Píratar harma brot á friðhelgi einkalífs sjómanna í Vestmannaeyjum

Ellefu sjómenn í Vestmannaeyjum voru nýlega látnir taka poka sinn og reknir í land eftir að hafa verið skikkaðir í fíkniefnaþvagpróf af vinnuveitanda.

Lyfjaprófin sem sjómennirnir voru settir í sýndu að þeir hefðu líklega neytt kannabisefna einhvern tíma á síðustu sex vikunum fyrir prófið. Skipverjarnir fyrrverandi gætu því allir hafa neytt efnanna í sínu einkalífi eins og einn þeirra sagðist hafa gert í viðtali við DV. Lyfjapróf af þessu tagi eru því til þess fallin að brjóta freklega gegn friðhelgi einkalífs sjómannanna.

Lyfjaprófið var framkvæmt fyrirvaralaust á forsendum ákvæðis í samningi sem starfsmenn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum voru látnir undirrita. Píratar líta svo á að maður geti ekki með samningi afsalað sér grundvallar borgararéttindum á borð við friðhelgi einkalífsins og því hljóti slíkt samningsákvæði að vera ólöglegt.

Píratar benda á að árið 2008 féllu þrír Hæstaréttardómar (549/2008, 564/2008 og 609/2008) þar sem Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að ekki skuli svipta fólk ökuréttindum þótt ummerki um kannabisneyslu finnist í þvagi ökumanns. Í öllum dómunum segir: “efni sem finnst eingöngu í þvagi hefur sannanlega ekki haft áhrif á hæfni til aksturs, langt er síðan fíkniefna var neytt og ekkert var athugavert við akstur ákærða.” Ríkissaksóknari sendi bréf til lögreglu árið 2007 þess efnis að við rannsókn mála sé athugað magn ávana- og fíkniefna í blóði en ekki í þvagi.

Sjómannalög kveða á um að skipstjóri geti vikið skipverja úr skipsrúmi ef skipverjinn er undir áhrifum fíkniefna um borð. Ekki var sannað að sjómennirnir hafi nokkurn tíma verið í vinnunni undir áhrifum. Samt voru þeir reknir úr starfi án uppsagnarfrests og mannorði þeirra spillt án sannanna um brot í starfi. Á vef Samtaka atvinnulífsins segir að ef starfsmaður er: “bendlaður við brot sem ekki verða sönnuð getur það leitt til skaðabótaskyldu atvinnurekanda.”

“Hér brýtur Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum gróflega á friðhelgi einkalífs 11 starfsmanna sinna og starfsréttindum þeirra” segir Jón Þór Ólafsson sem býður sig fram á lista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður. Hann segir ennfremur:  “Með þessari aðför að borgaralegum réttindum sjómannanna hefur Vinnslustöðin í ofanálag spillt mannorði þeirra og að líkindum skaðað atvinnumöguleika þeirra í framtíðinni.”

Píratar kalla eftir því að stjórnvöld verji rétt fólks til friðhelgi einkalífs og að verkalýðsfélögin stígi fram og verndi starfsréttindi umbjóðenda sinna.

Fyrir hönd Pírata,
Stefán Vignir Skarphéðinsson
Framkvæmdaráði (stjórn) Pírata.