Lagabreytingartillögur 2015

Eftirfarandi lagabreytingartillögur verða lagðar fyrir á aðalfundi Pírata 2015.

Núgildandi lög Pírata má finna hér: https://x.piratar.is/polity/1/document/1/

Breytingar á 1. gr.

Á eftir 1.2. komi ný málsgrein, 1.3. svohljóðandi:
„Skammstöfun félagsins er PP-IS.“

Breytingar á 2. gr.

Grein 2.2. orðist svo: „Félagið mótar sér stefnu með opnu ferli og vinnur að framgöngu hennar með þeim aðferðum sem því standa til boða.“

Grein 2.3. skal falla brott.

Breytingar á 3. gr.

Grein 3.8. skal falla brott. Uppfæra númer næstu greina til samræmis.

Greinargerð: Einu lögin sem notast við skilgreininguna á “virkum meðlimi” er grein 6.8. sem segir til um lágmarks þátttöku í rafrænni kosningu. Þetta eru óþarfa skorður á lýðræðislegu ferli og ætti að finna aðrar lausnir á því vandamáli sem þessi grein á að leysa. Allar kosningar ættu að vera vel kynntar fyrir félagsmönnum til að hvetja til þátttöku og ef stefna er samþykkt sem gengur gegn vilja félagsmanna má alltaf endurskoða hana í nýrri kosningu, án þröskuldar. Höfundur: Birgir Steinarsson.

Breytingar á 4. gr.

4.1. orðist svo: „Aðalfund skal halda á hverju hausti, fyrir lok septembermánaðar.“

4.4. orðist svo: „Framkvæmdaráð hefur heimild til að fresta aðalfundi eða auka-aðalfundi um viku frá auglýstri dagsetningu, en aðeins í eitt skipti.“

Greinargerð: Samræming orðalags. Skipta út “landsfundur” fyrir “aðalfundur”. Höfundur: Birgir Steinarsson.

4.9. orðist svo: „Allir félagsmenn skulu hafa möguleika á aðgangi að streymi af fundinum og/eða upptöku af honum. Mættum félagsmönnum skal gert ljóst að upptökur af fundinum verða gerðar opinberar um ókominn tíma.“

Greinargerð: Setning tekin út: „Allir félagsmenn sem skráðir eru 30 dögum fyrir aðalfund hafa aðgang að honum.“ Að kanna hvort fundargestir séu skráðir meðlimir Pírata, við mætingu á aðalfund, er í ósamræmi við lög félagsins (gr. 3.2.) um að félagatal skuli teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga. Píratar hafa ekki tekið upp nein félagsskírteini og því illframfylgjanlegt að takmarka aðgengi að aðalfundi við skráningu í félagið. Höfundur: Birgir Steinarsson.

4.12. orðist svo:  „Kjörstjórn tekur við framboðum í öll embætti, og tryggir að allir frambjóðendur fái sanngjarna kynningu.“

4.18. orðist svo: „Annað hvert ár skal á aðalfundi kjósa þriggja manna kjörstjórn er tekur til starfa að loknum aðalfundi og þar til næsta kjörstjórn tekur við. Fulltrúinn sem  hlýtur besta kosningu skal vera formaður nema kjörstjórn ákveði annað. Aðilar í kjörstjórn skulu ekki gegna öðrum trúnaðarstöðum á vegum félagsins eða aðildarfélaga á meðan setu þeirra stendur. Kjörstjórn ber ábyrgð á framkvæmd kosningar í framkvæmdaráð ásamt öðrum hlutverkum sem henni er falið með lögum. Ákvarðanir hennar skulu teknar með óháðum og óhlutdrægum hætti.“

Breytingar á 5. gr.

5.3. orðist svo: „Fundarmenn geta lagt fram tillögur á fundum.“

Greinargerð: „Meðlimir“ breytt í „fundarmenn“. Að kanna hvort fundargestir séu skráðir meðlimir Pírata, við mætingu á félagsfundi, er í ósamræmi við lög félagsins (gr. 3.2.) um að félagatal skuli teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga. Píratar hafa ekki tekið upp nein félagsskírteini og því illframfylgjanlegt að takmarka rétt til að leggja fram tillögur við skráningu í félagið. Höfundur: Birgir Steinarsson.

Grein 5.4. skal falla brott. Uppfæra númer næstu greina til samræmis.

Greinargerð: Sama og 5.3. Höfundur: Birgir Steinarsson.

5.9. orðist svo: „Fundarsköp allra reglulegra ráða og nefnda á vegum Pírata skulu skilgreind og aðgengileg félagsmönnum. Liggi ekki fyrir skilgreind fundarsköp á fundi Pírata skal stuðst við Robert’s Rules of Order.“

Breytingar á 6. gr.

