(frá vinstri) Hrafndís Bára Einarsdóttir, Einar Tryggvason, Hreiðar Eiríksson, Einar Árni Friðgeirsson og Einar Brynjólfsson
Ný stjórn Pírata á Norðausturlandi var kjörin á aðalfundi 9. September síðastliðinn.
Stöðu formanns gegnir Einar Árni Friðgeirsson, fertugur starfsmaður Akureyrarbæjar á umönnunarsviði. Einar útskrifaðist árið 2010 frá félagsvísindadeild Háskólans Bifröst með BA gráðu í HHS (heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði) og hefur hann verið búsettur á Akureyri síðan. Einar hefur tekið virkan þátt í starfi Pírata undanfarin ár og skipað sæti neðarlega á listum bæði í Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum undanfarin ár.
Hreiðar Eiríksson er 55 ára gamall lögfræðingur og fyrrum rannsóknarlögreglumaður sem einnig hefur á ferilskrá sinni sem slíkur verkefni erlendis fyrir friðargæslu Sameinuðu Þjóðanna í tengslum m.a við átak gegn mansali og kynslífsþrælkun í Bosníu og Hersegóvínu. Í dag starfar Hreiðar hjá Fiskistofu á Akureyri en hefur einnig unnið sem lögfræðingur hjá Útlendingastofnun og Seðlabanka Íslands. Hreiðar er gjaldkeri Pírata á Norðausturlandi.
Einar Brynjólfsson er vel þekktur Pírötum á landsvísu enda var hann þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi 2016-17. Einar útskrifaðist með M.A gráðu í sögu og þýskum/norrænum fræðum frá háskólunum í Trier og Göttingen 1997. Í dag er Einar sem stendur á fimmtugu, jöfnum höndum meistari og lærisveinn, þar sem hann kennir sögu við Menntaskólann á Akureyri en stundar einnig nám í lögfræði við Háskólann á Akureyri. Einar er ritari félagsins.
Hrafndís Bára Einarsdóttir er 34 ára menntaður leikari og viðburðarstjóri sem sinnt hefur ýmsum verkefnum í lausamennsku undanfarin ár. Hrafndís er búsett í Svalbarðsstrandarhreppi í nágrenni Akureyrar og hefur verið mjög virk í stafi Pírata, síðast sem kosningastjóri flokksins á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum 2018.
Einar Tryggvason er 21 árs gamall starfsmaður Slippsins á Akureyri. Hann kemur inn í stjórn með sitt helsta markmið að efla þáttöku yngri kynslóðanna í starfi Pírata á svæðinu.
Stjórnarliðar þakka félagsmönnum kærlega traustið sem þeim hefur verið sýnt og vonast til að geta eflt starfsemi flokksins á svæðinu til muna á næstu misserum.