Loftslagsstefna Pírata

Píratar voru með bestu loftslagsstefnu 2017. Hún hefur verið bætt til muna.

Píratar samþykktu gríðarlega metnaðarfulla loftslagsstefnu í vor, sem allar aðrar kosningastefnur flokksins hvíla á. Nýsköpun, samgöngur, byggða- eða efnahagsmál, alls staðar eru grænar aðgerðir í fyrirrúmi. Tækifærin í loftslagsvænum lausnum eru óteljandi og munu varða leiðina í atvinnu- og verðmætasköpun næstu áratugina – Píratar vilja grípa þessi tækifæri.

Loftslagsstefnan er alls í átta köflum og má lesa hana í heild hér að neðan. Rétt er að taka fram að þetta er ekki tæmandi upptalning á öllum grænum áherslum Pírata, því þær eru jafnframt fléttaðar inn aðrar stefnur flokksins sem fyrr segir.

1. Skýr stefna í átt að kolefnishlutleysi

Loftslagsváin er án efa ein stærsta áskorun mannkyns og kallar á miklar kerfisbreytingar. Ísland hefur alla burði til þess að vera í forystusveit ríkja sem berjast af alvöru gegn þessum breytingum með réttlátum og framsæknum aðgerðum. Lausnin er sjálfbært samfélag. Áskorunin framundan er tækifæri til að gera betur, bæði í stjórnmálum nútímans og fyrir komandi kynslóðir. Bregðumst við yfirstandandi neyðarástandi í loftslagsmálum með róttækum aðgerðum.

Mikilvægt er að stjórnvöld setji sér metnaðarfull markmið til að halda hlýnun loftslags innan 1,5°C. Þau markmið þurfa að vera sanngjörn og endurspegla stöðu Íslands sem ríks lands þar sem losun er mikil miðað við höfðatölu. Markmið um árangur þarf að uppfæra reglulega á grundvelli nýjustu upplýsinga og tækniframfara.

Aukinn metnaður gagnvart loftslagssamningnum

1.1. Ísland færi sig í forystusveit á næsta fundi aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og setji sér markmið um 70% samdrátt í losun árið 2030 miðað við losun árið 2005. Til að ná því markmiði verði áfram unnið með Evrópusambandinu og Noregi, en gengið lengra en samstarfið kallar eftir ef þar eru gerðar minni kröfur til Íslands.

Drögum úr heildarlosun á öllum sviðum

1.2. Setjum markmið um 55% samdrátt í heildarlosun fyrir árið 2030 miðað við 2020. Gerum þann árangur upp á hverju ári, þannig að hægt sé að standa við þann 7,6% árlega samdrátt í losun sem nauðsynlegur er.
1.3. Náum samdrætti í losun jafnt á öllum sviðum samfélagsins, þar á meðal með sjálfstæðum markmiðum í helstu geirum, t.d. vegna losunar vegna landnotkunar, landbúnaðar og í byggingariðnaði.
1.4. Ísland beiti sér fyrir því að metnaður sé aukinn í ETS-viðskiptakerfinu á Evrópuvísu en setji sér jafnframt sjálfstæð markmið um aukinn samdrátt í losun frá stóriðju og flugi sem náð verði fram með sérstöku mengunargjaldi.
1.5. Kolefnishlutleysi skal náð ekki síðar en árið 2035.
1.6. Teljum losun frá landnotkun með í markmiði um kolefnishlutleysi og gætum þess að losun vegna landnotkunar lækki með hverju ári.
1.7. Gerum skýra áætlun um það hvernig Ísland verður jarðefnaeldsneytislaust fyrir árið 2035.
1.8. Bönnum olíuleit og vinnslu olíu í íslenskri lögsögu.

Endurmetum stöðuna í sífellu

1.9. Markmið Íslands í loftslagsmálum þarf að endurmeta reglulega og auka metnað strax og færi gefst til.
1.10. Umhverfisráðherra flytur Alþingi reglulega skýrslu um stöðuna í loftslagsmálum til þess að þingheimur allur taki þátt í umræðunni um loftslagsmál og almenningur geti látið sig umræðuna varða.
1.11. Reiknum út hvað er sanngjörn hlutdeild Íslands í samdrætti heimsins og öxlum ábyrgð sem auðugt ríki.
1.12. Setjum markmið um kolefnisneikvætt Ísland þegar kolefnishlutleysi verður náð.
1.13. Reiknum út hvernig neysludrifið kolefnisspor Íslendinga dreifist um heimsbyggðina og setjum markmið um að draga úr því.
1.14. Stefnum að því að 4% af landsframleiðslu fari í að berjast gegn loftslagsbreytingum og búa til sjálfbært samfélag.

