Píratar þjörmuðu að sjávarútvegsráðherra vegna Samherja

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir lét sjávarútvegsráðherra finna til tevatnsins á Alþingi í dag.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, saumaði allhressilega að Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegsráðherra á Alþingi í dag vegna Samherjamálsins. Tilefnið voru nýjustu afhjúpanir Stundarinnar og Kjarnans um framgöngu hinnar svokölluðu „Skæruliðadeildar“ fyrirtækisins, sem herjaði á öll þau sem gagnrýndu Samherja.

Þórhildur Sunna minnti þingheim á hvurslags hegðun skæruliðadeildin hafði gerst sek um, með vitund og vilja æðstu yfirmanna Samherja:

„Nú hafa Stundin og Kjarninn upplýst að starfsmenn Samherja hafi með vitund og vilja framkvæmdastjóra Samherja staðið í njósnum um rithöfunda, stjórnarfólk í samtökum gegn spillingu, plottað um hvernig megi hræða vitni frá því að vitna gegn sér í sakamáli og farið í herferðir gegn fjölmiðlafólki – bæði hér og í Færeyjum.

Þar að auki reyndu skæruliðar Samherja að hafa áhrif á formannskjör í stéttarfélagi blaðamanna og prófkjör Sjálfstæðismanna, þar sem leitað er að arftaka sjávarútvegsráðherra í oddvitasætið,“ sagði Þórhildur Sunna.

Minnti ráðherrann á eigin orð
Þá vísaði hún jafnframt til undarlegs símtals sjávarútvegsráðherra í Þorstein Má Baldvinsson, þáverandi aðaleiganda Samherja, eftir að frægur Kveiksþáttur um framgöngu fyrirtækisins í Namibíu var sýndur. Mörgum þótti símtalið sæta furðu, Þórhildi Sunnu þar á meðal, sem minnti á að sjávarútvegsráðherra hafi í framhaldinu þurft að útskýra hvað vakti fyrir honum þegar hann tók upp tólið.

Það gerði ráðherra í Kastljósi, þar sem hann sagði:

„Ef að sjávarútvegsráðherra hefur ekki áhyggjur af því ef að þetta stóra fyrirtæki er ekki að koma fram með þeim hætti sem að menn telja eðlilegt að þá finnst mér bara sjálfsagður hlutur að ýta á eftir því að það standi við þær skuldbindingar sem það hefur gagnvart samfélaginu.“

Þórhildur Sunna minnti ráðherrann á þessa útskýringu sína og spurði í framhaldinu:

„Hefur hæstvirtur ráðherra áhyggjur af þeirri áróðurs- og rógsherferð sem fyrirtækið hefur rekið að undanförnu gegn fjölmiðlum, félagasamtökum og jafnvel nánum samstarfsmönnum á þingi? Telur ráðherra að Samherji standi við þær skuldbindingar sem fyrirtækið hefur gagnvart samfélaginu eða ætlar hann að ýta á eftir því? Ætlar ráðherra að bregðast við og þá hvernig?“

Fátt um svör
Sjávarútvegsráðherra taldi hegðun Samherja ekki æskilega, ef afhjúpanir síðustu daga væru réttar. Hann hefði áhyggjur „ef það væri lenskan“ að fyrirtæki beittu sér með þessum hætti. Hann þekkti „fullt af starfsfólki“ Samherja og hefði ekkert út á þá að setja.

Þórhildi Sunnu þóttu þessi svör ráðherrans mjög rýr í roðinu og undirstrikaði að fyrrnefnd hegðun skæruliðadeildarinnar væri engin „lenska.“ Hún hafi spurt hann um tilgreind dæmi um óeðlileg afskipti Samherja; af blaðamönnum, stéttarfélögum, prófkjöri og sjálfum samfélagssáttmálanum. Ráðherrann hafði hins vegar enginn efnisleg svör.  Þórhildi Sunnu var því ekki skemmt.

„Hvað eigum við að segja? Hvað eigum við að segja með sjávarútvegsráðherra sem hefur ekkert um þetta risavaxna mál að segja sökum æpandi vanhæfis? Finnst ráðherra virkilega ekkert athugavert við það að hann sitji í þessu embætti á meðan Samherji stundar sínar fordæmalausu árásir á alla sem voga sér að gagnrýna framgöngu fyrirtækisins? Setur það embætti ekki niður að hafa í því mann sem getur ekki beitt sér, getur ekki tjáð sig með neinum markmiðum hætti um framgöngu fyrirtækisins?“

Píratar hafa frá upphafi verið öflugasti flokkurinn við að halda Samherjamálinu á lofti á þingi. Þingmenn Pírata hafa ítrekað spurt ráðherra um hina ýmsu anga málsins ásamt því að hafa leitt sérstaka umræðu um spillingu á Íslandi – einmitt vegna Samherjamálsins. Þar að auki hófu Píratar frumkvæðisathugun á hæfi sjávarútvegsráðherra vegna fyrri starfa hans og tengsla við Samherja, en ríkisstjórnarflokkarnir komu í veg fyrir hana.

Nánari útlistun á því hvað Píratar hafa gert til að bregðast við Samherjamálinu má nálgast hér.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....