Mánudaginn 20. mars tók Oktavía Hrund Jónsdóttir sæti á þingi fyrir Smára McCarthy, sem er erlendis vegna nefndarstarfa.
Oktavía ávarpaði Sigríði Andersen, dómsmálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum í tilefni af nýgengnum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu gegn Íslenskum stjórnvöldum og dómi hæstaréttar yfir Steingrími Sævari Ólafssyni blaðamanni fyrir að fréttaskrif, en niðurstaða Mannréttindadómstólsins er að það sé ekki hægt að refsa blaðamönnum fyrir að segja fréttir sem eiga erindi við almenning.
Fáir hlutir bera uppi lýðræði í landinu eins og tjáningarfrelsi. Þetta frelsi er dýrmætt, ekki bara fyrir einstaklinginn, þetta frelsi verndar rétt fjórða valdsins til að draga þingheim til ábyrgðar, það leggur grunn að fjölbreyttari menningu og stuðlar að gagnsæi og réttlæti í samfélaginu.
Fimmti hver landsmaður treystir Alþingi og traust til stjórnsýslunnar er í lágmarki. Þess vegna verður maður agndofa yfir athugasemdum hæstvirts dómsmálaráðherra, Sigríðar Andersen, um fimmta áfellisdóm Mannréttindadómstóls Evrópu yfir dómum Íslenskra dómstóla í tjáningarfrelsismálum.
Aðspurð um hvort þetta sé ekki vandræðalegt, svarar hæstvirtur ráðherra „Nei, nei, ég myndi nú ekki segja það, en þetta er auðvitað vísbending um að það sé eitthvað óljóst í þessum málum sem við þurfum að skýra betur.“
Er hæstvirtum ráðherra alvara með þessum ummælum sínum?
Þessi ummæli ráðherrans eru ekki líkleg til að auka traust á Alþingi. Ráðherra lýsir sig tilbúin til þess að skoða málið – sem hingað til hefur þýtt að gera akkúrat ekki neitt. Nú er búið að dæma Ísland fyrir brot á fjölmiðlafrelsi í fimmta sinn á örfáum árum og á sama tíma bendir formaður dómarafélagsins á að uppfæra þurfi almenn hegningarlög í stað þess að dvelja í fortíðinni og afneita augljósri þróun samfélagsins og lýðræðis á Íslandi.
Við vitum að skerðing á tjáningarfrelsi er eitt helsta vopn þjóðernissinna og fasista. Við eigum að vera með bestu löggjöf í heimi um tjáningarfrelsi og útfærslan verður að vera traustvekjandi og sanngjörn.
Í ljósi áðurnefndra fullyrðinga dómsmálaráðherra er vert að spyrja: hver eru, að hennar mati, eðlileg viðbrögð við þessum úrskurðum mannréttindadómstólsins?
Hefur hæstvirtur ráðherra ekki áhyggjur af því að ítrekuð brot íslenskra dómsstóla gegn tjáningarfrelsi íslenskra blaðamanna, líkt og dómar Mannréttindadómstóls Evrópu eru til vitnis um, ógni lýðræðinu á Íslandi?
Tjáningarfrelsi eflir vald almennings. Ef almenningur upplifir skerðingu á tjáningarfrelsi, þá dregur það úr trúverðugleika og trausti. Skerðing á tjáningarfrelsi hefur löngum verið notað til kúgunar á almenningi og er vopn í höndum þeirra sem vilja berja niður andspyrnu með öllum ráðum.
Hæstvirtur ráðherra segir að 5 dómar séu ákveðin vísbending um að eitthvað sé óljóst. Aðspurð um hvort þetta sé ekki vandræðalegt svarar hæstvirtur ráðherra: „Nei, nei, ég myndi nú ekki segja það, en þetta er auðvitað vísbending um að það sé eitthvað óljóst í þessum málum sem við þurfum að skýra betur.“
Er hæstuvirtum ráðherra alvara með þessum ummælum sínum?Hversu marga dóma þarf frá mannréttindadómstóli Evrópu til þess að dómsmálaráðherra telji úrbóta þörf?