2. Valdeflum almenning

Stjórnvöld verða að axla þá ábyrgð sem fylgir valdasetu á tímum loftslagsbreytinga. Almenningur á að hafa skýra möguleika til að hafa aðhald og eftirlit með stjórnvöldum. Tryggjum aukið samráð við almenning á öllum stigum stefnumótunar. Verndum hagsmuni komandi kynslóða með því að meta allar aðgerðir og útgjöld ríkisins út frá velsældarmælikvörðum og áhrifum þeirra á umhverfi og loftslag. Vinnum saman og finnum lausnirnar sameiginlega á þjóðfundi um sjálfbærni og loftslagsmál sem haldinn verði í upphafi hvers kjörtímabils.

Aukum gagnsæi

2.1. Stóreflum mælingar á mengun og losun gróðurhúsalofttegunda í samfélaginu, svo hægt sé að byggja aðgerðir á stöðu í rauntíma en ekki gömlum tölum.
2.2. Færum eftirlit með umhverfisáhrifum mengandi stóriðju til opinberra aðila, frekar en að treysta alfarið á að mengandi iðnaður hafi eftirlit með sjálfum sér.

Gefum almenningi kost á aðhaldi með stjórnvöldum

2.3. Til að aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum beri árangur verður að tryggja samráð og þátttöku almennings á öllum stigum stefnumótunar.
2.4. Öllum aðgerðum stjórnvalda fylgi mat á umhverfis- og loftslagsáhrifum til að auka gagnsæi og til að auðvelda almenningi að meta hvað virkar best til að styðja við markmið í umhverfis- og loftslagsmálum.
2.5. Leggjum mat á loftslagsáhrif allra útgjalda ríkisins í fjárlögum til að tryggja að stjórnvöld stefni í rétta átt varðandi samdrátt í losun og að markmiðum um kolefnishlutleysi verði náð.
2.6. Styrkjum stöðu Árósasamningsins þannig að umhverfisverndarsamtök geti sýnt stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald í þágu almennings.

Öll saman að einu marki

2.7. Stóreflum fræðslu og opinbera umræðu um sjálfbærni og loftslagsmál.
2.8. Allur almenningur, óháð búsetu, aldri eða efnahag, hefur hagsmuni af því að skapa sjálfbært samfélag og að vel takist til í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Vinnum saman að réttlátum umskiptum og finnum lausnirnar sameiginlega á þjóðfundi um sjálfbærni og loftslagsmál sem verði haldinn í upphafi hvers kjörtímabils.

3. Græn umbreyting í allra hag

Græn umbreyting samfélagsins er almenningi til góðs og mikilvægt hagsmunamál komandi kynslóða. Meginábyrgð þess að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda liggur hjá stjórnvöldum og fyrirtækjum en einstaklingar eiga að búa við aukið valfrelsi og fá skýrari og betri upplýsingar sem auðvelda þeim að velja umhverfisvæna kosti. Umhverfisvæni valkosturinn á að vera aðgengilegur öllum óháð efnahag. Við þurfum í sameiningu að búa okkur undir þær áskoranir sem fylgja loftslagsbreytingum, auka tækifæri með menntun og þjálfun starfsfólks í nýjum greinum og tryggja réttlát umskipti fyrir öll.

Látum einstaklinga ekki axla ábyrgð fyrirtækjanna

3.1. Meginábyrgð þess að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda liggur hjá fyrirtækjunum sem losa þær og stjórnvöldum sem setja reglurnar. Veltum ekki ábyrgðinni á einstaklinga heldur látum þá sem losa mengandi efni í umhverfið greiða fyrir slíkt í samræmi við mengunarbótareglu.

