Kópavogsbær hafnar nú öllum nýjum umsóknum um NPA samninga, sem og viðbótum við fyrirliggjandi samninga, á grundvelli þess að fjármagn það sem var áætlað í fjárhagsáætlun ársins 2020 sé uppurið.
Á fundi velferðarráðs í gær voru teknar fyrir tvær áfrýjanir frá NPA notendum sem höfðu fengið synjun á umsóknum sínum um aukið framlag vegna aðstoðarverkstjórnar, sem þau eiga rétt á lögum samkvæmt.
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata, gagnrýndi verklagið og lagði fram bókun við afgreiðsluna þar sem hún segir rangt að setja kvóta á mannréttindi Kópavogsbúa með langvarandi stuðningsþarfir. Þá vísaði hún jafnframt í lög og reglugerðir þar sem kveðið er á um þennan rétt:
“Með lögfestingu á NPA er skýrt kveðið á um að fyrir þá einstaklinga sem ekki geta sinnt verkstjórn sjálfir skuli kostnaður vegna vinnuframlags aðstoðarverkstjórnenda vera sérstaklega skilgreindur og leggjast við þann heildarkostnað sem fyrr hefur verið reiknaður.”
Kostnaður vegna NPA samninga skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga þannig að sveitarfélög greiða 75% af samningsupphæð og ríkið 25%. Að mati Sigurbjargar ættu nýir samningar, og beiðnir um viðbót við eldri samninga, ekki að stranda á Kópavogsbæ.
“Mér þætti rétt að afgreiða nýjar umsóknir, og umsóknir um viðbætur við eldri samninga, þannig að þær yrðu samþykktar fyrir okkar leyti og tækju gildi þegar ríkið hefur gefið vilyrði fyrir sínum hlut af samningsupphæðinni. Það er ljóst að það fjármagn sem áætlað var dugði ekki til að tryggja NPA notendum sinn lögbundna rétt til að lifa sjálfstæðu lífi, lausnin á því er að auka fjármagnið, ekki að brjóta lög og mannréttindi Kópavogsbúa í þágu skekkjulausrar fjárhagsáætlunar.”