Home Fréttir Alþingi Píratar börðust fyrir stjórnar­skrár­breytingum á síðasta þing­fundinum

Píratar börðust fyrir stjórnar­skrár­breytingum á síðasta þing­fundinum

0
Píratar börðust fyrir stjórnar­skrár­breytingum á síðasta þing­fundinum
Umrædd breytingartillaga, sem Andrés Ingi Jónsson flutti fyrir hönd þingflokks Pírata.

Þingflokkur Pírata mætti vel undirbúinn á þingfund Alþingis í dag, sem sást bersýnilega á breytingartillögu sem Píratar lögðu fram. Í tillögunni fólst að Alþingi kæmi aftur saman í ágúst til að ræða stjórnarskrármál, nánar tiltekið breytingarákvæði stjórnarskrárinnar, í staðinn fyrir að þingmenn yrðu í sumarfríi alveg fram að kosningum í september.

Tillögur forsætisráðherra til að gera breytingar á stjórnarskránni runnu út í sandinn í vor og öllum orðið ljóst að ríkisstjórnarflokkunum væri fyrirmunað að klára málið. Í stað þess að gefast upp og leyfa þessu kjörtímabili að enda í uppgjöf lögðu Píratar til einfalda tillögu, sem yrði til þess að vald þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa yrði staðfest. Það mætti gera með því að kalla þing saman í ágúst til afgreiða breytingar á hinu svokallaða breytingarákvæði stjórnarskrárinnar.

Hefði það verið samþykkt væru allar breytingar á stjórnarskrá bornar undir þjóðina, í stað þess að það þurfi tvö þing til að samþykkja stjórnarskrárbreytingar. Fyrir vikið þyrfti ekki alltaf að rjúfa þing og kjósa upp á nýtt til að koma breytingum í gegn, auk þess sem þjóðin fengi alltaf að hafa síðasta orðið. Þessi útgáfa breytingarákvæðisins er í samræmi við 113. grein nýju stjórnarskrárinnar:

Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytingar á stjórnarskrá skal það borið undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Ríkisstjórnarflokkarnir og vinir þeirra í Miðflokknum voru þó ekki til í að stytta sumarfríið sitt. Þau höfnuðu tillögu Pírata og þar með síðasta tækifæri Alþingis til að gera breytingar á stjórnarskránni á þessu kjörtímabili. Samfylking og Flokkur Fólksins studdu tillögu Pírata en Viðreisn sat hjá.

Píratar gerðu margar tilraunir til að bjarga stjórnarskrármálinu á síðustu mánuðum, enda hafa Píratar frá upphafi verið helstu stuðningsmenn þess að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 verði virtar. Þannig lýstu Píratar yfir eindregnum stuðningi við að stjórnarskrárfrumvarp forsætisráðherra yrði afgreitt úr nefnd, svo hægt væri að ræða það í þingsal, en án stuðnings. Þá lögðu Píratar fram álit sem færði frumvarp forsætisráðherra aftur til samræmis við frumvarp Stjórnlagaráðs, en aftur án stuðnings. Vilji meirihlutans til að framfylgja þjóðarviljanum sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 var enginn.

Píratar munu því áfram berjast og hlakka til að halda merkjum nýju stjórnarskrárinnar á lofti í aðdraganda kosninganna í haust.

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here