Almenningi boðið að taka þátt í grænu umskiptunum

3.2. Við þurfum að endurskoða allar fyrirliggjandi aðgerðaráætlanir og langtímastefnumótun með réttlát umskipti að leiðarljósi, þannig að umbreytingin verði ekki fyrst og fremst á færi þeirra efnameiri. Setjum sérstaka stefnu um réttlát umskipti sem tryggir að öll geti tekið þátt í grænu umskiptunum.
3.3. Menntakerfið leikur lykilhlutverk í viðmiðaskiptunum sem samfélagið er að ganga í gegnum. Það er mikilvægt að styðja þær kynslóðir sem eru að mennta sig í dag þannig að þær séu með nauðsynleg verkfæri til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Þá þarf að stórefla menntun til sjálfbærni og lýðræðisfræðslu í gegnum allt skólakerfið.
3.4. Höfum frumkvæði að menntun, starfsþjálfun og símenntun fólks innan og utan vinnumarkaðar til að umskiptin verði árangursrík.

Auðveldum fólki umhverfisvænt val

3.5. Auðveldum fólki að vera umhverfisvænir neytendur með auknu gagnsæi og upplýsingagjöf um vöru og þjónustu, t.d. með samræmdri merkingu kolefnisspors á umbúðir matvæla og annarrar söluvöru og við þjónustu- og farmiðakaup. Tryggjum einnig að upplýsingar um efnanotkun og aðra mengun af völdum framleiðslu séu aðgengilegar við kaup.
3.6. Gerum vistvæna ferðamáta raunhæfan valkost um allt land. Styðjum við virka og græna ferðamáta um land allt með kröfugri uppbyggingu innviða og þjónustu í þeirra þágu og aukum þannig hlutdeild gangandi og hjólandi umferðar auk notkun almenningssamgangna.
3.7. Kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti fari stighækkandi og endurspegli raunverulegan kostnað samfélagsins og umhverfisins af mengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Gjaldinu verði varið í þágu almennings, t.d. til verkefna sem auðvelda orkuskipti í samgöngum og styðja við uppbyggingu innviða fyrir ferðamáta sem ekki eru háðir jarðefnaeldsneyti.
3.8. Flýtum sölubanni á nýjum farartækjum sem nota jarðefnaeldsneyti til 2025.
3.9. Eflum innviði fyrir orkuskipti í samgöngum, rafknúin og vistvænni farartæki af fjölbreyttu tagi og sköpum hvata til að auðvelda fólki að nýta sér þau.

Samstarf við vinnumarkaðinn og þátttaka allra geira atvinnulífsins

3.10. Bjóðum aðilum vinnumarkaðarins að borðinu til að tryggja hlutdeild allra í verkefninu um græna umbreytingu samfélagsins. Tryggjum að fulltrúar vinnandi fólks og atvinnurekenda fái aðkomu að ákvörðunum sem þau varða til að tryggja réttlát umskipti og að aðgerðir séu árangursríkar.

4. Stjórnsýsla og stjórnvöld

Vangeta valdhafa til að bregðast með fullnægjandi hætti við loftslagsvánni einkennist nú árið 2021 af vanmáttugri stjórnsýslu þar sem veigamiklar ákvarðanir um baráttuna gegn loftslagsbreytingum eru teknar af öðrum en þeim sem bera ábyrgð á henni. Endurskipuleggjum alla stjórnsýsluna og hefjum samstarf við aðila vinnumarkaðarins um réttlátar og áhrifaríkar aðgerðir. Setjum metnaðarfulla, tímasetta og fullfjármagnaða aðgerðaráætlun sem verður endurskoðuð reglulega og setjum velsældarmælikvarða í forgrunn við áætlanagerð.

Styrkjum stjórnsýslu loftslagsmála

4.1. Mikilvægt er að stórefla stjórnsýslu loftslagsmála, svo aðgerðir verði miklu markvissari og öflugri en hingað til. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið þarf að fá sterkari stöðu innan stjórnarráðsins, svo umhverfisráðherra næstu ríkisstjórnar geti brugðist við loftslagsvánni með afgerandi hætti.
4.2. Stofnum miðlæga skrifstofu fyrir loftslagsmál, sem hefur skýrt umboð til að samhæfa áætlanir allra ráðuneyta þannig að þær séu í samræmi við loftslagsmarkmið.
4.3. Styrkjum hlutverk Veðurstofunnar sem öfluga stjórnsýslueiningu í samræmingu á rannsóknum ólíkra stofnana og viðbrögðum við loftslagsvánni og aðgerðum hér á landi.
4.4. Gerum loftslagsráð að aðhaldsverkfæri skipuðu sérfræðingum sem getur gefið hlutlaust mat á aðgerðum og árangri í loftslagsmálum og sett kúrsinn fyrir öll stjórnvöld að fylgja.
4.5. Setjum á laggirnar breiðan samráðsvettvang loftslagsmála þar sem ólíkir hagsmunaaðilar geta unnið saman að markmiðum loftslagsáætlunar.

