírataspjallsins 2.0 að leiðarljósi.
Umsjónarteymi – Pírataspjallið 2.0
Reglur Pírataspjallsins
1. Á spjallinu bera allir ábyrgð á eigin orðum.
Verði meðlimir varir við framkomu, efni eða hegðun sem ekki uppfyllir reglur hópsins er þeim bent á að tilkynna það, (e. report) til umsjónaraðila spjallsins.
2. Sýnum virðingu og verum málefnaleg
Á Pírataspjallinu er hlutverk okkar allra að stuðla að góðu umhverfi til skoðanaskipta og umræðum um stjórnmál og hugmyndafræði Pírata, sjá: https://piratar.is/stefnumal/grunnstefna/ og https://piratar.is/piratakodinn/.
Á Pírataspjallinu sýnum við hvort öðru virðingu óháð afstöðu fólks til umræðuefnisins og hvetjum til málefnalegra og gagnrýnna skoðanaskipta.
3. Hatursorðræða og persónulegar árásir eru óheimilar
Hvers kyns áreiti og/eða persónulegar árásir eru óheimilar. Á Pírataspjallinu er ekki í boði að vera með niðrandi athugasemdir vegna þátta eins og kynþáttar, uppruna, trúarbrögð, menningu, kynhneigð, kynvitund, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leiti.
4. Auglýsingar, áróður og “spam” eru ekki í boði.
Óheimilt er að pósta inn á spjallið auglýsingum (nema til efnislegrar umræðu um þær) og tekið er fyrir ítrekaða pósta um sama málefnið þegar í gangi eru virkar umræður um það. Meðlimum er óheimilt að höggva ítrekað í sama knérunn til að reka á spjallinu áróður eða eigin pólitískar herferðir.
5. Berum virðingu fyrir friðhelgi fólks.
Á spjallinu ræðum við málefni, ekki persónur fólks eða einkalíf þess.
6. Brot á reglum um spjallið
Brjóti meðlimur reglur spjallsins þrisvar eða gerist brotlegur við landslög er umsjónaraðilum heimilt að fjarlægja viðkomandi úr hópnum.
7. Spjall um spjall um spjall.
Pírataspjallið er ekki umræðuvettvangur um störf umsjónarmanna. Hafi fólk athugasemdir við stefnu og störf umsjónaraðila skal senda þær á framkvaemdastjorn@piratar.is
Grunnstefna Pírata:
http://www.piratar.is/stefnumal/grunnstefna/
Spurt og svarað í beinni á Facebook

Umsjónarteymi Pírataspjallsins tekur þátt í Spurt og Svarað í beinu streymi á Pírataspjallinu í dag klukkan 17:00, þar gefst meðlimum spjallsins að ræða breytingarnar. Sérstakur gestur verður Halldóra Mogensen þingmaður Pírata.