Nýsköpunarstefna Pírata

Tuttugu aðgerðir fyrir framtíðina

Píratar vilja sjálfbært samfélag sem getur tekist á við sjálfvirknivæðingu og fjórðu iðnbyltinguna. Þess vegna leggjum við höfuðáherslu á nýsköpunarlandið Ísland þar sem tækifærin er að finna hjá fólki út um allt land. Við viljum ná markmiðum um fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins með nýsköpun í opinberri starfsemi, með samstarfi við atvinnulífið og með því að gera Ísland að þekkingarmiðstöð fyrir framtíðarsamfélagið.

Nýsköpunarstefna Pírata er í tuttugu liðum, sem eru svohljóðandi:

 1. Stórauka stuðning við uppbyggingu og rekstur þróunarsetra, sem tryggja vinnuaðstöðu og miðlun þekkingar fyrir nýsköpun á landsbyggðinni, í náinni samvinnu við sveitarfélög. Tryggja þarf nána samvinnu milli þróunarsetra og tengsl þeirra inn í vistkerfi nýsköpunar.
 2. Einfalda stofnun, skattaumhverfi og rekstur nýsköpunarfyrirtækja, t.d. með því að skilgreina nýtt fyrirtækjaform, frumkvöðlafélög, sem er skilvirkara og hagkvæmara að stofna og reka en einkahlutafélög. Þörf yrði þá á að hafa skýra leið til þess að umbreyta frumkvöðlafélögum í hlutafélög þegar þau vaxa.
 3. Einfalda fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja með auknum efnahagslegum hvötum og tilslökunum til fjárfesta og með því að byggja upp regluverk í kringum hópfjárfestingar.
 4. Leggja áherslu á nýsköpun á breiðari grunni og tryggja þar með fjölbreytta nýsköpun og samfélagsnýsköpun innan m.a. landbúnaðar, sjávarútvegs, ferðamennsku, velferðar, menntunar, heilbrigðis, umhverfis og græns iðnaðar, auk allra sviða skapandi greina og við uppbyggingu framtíðarinnviða. Sérstök áhersla verði lögð á að styrkja sjálfbærni og samfélagslegar lausnir.
 5. Gera styrkjaumhverfið á Íslandi heildrænna, aðgengilegra, sveigjanlegra og kvikara. Samþætta á milli hinna ýmsu styrktarsjóða sem í dag koma að nýsköpun, t.d. með því að samhæfa umsóknarferli og utanumhald, og skilgreina skýrar leiðir fyrir nýsköpunarfyrirtæki og samfélagsleg verkefni til þess að sækja styrki, stuðning og aukið fjármagn eftir því sem að þau vaxa.
 6. Stórauka fjármagn til hinna ýmsu styrktar- og nýsköpunarsjóða og byggja upp hvetjandi leiðir til þess að auka fjárfestingar fagfjárfesta í nýsköpun.
 7. Tryggja stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og samfélagsleg verkefni á öllum stigum vaxtar með því að styðja við rekstur m.a. nýsköpunarhraðla og lausnamóta á sem flestum sviðum, ásamt stuðningi við ráðstefnur og viðburði innan nýsköpunarvistkerfisins. Hugað verði sérstaklega að fjármögnun fjölbreyttra verkefna á vaxtarstigi og uppbyggingu alþjóðlegra tenginga.
 8. Gera vistkerfi nýsköpunar á Íslandi aðlaðandi fyrir alþjóðlega frumkvöðla til að stofna nýsköpunarfyrirtæki og þróa sínar vörur/þjónustu hér á landi.
 9. Aukinn stuðningur við alþjóðlega sókn íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á erlenda markaði, t.d. með uppbyggingu vaxtarsprotaklasa sem býr m.a. yfir alþjóðlegu tengslaneti, markaðsþekkingu og dreifileiðum, í gegnum aukið norrænt og evrópskt nýsköpunarsamstarf og með skipun sérstaks “nýsköpunar-sendiherra” sem aðstoði íslenska frumkvöðla við að tengjast tæknigeiranum og sækja alþjóðlega styrki og fjármagn.
 10. Gera atvinnustarfsemi á Íslandi aðlaðandi fyrir framsækin alþjóðleg fyrirtæki, m.a. með því að einfalda útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa fyrir erlenda sérfræðinga og maka þeirra, ásamt því að tryggja fjölskyldum þeirra aðgengi að allri helstu grundvallarþjónustu, t.d. öflugt alþjóðlegt nám á öllum skólastigum sem uppfyllir alþjóðastaðla.
 11. Setja á fót á Íslandi alþjóðlega miðstöð þekkingar, rannsókna, kennslu og nýsköpunar á sviði umhverfis- og loftslagsmála í samvinnu við alþjóðlegar stofnanir og fyrirtæki. Í tengslum við þessa miðstöð verði settur á fót alþjóðlegur fjárfestingasjóður á sviði nýsköpunar í loftslags- og umhverfismálum. Setja upp skattalegt umhverfi sem hvetur erlenda aðila til þess að setja upp græna fjárfestingar- og nýsköpunarsjóði á Íslandi.