Setjum skýra stefnu

4.6. Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum verði lifandi skjal sem þarfnist uppfærslu með tilliti til framfara á sviði vísinda og nýrrar þekkingar ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti, a.m.k. næstu 10 árin. Þar skuli leitast við að setja metnaðarfyllri markmið í hverri nýrri áætlun.
4.7. Velsældarmælikvarðar og mat á umhverfis- og loftslagsáhrifum verði með því fyrsta sem stjórnvöld skoði þegar þau byrja að móta nýja stefnu, aðgerðir, áætlanir eða frumvörp. Niðurstöður úr slíku mati hafi áhrif á það hvaða leið stjórnvöld velja að fara, frekar en að vera eitthvað sem er skoðað eftir á.
4.8. Setjum sjálfbæra iðnaðarstefnu sem styrkir undirstöður íslensks iðnaðar, eykur fjölbreytni og styður við sjálfbæran íslenskan iðnað.
4.9. Tryggjum að stefnumótun vegna loftslagsbreytinga taki mið af réttlátum umskiptum.

5. Græn umbreyting atvinnulífsins

Á næstu árum verður að eiga sér stað bylting í grænni nýsköpun og framþróun. Með því að styrkja græna sprota og veita fjármunum til rannsókna í umhverfismálum tryggjum við ekki bara lífvænlega jörð fyrir komandi kynslóðir heldur er það skynsamlegasta fjárfestingin á komandi áratugum. Við þurfum að beita öflugum mótvægisaðgerðum sem ná til allra geira atvinnulífsins, búa til efnahagslega hvata fyrir grænvæðingu atvinnulífsins, skapa hvata fyrir val á vörum sem menga minna og setja fjármálakerfinu nýjar leikreglur sem koma í veg fyrir stuðning við mengandi fyrirtæki og stóriðju. Mótum nýja langtímastefnu fyrir vistvæna og kolefnishlutlausa matvælaframleiðslu.

Sjálfbær og græn nýsköpun sem býr til tækifæri.

5.1. Notum aukna gjaldtöku á mengandi aðila til þess að greiða götu grænna sprotafyrirtækja og frumkvöðla.
5.2. Veitum öfluga nýsköpunarstyrki til nýsköpunar til að byggja upp grænan og sjálfbæran iðnað á jafnræðisgrundvelli til framtíðar.
5.3. Styrkjum rannsóknir í þróun tæknilausna sem mæta loftslagsvandanum og geta stuðlað að auknum samdrætti í losun og aukinni kolefnisbindingu.
5.4. Eflum loftslagssjóð og aðra samkeppnissjóði, með sérstaka áherslu á styrki til framkvæmdaverkefna sem stuðla að samdrætti í losun.

Beitum hvötum í þágu grænna umskipta

5.5. Aukum hvata fyrir einstaklinga og smáfyrirtæki til framleiðslu á endurnýjanlengri og vistvænni orku til eigin nota án þess að ganga á náttúruna.
5.6. Samhliða því að koma í veg fyrir meiri losun gróðurhúsalofttegunda vegna breyttar landnotkunar er mikilvægt að snúa þeirri þróun við. Aukum bindingu kolefnis með því að endurheimta lykilvistkerfi á borð við votlendi, græða upp land, rækta skóg og styðja við þróun tæknilausna til föngunar og niðurdælingar á koltvísýring.
5.7. Miðum gjaldtöku og tolla á öllum vörum við kolefnisfótspor og mengun við framleiðslu, í samræmi við mengunarbótaregluna, þannig að umhverfisvænni vörur séu ekki dýrari en þær sem menga.
5.8. Styðjum við orkuskipti í höfnum og skipum. Ný skip sem bætast við flotann verða að ganga fyrir öðru en jarðefnaeldsneyti.

Fjármálakerfið

5.9. Vinnum að því að íslenskt fjármálakerfi verði í fararbroddi í grænni fjárfestingu með því að hafa frumkvæði að endurskoðun fjárfestingarstefnu hins opinbera, banka og lífeyrissjóða þannig að stuðlað verði í auknum mæli að fjárfestingum í grænum verkefnum. Bönnum fjárfestingu í vinnslu jarðefnaeldsneytis. Setjum einnig tímasetta áætlun um að losa um beint og óbeint eignarhald þeirra í slíkum fyrirtækjum.
5.10. Skyldum lífeyrissjóði til að veita upplýsingar um kolefnisspor fjárfestinga þeirra.

