Tékkneskir Píratar hafa samþykkt að taka sæti í ríkisstjórn landsins. Píratar munu leiða tvö ráðuneyti í nýrri ríkisstjórn, utanríkisráðuneytið og ráðuneyti byggðamála og stafrænna umskipta, auk þess að stýra laganefnd tékkneska þingsins. Þetta er í fyrsta sinn sem Píratahreyfingin á heimsvísu á aðild að ríkisstjórn en rúmlega 82 prósent Pírata í Tékklandi samþykktu stjórnarmyndunina.
Á vef evrópskra Pírata er haft eftir Marcel Kolaja, þingmanni tékkneskra Pírata og varaforseta Evrópuþingsins, að stafræn umskipti og gagnsæi verði meðal helstu áherslna Pírata í nýrri ríkisstjórn. Þar að auki muni þeir auka vægi vísinda, rannsókna og nýsköpunar hjá hinu opinbera. Mikuláš Peksa, samflokksmaður hans, tekur í sama streng og segir nauðsynlegt að blása lífi í tékkenskan efnahag. Það verði best gert með því að leggja áherslu á grænvæðingu hagkerfisins, sjálfbæra auðlindanýtingu og hringrásarhugsun í efnahagsmálum.
Ríkisstjórn Tékklands er samansett úr tveimur kosningabandalögum sem samanlagt fengu meirihluta í þingkosningunum þar í landi í október. Stjórnarmeirihlutinn er með 108 sæti af 200 í neðri deild tékkneska þingsins og verða ráðherraembættin 18 talsins.
Við óskum tékkneskum Pírötum til hamingju með sæti sitt í nýrri ríkisstjórn Tékklands. Píratar eru alþjóðleg hreyfing sem berst fyrir borgararéttindum og gagnsæi víðar en bara á Íslandi og vonum við að Tékkar geti haft gott af Pírataáherslum í ríkisstjórn. Gratulujeme!