Þingmenn Pírata hafa lagt fram lagafrumvarp sem myndi lögfesta markmið um hraðari samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, úthýsa hagsmunaaðilum úr loftslagsráði og auðvelda eftirlit almennings með loftslagsaðgerðum stjórnvalda. Frumvarpið er í samræmi við kosningastefnu Pírata í loftslagsmálum, sem fékk hæstu einkunn Ungra umhverfissinna í aðdraganda kosninga.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, segir að núverandi kerfi tryggi ekki þann þunga sem einkenna þarf stefnumörkun og aðgerðir stjórnvalda til þess að ná markmiði Parísarsamningsins um að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C.
„Ísland hefur allt til að bera til að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum. Þau markmið sem ráðherrar Íslands halda á lofti eru hins vegar engan veginn nógu metnaðarfull né heldur endurspegla þau það neyðarástand sem ríkir í loftslagsmálum,“ segir Andrés Ingi.
Frumvarp hans bæti þar úr með fjórum meginaðgerðum.
- Að lögfesta markmið um 70% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 og flýta markmiði um kolefnishlutleysi um fimm ár, til ársins 2035.
- Að gera stjórnvöldum skylt að grípa til aðgerða í loftslagsmálum og að þau skuli því ávallt gera grein fyrir því hvort aðgerðir og áætlanir séu í samræmi við loftslagsmarkmið.
- Að breyta skipan og hlutverki loftslagsráðs, svo það sé sjálfstætt til að sinna aðhaldshlutverki gagnvart stjórnvöldum. Hagsmunaaðilum, sem í dag eru meðal fulltrúa í loftslagsráði, verði fundinn staður í nýjum loftslagsvettvangi.
- Að auka gagnsæi, styrkja opinbera umræðu um loftslagsmál og gera almenningi auðveldara að hafa aðhald með stjórnvöldum. Því verður náð fram m.a. með því að ráðherra leggi aðgerðaáætlun ríkisstjórnar í loftslagsmálum fyrir Alþingi til afgreiðslu og með opinberum greiningum loftslagsráðs.
Auk Andrésar eru aðrir flutningsmenn frumvarpsins þau Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Frumvarpið má nálgast hér.