Vistvæn matvælaframleiðsla

5.11. Tryggjum gagnsæi í kringum losun gróðurhúsalofttegunda og önnur umhverfisáhrif í landbúnaði, sjávarútvegi og við matvælaframleiðslu, bæði innfluttra og innlendra afurða. Hvetjum til góðrar nýtingar hráefnis og umskipta yfir í umhverfisvænar aðferðir.
5.12. Græn umskipti í matvælaframleiðslu kalla á breyttar neysluvenjur. Setjum sérstök markmið um að draga úr neyslu á dýraafurðum, sem eru þau matvæli sem hafa stærsta vistsporið. Styðjum þau markmið með afgerandi grænum skrefum í öllum opinberum mötuneytum.
5.13. Löggjafarvaldið skal móta heildræna langtímasýn um grænan landbúnað og matvælaframleiðslu, ásamt flutningi og vinnslu hráefna og matvæla fyrir neytendamarkað. Sérfræðingar á sviði umhverfis- og loftslagsmála, landbúnaðarmála og matvælaþróunar skulu vera leiðandi í stefnumótunarferlinu.
5.14. Styðjum við nýsköpun, rannsóknir og þróun í vistvænum landbúnaði, frumframleiðslu matvæla og annarri matvælavinnslu á Íslandi, þannig að allir einstaklingar og fyrirtæki geti sótt hvatastyrki til að ná árangri í að skapa blómlegan landbúnað og öflugan matvælamarkað fyrir neytendur á Íslandi.
5.15. Tryggjum fjölbreytt fæðuframboð á sanngjörnu verði fyrir neytendur og gerum neytendum kleift að kaupa heilnæmar landbúnaðarafurðir milliliðalaust frá framleiðanda.
5.16. Gerum áætlun um innleiðingu nýrrar tækni á borð við kjötrækt og lóðrétta ræktun, svo hún verði samkeppnishæf við önnur framleidd matvæli.
5.17. Endurskoðum landbúnaðarstefnu með markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda að teknu tilliti til losunar frá dýrahaldi, jarðrækt, innflutningi hráefnis og tækja og samanburði við innflutta erlenda framleiðslu. Leggjum af niðurgreiðslur til innlendrar matvælaframleiðslu með hátt kolefnisspor.
5.18. Stóraukum ylrækt og jarðrækt á plöntufæði – grænmeti, korni og baunum – með hvatastyrkjum, lægra raforkuverði til grænnar framleiðslu og innleiðingu þriggja fasa raforku um allt land.

6. Náttúruvernd

Óspillt náttúra þarf sterkan málsvara við stjórnvölinn. Við viljum vernd miðhálendisins í lýðræðislegt ferli svo hægt sé að tryggja vernd hálendisins í þágu komandi kynslóða. Stöndum vörð um almannaréttinn og frjálsa för fólks, svo lengi sem viðkvæm vistkerfi eru varin. Rammaáætlun verður áfram matstæki fyrir heildarhagsmuni við raforkuframleiðslu en verður að þróast í samræmi við aukna áherslu á náttúruvernd. Notum orkuna í auknum mæli í græna nýsköpun og leggjum af mengandi stóriðju í skrefum. Setjum náttúruvernd undir landsskipulag og verndum náttúruna á vinsælum áfangastöðum fyrir átroðningi. Verndum og endurheimtum landvistkerfi, eflum skógrækt og landgræðslu á landbúnaðarlandi og á örfoka landi og endurskoðum lög um villt dýr til að tryggja vernd þeirra, þ.m.t. sjávarspendýr.

