Píratar undrast skoðanakannanir MMR

Í ljósi þeirra kannanna sem birtar hafa verið í fjölmiðlum og framkvæmdar á vegum MMR þá lýsa Píratar yfir undrun sinni að framboðið sé ekki talið upp á þeim spurningalistum sem útbúnir eru fyrir skoðanakannanir. Í nýlegri könnun Þjóðarpúls Gallups sem birt var 3. janúar þá var framboðið mælt með yfir tveggja prósenta fylgi.

“Skoðanakannanir eru verkfæri til að gefa mynd af þjóðarvilja, en til þess að þær séu marktækar þurfa allir valmöguleikar að vera til staðar,” segir Ásta Helgadóttir, talsmaður Pírata. “Fjölmiðlum ber skylda, að mati Pírata, að sinna því hlutverki á gagnrýninn hátt að kynna fyrir kjósendum þá valmöguleika sem eru til staðar. Það ber að gera á óhlutdrægan hátt og á jafnréttisgrundvelli.”

Pírötum finnst vert að taka fram að þeir hyggjast taka þátt í komandi kosningum og bjóða sig fram í öllum kjördæmum. Starf Pírata er í fullum gangi og hægt er að nálgast allar upplýsingar annaðhvort á heimasíðu Pírata, piratar.is eða í gegnum Facebook síðu Pírata.

“Komandi kosningar verða háðar í netheimum,” segir Eva Þuríðardóttir, mannauðsstýra Pírata. “Við erum mjög þakklát fyrir þann stuðning sem við höfum fengið hingað til, bæði á Facebook og annarsstaða. Við hlökkum til að takast á við komandi kosningabaráttu af krafti, enda fyrirtaks fólk innan raða Pírata.”

Þess má til gamans geta að Píratar tóku nýlega fram úr Samfylkingunni á samfélagssíðunni Facebook þegar litið er til þess hversu margir hafa tekið sig til og “líkað” síðuna.