Önnur umræða fjárlaga og áherslur þingflokks Pírata

Fjárlagafrumvarpið sem er til meðferðar þingsins í dag eru það fyrsta í þrjú ár sem rætt er í eðlilegu árferði, þar sem síðustu ríkisstjórnir hafa fallið ein af annarri. Afar mikilvægt er því að vandað sé til verka, en því miður er margt sem bendir til þess að það hafi ekki verið gert.

Ein skýr vísbending um óvönduð vinnubrögð og einn helsti galli þessa fjárlagafrumvarps er að óljóst er hvað býr að baki þeim fjárheimildum sem Alþingi er ætlað að samþykkja. Það er því tillaga þessarar ríkisstjórnar að Alþingi, fjárveitingarvaldið, samþykki þessi fjárlög blindandi. Til þess að bregðast við þessum ágalla kölluðu Píratar eftir viðbótarupplýsingum frá ráðuneytum ríkisstjórnarinnar, en þær skýringar sem bárust voru í flestum tilfellum ófullnægjandi. Krafa þingmanna og þingnefnda um útskýringar á fjárveitingum er eðlileg, réttmæt og lögbundin.Verði ríkisstjórnin ekki við henni vanvirðir hún Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið.

Annað dæmi um ógagnsæi fjárlagafrumvarpsins er að þau gögn sem fjárlaganefnd bárust frá ráðuneytum eru ekki aðgengileg almenningi. Til þess að auka gagnsæi hafa Píratar birt, sem fylgigögn við nefndarálit sitt, allar þær kynningar sem nefndinni bárust frá ráðuneytum ríkisstjórnarinnar, enda er ekki um neins konar trúnaðargögn að ræða og því óskiljanlegt að ráðuneytin birti þær ekki að eigin frumkvæði.

Málsmeðferð fjárlaganna hefur einnig verið ámælisverð. Í umræðu um málið notaði nefndin 54 klukkustundir af fundartíma til að hitta gesti. Enginn tími var notaður til innri greiningarvinnu nefndarinnar. Þó að gestakomur séu mikilvægar þá verður að gagnrýna með hve óskilvirkum hætti nefndin fjallaði um þessi fjárlög, sem voru þó óskýr fyrir.

Í breytingartillögum sínum leggja Píratar til að allar fjárheimildir sem hafa ekki verið rökstuddar, annað hvort i fjárlagafrumvarpinu eða með rökstuðningi frá ráðuneytum ríkisstjórnarinnar, verði felldar niður. Með því myndi Alþingi neita ráðherra um þann óútfyllta tékka sem felst í frumvarpinu en um leið skapast möguleikar til að beina fjármagni í mikilvæg verkefni.

Hvað varðar efnisatriði fjárlaganna leggja Píratar til fjölmargar kostnaðargreindar breytingar. Tillögurnar byggja á tölulegum gögnum og útreikningum þingflokks Pírata. Breytingatillögurnar grundvallast annað hvort á fyrirliggjandi beiðnum frá viðkomandi stofnunum eða upplýsingum um að ákveðnar stofnanir eða tiltekin málefnasvið skorti fjármagn.

Sömuleiðis leggja Píratar áherslu á ýmisleg mikilvæg mál sem ekki var unnt að kostnaðarmeta með nákvæmum hætti. Sem dæmi má nefna húsnæðismál, en ljóst er að bæta þarf enn frekar í uppbyggingu almennra íbúða en fjárlög gera ráð fyrir. Þá þarf að tryggja betur rekstur hjúkrunarheimila, fullfjármögnun samgönguáætlunar og svo mætti lengi telja.

 

Helstu kostnaðargreindu tillögur þingflokksins eru eftirfarandi:

Til tekjuöflunar:

  • Allar óútskýrðar fjárheimildir felldar niður, 8.193 milljónir í aukatekjur
  • Lækkun veðigjalda felld niður, nema gagnvart litlum og meðalstórum útgerðum, 2.000 milljónir í aukatekjur
  • Afgangur ríkissjóðs lækkaður, 15.359 milljónir kr. í aukatekjur

Veiting nýrra fjárheimilda:

  • 7.600 milljónir til að afnema allar krónu á móti krónu skerðingar varanlega frá 1. apríl
  • 10.000 milljónir í hækkun persónuafsláttar
  • 5.130 milljónir í lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði
  • 1.600 milljónir til að fullfjármagna Landspítala
  • 800 milljónir til að bregðast við beiðnum heilbrigðisstofnana í dreifbýli

Nefndarálit þingflokks Pírata ásamt fylgiskjölum er að finna á vef Alþingis.