6.1. Stöndum vörð um almannaréttinn og tryggjum frjálsa för fólks, svo lengi sem viðkvæm vistkerfi verða ekki fyrir röskun.
6.2. Sameina skal reglur um stjórn þjóðgarða og landvörslu á náttúruverndarsvæðum undir ein lög og eina stofnun.
6.3. Tryggjum vernd náttúru hálendisins í þágu komandi kynslóða. Setjum vinnu við stofnun þjóðgarðs í lýðræðislegt ferli, enda er það sameiginlegt verkefni samfélagsins þar sem mikilvægt er að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem standa með náttúruvernd. Tryggjum fjármagn til að standa að uppbyggingu þjóðgarðsins og halda þar uppi öflugri landvörslu.
6.4. Náttúruvernd skal falla undir skipulag, þannig að allar náttúruminjar, náttúruverndarsvæði og þjóðgarðar verði hluti af aðalskipulagi og landsskipulagi og komi fram á skipulagsuppdráttum.
6.5. Veita skal árlegu hæfilegu fjármagni til verndar, uppbyggingar og úrbóta á vinsælum áfangastöðum og ferðamannastöðum í náttúrunni.
6.6. Efla skal skógrækt og landgræðslu á landbúnaðarlandi og á örfoka landi, en þó í samræmi við skipulagsáætlanir, varúðarregluna og aðrar reglur þar um.
6.7. Vernda skal, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu landvistkerfa, sjálfbærri stjórnun skóga, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva og snúa við jarðvegseyðingu og sporna við hnignun líffræðilegs fjölbreytileika. Nauðsynlegt er að sporna við lausagöngu búfjár, þá sérstaklega sauðfjár, í markvissum skrefum.
6.8. Endurskoða skal lög um villt dýr og fugla á Íslandi til að tryggja vernd þeirra. Spendýr í sjó njóti sömu verndar og spendýr á landi, þ.m.t. selir og hvalir. Banna skal veiði á villtum dýrum sem eru á válista, þ.m.t. veiði á heimskautaref, lunda, sel og hval, í samræmi við varúðarregluna.
6.9. Styrkjum rammaáætlun sem stjórntæki til að meta heildarhagsmuni við raforkuframleiðslu. Þróum aðferðafræði hennar áfram í samræmi við tækniþróun og aukna áherslu á náttúruvernd.
6.10. Gerum raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar og hverfum frá ósjálfbærri stóriðjustefnu. Búið er að virkja nóg í þágu mengandi stóriðju á Íslandi. Forgangsröðum smærri notendum og nýtum orkuna til uppbyggingar grænnar nýsköpunar.

7. Hringrásarsamfélag

Að byggja upp hringrásarsamfélag er leiðin til að snúa frá ósjálfbæru hagkerfi sem er grundvallað á óendanlegum vexti. Við viljum setja skýra stefnu um hringrásarhagkerfi til að draga úr vistspori og sporna gegn ofneyslu og sóun. Látum mengandi starfsemi greiða sérstök gjöld og axla ábyrgð á myndun úrgangs. Innleiðum réttinn til viðgerða og stuðlum að vistvænu deilihagkerfi. Hefjum átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og endurhugsum hið brotakennda kerfi úrgangsmála. Byggjum upp græna innviði um land allt fyrir vistvæna fararmáta og hefjum tilraunir með samgöngur framtíðarinnar.

Skýr vegvísir um hringrásarhagkerfi

7.1. Setjum Íslandi skýra stefnu um hringrásarhagkerfi til að draga úr vistspori samfélagsins, með hvötum sem sporna gegn ofneyslu fólks, sívaxandi innflutningi og efnissóun fyrirtækja og opinberra aðila.
7.2. Mengunarbótareglan er grundvallaratriði í hringrásarhagkerfinu. Öll starfsemi sem losar mengandi efni út í umhverfið skal greiða gjald fyrir það umfram hefðbundna skatta. Komum á heildstæðu og stighækkandi gjaldi á alla losun gróðurhúsalofttegunda. Nýtum skattkerfið í hvívetna til að hvetja til athafna sem hafa litla eða enga losun mengunarefna.
7.3. Aukum ábyrgð framleiðenda á því að draga úr myndun úrgangs, m.a. með því að innleiða rétt til viðgerða. Fellum niður skatt af viðgerðaþjónustu og varahlutum til að lengja líftíma tækja og hluta.
7.4. Eflum deilihagkerfi þar sem margir samnýta hluti eða vinnu á vistvænan máta.

Ríki og sveitarfélög samhent í umhverfis- og loftslagsmálum

7.5. Skipuleggjum og fjármögnum átak ríkis og sveitarfélaga í fráveitumálum um allt land.
7.6. Endurhugsum allt kerfi úrgangsmála, sem í dag er allt of brotakennt. Tryggjum aðkomu almennings og umhverfisverndarsamtaka að þeirri vinnu og sjáum til þess að flokkun sé samræmd um allt land.
7.7. Aukum umhverfislæsi með fræðslu um hvernig mögulegt er að hafa jákvæð áhrif á vistvæna hegðun fyrirtækja og opinberra aðila.
7.8. Náum kolefnishlutleysi í almenningssamgöngum fyrir 2030.

