Nýtt trúnaðarráð tekið til starfa

Nýtt trúnaðarráð Pírata var kosið á dögunum og tók til starfa í síðustu viku.
Ráðið skipa Lilja Sif Þorsteinsdóttir, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir og
Kristján Gísli Stefánsson.

Sigurbjörg er fædd og uppalin í Neskaupstað en bý nú í Kópavogi ásamt manni
og þremur börnum. Hún útskrifaðist sem sálfræðingur frá Háskóla Íslands
vorið 2015 og hóf í framhaldi af því doktorsnám í stjórnmálasálfræði við
sama skóla. Sigurbjörg gekk til liðs við Pírata í ársbyrjun 2013 og gegndi
varaþingmennsku fyrir Ástu Helgadóttur. Hún tók einu sinni sæti á Alþingi
fyrir hana þar sem hún hélt meðal annars jómfrúarræðu sína um aðgengi að
sálfræðiþjónustu óháð efnahag.

Lilja Sif Þorsteinsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík, útskrifaðist sem
sálfræðingur frá Háskóla Íslands vorið 2011 og starfar sem sálfræðingur hjá
Sálfræðingunum Lynghálsi. Hún gekk til liðs við Pírata árið 2014 og gegndi
varaþingmennsku fyrir Pírata frá 2016-2017.

Kristján Gísli Stefánsson er fæddur og uppalinn í Rangárþingi eystra en býr
nú í Grafarvogi ásamt eiginkonu. Hann hefur stundað ýmsa vinnu í gegnum
tíðina ásamt trúnaðarstörfum hjá stéttafélögum og er núna sölumaður hjá
Olíuverzlun Íslands. Hann gekk til liðs við Pírata árið 2017.