Umhverfisþing Pírata fór fram með pomp og prakt sunnudaginn 13. júní síðastliðinn. Þar hlýddu gestir á áhugaverða fyrirlestra og tóku þátt í pallborðsumræðum með því að senda inn spurningar til framsögufólks.
Píratar vita að loftslagsmálin eru mál málanna. Flokkurinn hefur því einsett sér að vera með bestu stefnuna í þessum málum fyrir kosningarnar í haust. Næsta kjörtímabil á eftir að skipta sköpum fyrir framtíð loftslagsins og því er nauðsynlegt að við stjórnvölinn verði flokkur sem tekur á loftslagsmálum af festu.
Þingið markaði lok fundaraðar Pírata um umhverfis- og loftslagsmál og var liður í því að móta uppfærða umhverfis- og loftslagsstefnu flokksins. Þinginu var skipti í tvo hluta, sá fyrri fjallaði um loftslagsmál og sá síðari hverfðist um náttúruvernd og hringrásarkerfið.
Fjölbreyttir fyrirlestrar
Framsögufólkið var ekki af verri endanum. Stefán Sveinbjörnsson, stofnandi og forstjóri Greenfo, talaði um starfsemi fyrirtækisins en það sérhæfir sig í gerð hugbúnaðar sem auðveldar fyrirtækjum að minnka kolefnisfótspor sitt.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, talaði um loftslagsmál og baráttu íslenskra sérhagsmunaafla gegn kröfum í þeim efnum. Hann hvatti Pírata til áframhaldandi dugnaðar og nefndi sérstaklega baráttu flokksins gegn olíuvinnslu.
Anna Worthington De Matos, stofnandi RVK Tools Library, talaði um hringrásarhagkerfið og starfsemi RVK Tools Library þar sem fólk getur fengið ýmsa hluti að láni í stað þess að eiga þá. Jón Kjartan Ágústsson, skipulagsfræðingur, talaði um hlut skipulagsmála í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og hvernig ríki og borg geta lagt sín lóð á vogarskálarnar.
Fjórir Píratar tóku til máls á þinginu; Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður, Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir nýkjörinn formaður Pírata í Kópavogi, Vala Árnadóttir frambjóðandi í Reykjavík norður og þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson.
Þingið fór fram í Tortuga og var jafnframt sent út í beinu streymi á piratar.tv. Horfa má á útsendinguna í heild sinni í spilaranum hér að neðan.