Píratar – Ábyrg kosningaloforð

Hvað stóru, fyrstu skref Pírata kosta og hvernig við ætlum að borga fyrir þau.

Margir flokkar eru ansi duglegir við að koma með kosningaloforð sem þeir vona að sannfæri kjósendur. Að loknum kosningum er síðan oft lítið um efndir því að flokkarnir hugsuðu ekki út í hvernig ætti að fjármagna öll loforðin. Aðrir flokkar passa sig svo á að vera með óljós loforð eins og „lækkun skatta“ sem auðvelt er að segjast hafa uppfyllt, án þess að þau hafi í raun nokkur teljandi áhrif á líf fólks.

Allar stefnur Pírata hvíla á gagnsæi og vel upplýstri ákvörðunartöku sem byggir á gögnum. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að við höfum gróflega metið þau áhrif sem stærstu tillögurnar okkar hafa á tekjur og útgjöld ríkissjóðs. Píratar eru ábyrgur flokkur og erum því ekki að skrifa gúmmítékka fyrir þeim umbótum sem við viljum ráðast í, heldur leggjum einnig fram tillögur um hvernig við viljum bregðast við því tekjutapi eða útgjaldaaukningu sem fylgja umbótum okkar.

Hvað gögnum byggjum við á?

Við byggjum vinnu okkar á Fjármálaáætlun 2022-2026, en hún er það næsta sem hægt er að komast áætlunum um tekjur og útgjöld ríkissjóðs á næstu árum. Það er reyndar vert að hafa í huga að leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna hafa haldið því fram í kappræðum að undanförnu að búast megi við mun betri stöðu ríkissjóðs en þessi áætlun boðar. Samkvæmt þessari fjármálaáætlun er útgjaldaliður hennar samtals 1155 milljarðar (bls. 7) og tekjuhliðin 1277 milljarðar (bls. 4) á næsta ári.

Hvar dragast tekjur ríkisins saman?

Tillögur Pírata sem munu hafa mest áhrif á tekjur ríkissjóðs eru fjórar:

 • Hækkun á persónuafslætti og útborgun ónýtts persónuafsláttar
 • Hækkun frítekjumarks ellilífeyris til að draga úr skerðingum
 • Hækkun frítekjumarks örorkubóta til þess að draga úr skerðingum
 • Flutningur hluta virðisaukaskatts til sveitarfélaga

Ætla má að þessir fjórir liðir muni lækka beinar tekjur ríkissjóðs um 93.4 milljarða króna. Hér fyrir neðan má sjá nánari sundurliðun á þessu.

Hækkun á persónuafslætti
Píratar hafa lagt til að hækka persónuafsláttinn um 20 þúsund krónur á mánuði í fyrsta skrefinu. Auk þess vilja Píratar að persónuafsláttur sem ekki er nýttur verði útgreiðanlegur í framtíðinni. Þetta kemur sér sérstaklega vel fyrir námsmenn og eldra fólk sem ekki er með háar tekjur. Hér má sjá hvaða áhrif þetta hefur á þig.

Til þess að áætla þau áhrif sem þetta hefur á tekjur ríkissjóðs tökum við nýjustu tölur um fjölda fólks 16 ára og eldri (295.298 manns í lok 2020) og margföldum hana með hækkuninni sem er lögð til (20 þúsund krónur á mánuði) og þá fáum við að tekjur tíkissjóðs lækka um sem nemur 70.9 milljörðum.

Hækkun á frítekjumarki eldra fólks
Píratar vilja draga úr skerðingum á ellilífeyri eldra fólks. Í dag er talið að ríkissjóður „spari sér“ um 50 milljarða á hverju ári vegna þessa skerðinga. Við ætlum að hækka frítekjumarkið og „skila til baka“ því sem nemur 20% af þessum sparnaði. Það þýðir að tekjur ríkissjóðs lækka um c.a. 10 milljarða.

Hækkun á frítekjumarki öryrkja
Píratar vilja draga úr skerðingum á öryrkja. Í dag er talið að ríkissjóður „spari sér“ um 21.8 milljarða á hverju ári vegna þessara skerðinga. Við ætlum að hækka frítekjumarkið og „skila til baka“ því sem nemur 20% af þessum sparnaði. Það þýðir að tekjur ríkissjóðs lækka um c.a. 5.2 milljarða.