 12. Stofna Nýsköpunarráð sem leiðir stefnumótandi vinnu í tengslum við eflingu vistkerfis nýsköpunar á Íslandi með þátttöku helstu hagsmunaaðila; svo sem ríki, sveitarfélaga, fjárfesta, menntakerfisins, verkalýðsfélöga, atvinnulífs og frumkvöðla.
 13. Tryggja samfellda fræðslu um og þátttöku í nýsköpun á öllum stigum menntakerfisins. Aukin áhersla á hagnýtingu grunnrannsókna með stuðningi við verkmenntalínur í menntakerfinu og virkri samvinnu milli opinberra stofnanna, atvinnulífs, háskóla-, frumkvöðla- og alþjóðasamfélagsins. Hugað verði að aukinni lýðræðis- og jafnréttisfræðslu og kennslu í gagnrýninni og skapandi hugsun. Hlúð verði að samfélags- og hugvísindagreinum og skapandi greinum og vægi þeirrar menntunar fyrir fjórðu iðnbyltinguna.
 14. Unnið að því að gera innviði Vísindagarða og nánasta umhverfi framsýnt og aðgengilegt fyrir tilraunir nemenda, rannsakenda, frumkvöðla, opinberra stofnana og atvinnulífs. Jafnframt verði unnið að aukinni tengingu hins opinbera við háskóla- og nýsköpunarsamfélög og samvinnu um úrlausn áskorana. Þá verði skoðað að Listaháskóli Íslands verði hluti af Vísindagörðum til þess að stuðla að aukinni þekkingaryfirfærslu hönnunarhugsunar á milli greina og efla það mikilvæga hugvit enn frekar til fjölbreyttrar verðmætasköpunar.
 15. Hvatning til atvinnulausra einstaklinga til að taka þátt í nýsköpun, með fríum námskeiðum í frumkvöðlamálum, tryggða grunnframfærslu fyrir atvinnulausa sem stofna nýsköpunarfyrirtæki og möguleika fyrir nýsköpunarfyrirtæki til að ráða fólk beint af atvinnuleysisskrá.
 16. Nýsköpun, nútímavæðing þjónustu og stafræn umbylting verði sett á oddinn innan opinbera geirans, með áherslu á aðgengi og notendur. Verja þarf auknu fjármagni í samsköpun og fræðslu, auk þess að leggja áherslu á skapandi vinnurými, notendaprófanir, rýningu á ferlum og að prófa sig áfram til að afla gagna til betri ákvörðunartöku. Forgangsröðun fjármagns verði á forsendum notenda, loftslagsins, jafnréttis og virðisauka.
 17. Hvetja til símenntunar í takt við tækni- og samfélagsbreytingar, m.a. áhersla á það að opinberir starfsmenn geti tímabundið unnið fjarvinnu erlendis hjá sambærilegum framsýnum stofnunum til þess að afla nýrrar þekkingar fyrir heimamarkað.
 18. Í opinberum innkaupum verði lögð áhersla á útboð áskorana í stað fyrirfram skilgreindra lausna. Auka þarf samvinnu milli opinberra aðila við sameiginleg innkaup, valforsendur skulu byggjast á sjálfbærni (vistferilskostnaði), nýsköpun og gæðum, og hvatt er til prófana á mismunandi lausnum með sem hagkvæmustum hætti til þess að gera samanburð og safna gögnum fyrir upplýstari ákvörðunartöku áður en farið er í stærri innkaup. Unnið verði að því að tryggja að opinber innkaup verði á færi sprotafyrirtækja og nýsköpunaraðila með endurskoðun og útvíkkun reglna og verkferla þar sem ekki verði gerðar óþarflega íþyngjandi kröfur um m.a. sterka fjárhagslega stöðu og reynslu.
 19. Leggja sérstaka áherslu á aukið gagnsæi, opin gögn og frjálsan hugbúnað í opinberri stjórnsýslu. Uppfæra gögnin reglulega, gera þau skiljanleg og aðgengileg á formi sem henta m.a. frumkvöðlum, nemendum og rannsakendum til þess að vinna með þau og móta nýjar lausnir með sem skilvirkustum hætti.
 20. Hlúð verði að aðlaðandi, samkeppnishæfum og nútímalegum samfélagsinnviðum; eins og grænum samgöngum og lifandi byggð, jafnrétti, virku lýðræði og gagnrýninni hugsun, fordómaleysi, umburðarlyndi, frjálslyndi og nútímalegri þjónustu með viðurkenningu á mikilvægi samfélagsgerðarinnar fyrir frjóan jarðveg skapandi hugsunar og nýsköpunar.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....