Píratar fordæma skotárásir sem hafa undanfarið beinst að stjórnmálaflokkum, skrifstofum þeirra og heimilum stjórnmálafólks. Ofbeldi verður ekki liðið. Árásir sem þessar eru ekki aðeins aðför að kjörnum fulltrúum og flokkunum sjálfum, heldur einnig að opnu samfélagi, lýðræðinu og þrótti fólks til að taka þátt í því.
Eitt helsta einkenni íslenskra stjórnmála er hve opin þau hafa verið. Fólk getur átt von á rekast á kjörna fulltrúa og embættismenn á förnum vegi og skipst á skoðunum við þá. Þannig viljum við hafa stjórnmálin. Við viljum að fólk sé óhrætt við að taka þátt í stjórnmálum og vinna að því að bæta samfélag sitt. Það er okkur öllum í hag og grundvöllur lýðræðisins. Við viljum ekki einangruð stjórnmál þar sem fulltrúar og embættismenn þurfa að fela sig á bak við öryggisverði eða skothelt gler og þannig fjarlægjast kjósendur sína.
Svarið við auknu ofbeldi í garð stjórnmálanna verður ekki að loka stjórnmálin af, heldur opna þau upp á gátt. Þegar lýðræðisfyrirkomulaginu er ógnað, svörum við með meira lýðræði. Píratar senda Degi B. Eggertssyni borgarstjóra Reykjavíkur stuðningskveðjur og harma þá aðför sem hann réttilega upplifir að öryggi sínu og fjölskyldu sinnar.