Færsla hluta virðisaukaskatts til sveitarfélaga
Píratar vilja að sveitarfélög fái hlut af þeim virðisaukaskatti sem verður til í sveitarfélaginu, til þess að geta betur staðið undir þeim verkefnum sem flutt hafa verið til þeirra á undanförnum árum. Hægt er að fara nokkrar leiðir að þessu markmiði, en hér reiknum við með að á næsta ári myndi um 2% af tekjum ríkissjóðs vegna skatta á vörur og þjónustu renna til sveitarfélaganna. Þar sem gert er ráð fyrir að þær tekjur séu um 366.5 milljarðar í heildina þá mun þessi tillaga Pírata þýða að tekjur ríkissjóðs muni lækka um það sem nemur 7.3 milljörðum – en tekjur sveitarfélaga auðvitað aukast á móti.

Hvernig mætum við tekjutapinu?

Við Píratar vitum vel að það þarf að mæta því tekjutapi sem þessar fjórar tillögur hafa á ríkissjóð. Við leggjum til eftirfarandi leiðir til þess að mæta þessu tekjutapi:

 • Við ætlum að hækka mið skattaþrepið úr 37.95% í 39.50%
 • Við ætlum að hækka efsta skattþrepið úr 46.25% í 53.00%
 • Við ætlum að þrepaskipta fjármagnstekjuskatt og hækka fjármagnstekjuskattinnn á ríkasta 10% fjármagnseigenda í 30%
 • Við ætlum að bæta skattaeftirlit og taka á skattsvikum og peningaþvætti
 • Við ætlum að hækka auðlindagjald á stærri útgerðir
 • Við ætlum að innheimta mengungar- og orkunýtingargjöld á mengandi stóriðju
 • Við ætlum að hækka tímabundið arðgreiðslur úr Landsbankanum
 • Við ætlum að nota svigrúm sem þegar er til í fyrirliggjandi fjármálaáætlun

Samtals reiknum við með að þessar aðgerðir muni skila 62.0 milljörðum í auknar tekjur ríkissjóðs. Það svigrúm sem þegar er til staðar í fjármálaáætlun er 25.0 milljarðar. Þá er mikilvægt að hafa í huga lækkun skatta og skerðinga sem Píratar boða hér að ofan mun jafnframt leiða til aukinnar neyslu hjá tekjulægstu hópunum – sem skilar sér að hluta aftur inn í ríkissjóð í formi virðisaukaskatts. Þessi víxlverkun mun varlega áætlað skila inn 9.7 milljörðum aukalega í ríkissjóð. Samtals er um að ræða 96.7 milljarða.

Breytingar á skattaþrepum
Við ætlum að breyta mið- og hæsta skattþrepinu og færa þar með byrðina af þeim lægst launuðu yfir á þá hæst launuðu. Sú útfærsla sem við leggjum til er að hækka miðjuþrepið úr 37.95% í 39.50% og það hæsta úr 46.25% í 53.00%, en að hækka persónuafsláttinn um 20.000 kr. á mánuði. Vegna hækkunar persónuafsláttar samhliða þessum breytingum lækka skattbyrðar á alla einstaklinga sem eru undir 1,225 milljón kr. á mánuði. Aðgerðir Pírata fela þannig í sér lækkun á skattbyrði fyrir rúmlega 90% launafólks, og er lækkunin meiri eftir því sem launin eru lægri. Með þessu færum við skattbyrðina af fólki undir meðaltekjum yfir á þau sem hafa hæstar tekjur.

Þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur
Við Píratar teljum eðlilegt að þau sem eru með allra hæstu fjármagnstekjurnar borgi hærri fjármagnstekjuskatt en nú tíðkast. Samkvæmt nýlegum tölum jukust eignir ríkasta eins prósentsins um það sem samsvarar 37.3 milljörðum á síðasta ári – og eru eignir þeirra þó stórlega vanmetnar.

