Loftslagsmálin eru stærsta úrlausnarefni samtímans. Þetta vita Píratar og þess vegna tökum við loftslagið alltaf með í reikninginn í öllum ákvörðunum, gjörðum og stefnum flokksins.
Það kom því ekki annað til greina en að kolefnisjafna komandi kosningabaráttu Pírata. Framundan er akstur landshorna á milli, grillveislur, prentun og kaup á ýmsum kosningavarningi o.s.frv., sem allt hefur sitt sótspor.
Píratar settust því niður og reiknuðu út væntanlega losun gróðurhúsalofttegunda af akstri og aðfangakaupum í kosningabaráttunni. Í ljósi þess að útreikningarnir byggðu á áætlunum, sem eðli máls samkvæmt eru ekki fullkomlega nákvæmar, tóku Píratar enga áhættu.
Til þess að vera algjörlega örugg um að kosningabarátta Pírata verði að lágmarki kolefnishlutlaus ákvað flokkurinn að kolefnisjafna tvöfalt meiri losun en áætlanir gera ráð fyrir.
Píratar kolefnisjöfnuðu sig með aðstoð Votlendissjóðs og eru þegar búnir að greiða fyrir jöfnunina. Píratar skora á aðra framsýna flokka að gera slíkt hið sama, því flokkum sem hunsa loftslagsmálin er einfaldlega ekki treystandi fyrir framtíðinni.