Þingflokkur Pírata lýsir fullum vilja til að ljúka vinnu við frumvarp forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskránni fyrir alþingiskosningar. Þingflokkurinn styður jafnframt að Alþingi komi saman í haust til að taka frumvarpið til lokaafgreiðslu. Þingflokkurinn er því tilbúinn að afgreiða málið úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Yfirlýsingar forsætisráðherra um að ekki verði unnt að ljúka vinnslu málsins í nefndinni byggja ekki á andstöðu Pírata.
Þingmenn Pírata hafa lagt til breytingar á frumvarpinu til samræmis við ákvæði frumvarps stjórnlagaráðs, þannig að efni frumvarpsins endurspegli þjóðarviljann. Draga verður til baka órökstudd frávik frá frumvarpi stjórnlagaráðs og tryggja sérstaklega breytingar á náttúruauðlindaákvæðinu sem tryggir þjóðinni sanngjarna auðlindarentu. Það er svo þingmanna í þingsal að samþykkja eða hafna tillögum forsætisráðherra og breytingartillögum í samræmi við þjóðarviljann. Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi telja Píratar rétt að frumvarpið verði svo borið undir þjóðaratkvæði áður en nýtt þing tekur það til afgreiðslu.
Komi frumvarp forsætisráðherra ekki til afgreiðslu er það lágmarkskrafa að afgreitt verði breytingarákvæði á stjórnarskránni sem tryggir möguleikann á breytingum á stjórnarskrá í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
Píratar styðja því og kalla eftir að frumvarp forsætisráðherra verði afgreitt úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Öll frávik þarf að rökstyðja
Öll efnisleg frávik frá frumvarpinu sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 verður að rökstyðja með þeim hætti að þau efli hag eða réttindi borgaranna. Ekki má víkja frá frumvarpi stjórnlagaráðs því það hentar betur þeim pólitísku öflum sem eru við völd hverju sinni, heldur verða hagsmunir þjóðarinnar að ráða för þegar um er að ræða endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Önnur forsenda slíkrar meðferðar er að þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarpið fari fram samhliða Alþingiskosningunum í september. Þannig gefst þjóðinni kostur á að segja álit sitt á breytingunum sem lagðar eru til á stjórnarskrá.
Náist ekki samstaða um málið leggur þingflokkur Pírata áherslu á að Alþingi lögfesti nýtt breytingarákvæði á stjórnarskránni. Slíkt ákvæði tryggir möguleikann á breytingum á stjórnarskrá í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, frekar en með tvöfaldri staðfestingu Alþingis. Forsætisráðherra lýsti sjálf á þingfundi 8. júní áhuga á að gera breytingar á breytingarákvæðinu. Píratar hvetja forsætisráðherra til að fylgja áhuga sínum eftir.