Við leggjum til að koma á þrepaskiptu fjármagnstekjuskatti, þannig að þau sem eru með hæstu fjármagnstekjurnar greiði hærri fjármagnstekjuskatt. Fyrir þessa útreikninga göngum við út frá því að ef hærra þrep fjármagnstekjuskattsins væri 30% þá myndi það skila um 13.2 milljörðum aukalega í ríkissjóð.

Bætt skattaeftirlit
Fyrir síðustu kosningar kom út svört skýrsla um eignir Íslendinga í aflandsfélögum, skýrsla sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra stakk ofan í skúffu þar til eftir kosningar. Þar kom fram að ríkissjóður yrði af um 4.6 – 15.5 milljörðum króna vegna skattsvika í gegnum aflandsfélög.

Þá hefur núverandi ríkisstjórn grafið undan eftirliti með svartri atvinnustarfsemi, sem er ennþá sorglega algeng á Íslandi. Með því að stórefla rannsóknir og aðgerðir gegn hvers kyns skattsvikum teljum við að hæglega megi auka tekjur ríkissjóðs um því sem nemur 5.0 milljörðum á ári.

Sanngjarnt auðlindagjald á stórar útgerðir
Við Píratar teljum að fiskurinn í sjónum sé sameiginleg auðlind þjóðarinnar. Vegna takmarkaðs aðgengi að þessari auðlind teljum við mikilvægt að stærri útgerðir greiði sanngjarnt auðlindagjald fyrir afnot sín af henni. Í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar hefur þetta gjald lækkað úr um 11.2 milljörðum árið 2017 í 4.7 milljarða árið 2020. Með þeim aðgerðum sem við boðum í sjávarútvegsstefnu okkar telja Píratar raunhæft að tekjur af auðlindagjaldinu, þá sérstaklega með hækkun þess á stærri útgerðir, skili um 9.6 miljarða tekjum aukalega inn í Ríkissjóð.

Orkunýtinga- og mengunargjald
Strax á næsta ári ætlum við að byrja að innheimta orkunýtingagjald af þeirri stóriðju sem mengar mest. Við reiknum með að auka þessa skattlagningu þegar líður á kjörtímabilið og nýta hana sem hvata til þess að fá mengandi iðnað til þess að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Varlega áætlað má innheimta því sem samsvarar 1.0 milljarði á næsta ári inn í ríkissjóð. Því til viðbótar stefnum við á hækkun mengungargjalda á stóriðju um 2.0 milljarða í samræmi við stefnu okkar í umhverfis- og loftslagsmálum.

Arðgreiðslur úr Landsbanka
Rekstur Landsbankans hefur gengið mjög vel á þessu ári. Við teljum því raunhæft að auka arðgreiðslur úr bankanum sem í dag er að fullu í eigu ríkisins. Við höfum áætlað að á næsta ári geti bankinn greitt út eingreiðslu sem muni auka tekjur ríkissjóðs um c.a. 5.0 milljarða króna.

Framsækin og græn
Þegar fólk spyr sig hver sé skattastefna Pírata er gott að muna tvö orð: Framsækin (e. progressive) og græn. Það þýðir að litli maðurinn beri ekki þungar byrðar og að við verðlaunum það sem er umhverfisvænt – sem er skattastefnan okkar í hnotskurn.

Við viljum t.d. lækka skatta á:
Lág laun Örorku- og ellilífeyrisþega
Umhverfisvæna vörur og þjónustu
Græn sprotafyrirtæki
Lítil, loftslagsvæn fyrirtæki

Við viljum hækka skatta á:
Ofur laun
Ofurauð
Arð og fjármagnstekjur
Hagnaðardrifna auðlindanýtingu eins og sjávarútveg og stóriðju
Mengun og óumhverfisvæn fyrirtæki

Þetta verða leiðarljós okkar í öllum atkvæðagreiðslum um skattamál á næsta kjörtímabili. Markmið okkar er að skapa hér velsældarsamfélagi sem hvílir á nýrri stjórnarskrá, hagkerfi framtíðarinnar, sanngjörnum leikreglum og virðingu við náttúru og fólk. Græn og framsækin skattastefna, auk gagnsæisins og gagnanna sem við Píratar byggjum allar okkar ákvarðanir á, eru góð leið að því markmiði.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....