Ófullnægjandi gögn á bak við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Nú hefur fengist staðfesting á því sem Píratar óttuðust allt frá því að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var lögð fram; áætlun ríkisstjórnarinnar er í raun bara ágiskun, fjármunum er skipt niður á málefnasvið ráðuneyta að því er virðist handahófskennt.

Með þessu er verið að biðja Alþingi um að taka ákvörðun án þess að hafa forsendurnar.

Á nýafstöðnum fundi fulltrúa Pírata í fjárlaganefnd með formanni fjárlaganefndar og fulltrúum fjármálaráðuneytisins kom fram að ekki væri hægt að svara upplýsingabeiðni Pírata um tölur og gögn er liggja að baki fjármálaáætluninni.

Ástæðan er einföld: Þessi gögn eru ekki til.

Takmörkuð greining á einstaka útgjaldaliðum eða fjárþörf einstakra stofnana eða verkefna liggur fyrir. Það má því leggja þessi vinnubrögð að jöfnu við að fjármálaráðuneytið hafi dregið skiptingu fjármuna í fjármálaáætlun upp úr hatti. Ekkert tillit hefur verið tekið til raunverulegrar fjárþarfar stofnana við þessa ágiskun, ófullnægjandi gögn liggja fyrir um kostnað einstakra verkefna sem fjármálaáætlun setur á herðar einstakra stofnana og er þeim því haldið í óvissu um hvort fjármunir fáist í þau verkefni sem þeim hefur verið falið.

Lög um opinber fjármál gera ráð fyrir faglegri úttekt sem undirstöðu fjármálaáætlunar á meðan stjórnarskráin felur löggjafanum fjárveitingarvaldið. Fjármálaáætlun skilur Alþingi eftir í fullkominni óvissu um hvernig framkvæmdarvaldið hyggst ráðstafa fjármunum almennings. Því má leiða líkur að því að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar standist hvorki lög um opinber fjármál né stjórnarskrá.