Grein 6.8. skal falla brott. Uppfæra númer næstu greina til samræmis.

Greinargerð: Fylgir breytingum á grein 3.8. Höfundur: Birgir Steinarsson.

Grein 6.8.1. skal falla brott.

Greinargerð: Fylgir breytingum á grein 3.8. Höfundur: Birgir Steinarsson.

Breytingar á 7. gr.

7.2. orðist svo: „Í framkvæmdaráði sitja sjö manns. Framkvæmdaráð skiptir með sér hlutverkum. Þó skal Condorcet-sigurvegari kosninga til framkvæmdaráðs, sé slíkur til, verða formaður ráðsins nema hann beiðist undan. Auk formanns skulu skipaðir gjaldkeri, ritari og alþjóðafulltrúi.“

Eyða grein 7.5. Uppfæra næstu greinar til samræmis.

Breytingar á 8. gr. um úrskurðarnefnd

8.1. til og með 8.3 orðist svo:
8.1. Ágreining um framkvæmd, túlkun og brot á lögum þessum skal vísa til úrskurðarnefndar sem úrskurðar í málinu.
8.2 Úrskurðarnefnd er skipuð þremur félagsmönnum og skulu þeir kosnir á aðalfundi ár hvert auk tveggja varamanna. Fulltrúar í úrskurðarnefnd skulu ekki gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn á meðan þeir sitja í úrskurðarnefnd.
8.3. Úrskurðarnefnd úrskurðar sjálf um hæfi sitt og einstakra nefndarmanna í hverju máli fyrir sig. Varamaður tekur sæti í nefndinni þegar um vanhæfi aðalmanns í tilteknu máli er að ræða.”

8.4. til og með 8.7 verði óbreytt.

Í lögin komi nýtt ákvæði 8.a. um TRÚNAÐARRÁÐ
8.a.1. Á aðalfundi skal kjósa þrjá menn í trúnaðarráð
EÐA
8.a.1 Framkvæmdaráð velur þrjá menn í trúnaðarráð
8.a.2. Trúnaðarráð hefur með höndum sáttamiðlun og aðstoð þegar upp kemur ágreiningur eða annar vandi í samskiptum og starfi félagsmanna.
8.a.3. Trúnaðarráð  er óháð í störfum sínum.
8.a.4. Aðildarfélög Pírata, framkvæmdaráð og einstaka félagsmenn geta vísað málum til trúnaðarráðsins en það getur einnig látið til sín taka að eigin frumkvæði.
8.a.5. Trúnaðarráð tekur engar bindandi ákvarðanir en getur vísað málum til úrskurðarnefndar eða eftir atvikum til lýðræðislegrar afgreiðslu á viðeigandi vettvangi félagsins.
Ef framkvæmdaráð á að velja í ráðið bætast tillögur 8.a.6 og 8.a.7 við:
8.a.6. Við val á fulltrúum í trúnaðarráð skal meta sérstaklega hæfni í mannlegum samskiptum, sjálfstæðum vinnubrögðum og almennt traust meðal flokksmanna. Æskilegt er að þeir hafi áður gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Fulltrúar í trúnaðarráði skulu ekki gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn á meðan þeir sitja í trúnaðarráði.
8.a.7. Skipunartími fulltrúa í trúnaðarráð helst í hendur við skipunartíma framkvæmdaráðs.

Breytingar á 12. gr.

Við gr. 12.1 bætist svohljóðandi efnisgrein:
„Starfi engin aðildarfélög innan kjördæmis til Alþingiskosninga er framkvæmdaráði heimilt að standa fyrir kjöri á lista fyrir það kjördæmi. Skulu allir félagsmenn Pírata hafa kosningarétt í slíku kjöri. Þeir sem raðast í fimm efstu sæti listans bera ábyrgð á þátttöku hans í kosningum.“

Við gr. 12.4 bætist svohljóðandi:
„Þó skal heimilt við kosningar til Alþingis að binda kjörgengi við að frambjóðandi eigi lögheimili innan kjördæmis.“

Á eftir 12.5. komi ný málsgrein, 12.6. svohljóðandi:
Framkvæmdaráð skal sjá til þess að kynningarferli á þeim sem gefa kost á sér á framboðslista endurspegli sem best 1.1. gr. í grunnstefnu Pírata um upplýstar ákvarðanir.

Breytingar á 15. gr.

15.2. orðist svo:
15.2. Við félagsslit skal ráðstafa eða skipta eignum félagsins í samræmi við tilgang þess og grunnstefnu.
EÐA
15.2. Við félagsslit skulu eignir félagsins renna til alþjóðasamtaka sem Píratar eiga aðild að.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....