Byggjum upp græna innviði um land allt

7.9. Stóreflum uppbyggingu innviða fyrir rafknúin og visthæf ökutæki og skip um allt land þannig að rafknúnir ferðamátar verði ákjósanlegri en þeir sem nota jarðefnaeldsneyti.
7.10. Sjáum til þess að samgönguinnviðir og skipulag þéttbýlis geri fólki auðvelt að lifa bíllausum lífsstíl. Öll opinber þjónusta verði í auðveldu göngufæri eða vel staðsett út frá almenningssamgöngum.
7.11. Gerum vistvæna ferðamáta raunhæfan valkost um allt landi. Styðjum við virka og græna ferðamáta um allt land með kröfugri innviðauppbyggingu og þjónustu í þeirra þágu og aukum þannig hlutdeild gangandi og hjólandi umferðar auk notkun almenningssamgangna.
7.12. Tengjum saman landshluta með hjólaleiðum og skipuleggjum net hjólaleiða fyrir ferðamenn og íbúa í öllum landshlutum.

8. Aðgerðir á alþjóðasviðinu

Víðtæk alþjóðleg samvinna er nauðsynleg ef að nást á að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5° C marka Parísarsamningsins. Margt bendir til þess að mörg þeirra ríkja sem eiga aðild að Parísarsamningnum muni ekki geta staðist við skuldbindingar sínar án þess að stórauka aðgerðir. Ísland á að nota rödd sína á alþjóðavettvangi til að beita sér í þágu umhverfis- og loftslagsmála til að sporna gegn óafturkræfum skaða á vistkerfum heimsins. Stuðlum að auknu alþjóðlegu samstarfi til að ná kolefnishlutleysi og leggjum áherslu á ákvæði um loftslagsmál í öllum milliríkjasamningum Íslands. Höfum framgöngu um gerð nýrra alþjóðlegra árangursmælikvarða sem ráðast að rótum frekar en einkennum loftslagsvandans. Styðjum þróunarríki í aðgerðum sínum og öxlum þá ábyrgð sem fylgir stöðu okkar sem einu af auðugari ríkjum heims.

8.1. Ísland á að vera hávær rödd í þágu náttúruverndar og loftslagsmála á alþjóðavísu. Besta leiðin til að vera trúverðug í slíkum utanríkispólitískum aktívisma er að hafa náð raunverulegum árangri heima fyrir.
8.2. Ísland bjóðist til að hýsa fund aðildarríkja loftslagssamningsins þegar 10 ár verða liðin frá undirritun Parísarsáttmálans, þar sem við leiðum opið samtal um það hvernig hægt sé að takast af alvöru á við loftslagsvandann.
8.3. Stuðlum að auknu alþjóðlegu samstarfi og samtali um tæknileg málefni, sérfræðiaðstoð, vörur, þjónustu og fjármagn sem gæti nýst öðrum þjóðum við kolefnisbindingu og að ná kolefnishlutleysi.
8.4. Leggjum áherslu á ákvæði um loftslagsmál í öllum milliríkjasamningum sem Ísland á aðild að.
8.5. Höfum framgöngu um gerð nýrra alþjóðlegra árangursmælikvarða sem ráðast að rótum frekar en einkennum loftslagsvandans. Þar á meðal verði viðmið um að ná að nýju og viðhalda því stigi koltvísýrings í andrúmsloftinu sem þörf er á til að afstýra hamfarahlýnun.
8.6. Styðjum við loftslagsvæn þróunarverkefni í ríkjum sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.
8.7. Aukum framlög til aðgerða gegn loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra í þróunarríkjunum, m.a. í gegnum Græna loftslagssjóðinn (Green Climate Fund) og aðlögunarsjóð á vegum loftlagssamnings S.þ. (Adaption Fund).
8.8. Öxlum ábyrgð sem eitt af auðugari ríkjum heims, styðjum við fólk á flótta og tökum á móti meiri fjölda loftslagsflóttafólks.
8.9. Tölum fyrir alþjóðlegu samstarfi um náttúruvernd, sér í lagi á norðurslóðum. Göngum fram með góðu fordæmi, með því að banna olíuleit og beita okkur í framhaldinu fyrir alþjóðlegu banni gegn olíuleit og nýrri olíuvinnslu.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....