Tillaga Ungra Pírata og Ungra Jafnaðarmanna (UJ) um að Norðurlöndin verði eitt markaðssvæði með margmiðlunar– og menningarefni var samþykkt samhljóða á þingi Norðurlandaráðs ungmenna (UNR) sem lauk í gær, sunnudag.
„Við í Ungum Pírötum verðum með fulltrúa á Norðurlandaráðsþinginu sjálfu nú í vikunni. Við fengum gríðarlegan stuðning í þessu máli og við höfum fulla trú á því að þessi ályktun fái jákvæða meðferð hjá Norðurlandaráði.“ segir Elísabet Guðrúnar– og Jónsdóttir, starfandi formaður Ungra Pírata.
Í ályktuninni er farið fram á að Norðurlandaráð skuli beita sér fyrir því að komið sé upp samningi um að Norðurlöndin öll verði eitt markaðssvæði með allt margmiðlunar– og menningarefni á borð við kvikmyndir, bækur, sjónvarpsefni, hugbúnað og tölvuleiki; hvort sem því er dreift efnislega eða óefnislega. — Sé fyrrgreindu efni dreift í einu Norðurlandanna ætti sama efni að vera í boði innan þeirra allra undir sömu skilyrðum, nema sérstakar tæknilegar ástæður liggi þar að baki, og enn fremur að efni sem selt er og dreift í gegn um Internetið geti hæglega ferðast milli landa án tæknilegra vandræða.
Netflix og aðrar efnisveitur hafa einmitt farið hátt í umræðunni undanfarna daga, þar sem fjölmargir Íslendingar hafa fjölmennt í viðskipti þó strangt til tekið sé lokað á Ísland vegna réttindamála. Megintilgangur ályktunarinnar var sá að gera réttindamálin einfaldari og koma í veg fyrir það að Norðurlöndunum sé skipt niður í minni einingar þegar kemur að sölu og dreifingu á hugverkum.
Einnig lögðu Ungir Píratar og UJ til ályktanir um upplýsingaöryggi og mál Edward Snowden, sem voru einnig samþykktar. „Þetta heppnaðist allt saman afar vel“ segir Stefán Rafn Sigurbjörnsson, formaður UJ. „Oft er það þannig að flokkarnir á UNR skiptast alveg í vinstri og hægri þegar kemur að ályktanavinnunni, en þessi mál fengu brautargengi þvert á flokka og það var mjög gaman að sjá það gerast“.
Hægt er að hafa samband við eftirarandi vegna þessarar fréttatilkynningar:
Elísabet Guðrúnar– og Jónsdóttir, starfandi formaður Ungra Pírata, elisabet@piratar.is, 868-9131
Stefán Rafn Sigurbjörnsson, formaður UJ, formadur@uj.is, 848–2450
Stefán Vignir Skarphéðinsson, fulltrúi Ungra Pírata á Norðurlandaráðsþingi, stefan@piratar.is 849–6891